Ragnheiður Hrefna Gunnarsdóttir
Ég lenti í skondnu atviki eða kannski ekki.
Ég bý í gömlu einbýlishúsi í Kópavogi. Það kostar mikið að eiga þetta hús; afborganir af lánum og fasteignagjöld, svo er ég með framkvæmdalán vegna viðgerða á frárennslislögnum og þaki og allt hitt sem allir þurfa að borga, þyrfti að skipta um hurðir því það lekur inn á gólfið hjá mér þegar rignir, það kostar sitt. En hvað með það, ég er bara eldri borgari, fæ ekki hækkun á bótunum mínum miðað við hækkun á vöxtum. Þegar ég er búin að borga skuldirnar okkar hjónanna eigum við um hundrað þúsund krónur til að lifa út mánuðinn. Þá eigum við eftir að borga lyfja- og lækniskostnað eins og margir eldri borgarar þurfa að gera. Nú eru góð ráð dýr. Eigum við að fara að minnka við okkur og kaupa litla sæta íbúð í blokk?
Við hjónin erum búin að skoða nokkrar íbúðir í Smáranum í nokkur ár. Yfirleitt eru þær of dýrar fyrir okkur miðað við verð sem við fáum fyrir húsið okkar eða þær seljast upp. Loksins sá ég íbúð sem okkur líkaði og faseignasalinn seldi okkur hana á staðnum. Það var bara eftir að gera tilboð, þetta var á föstudegi, við ætluðum að gera tilboð á mánudegi. Þegar við fórum til að ganga frá þessu hafði annar fasteignasali selt íbúðina og hverjum haldið þið? Fjárfesti! Hann keypti allar átta íbúðirnar sem eftir voru á þessum stað í Smáranum, til að leigja.
Nú erum við búin að tala við annan fasteignasala um íbúð á Digranesvegi. Þær eiga að vera svo flottar, náttúrulegar og vottaðar með Svansmerkinu, sem hentaði mér mjög vel. Ég er með öndunarfærasjúkdóm, astma og mæði og fleira. Ofnæmi fyrir fínu ryki. En hvað kostar svona íbúð, hef ég efni á henni? Ég vil helst kaupa á þessum slóðum til að geta komist í félagsmiðstöðvarnar í Gullsmára og Gjábakka. Stutt í Smáralind og heilsugæsluna. Ég er búin að búa á þessum slóðum yfir 40 ár. Því að breyta núna? Gott að búa í Kópavogi. Kannski kaupa gamla íbúð sem þarf að gera við eða breyta sem hentar okkur? En ef maðurinn er orðinn gamall og lúinn og getur ekki annast viðhald á húsinu okkar né sinnt 900 fermetra garði. Hvað þá? Fá fagmenn í það, hvað kostar það?
Þá er það pólitíkin. Það er tekin við ný stjórn núna: Inga Sæland, mín kona, félags- og húsnæðismálaráðherra, Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín utanríkisráðherra, Valkyrjurnar þrjár. Og það mun verða hart sótt að þeim.
Núna fer vonandi allt að breytast á betri veg fyrir okkur sem vöðum ekki í peningum. Talandi um verðtrygginguna sem hann Guðmundur Ingi Kristinsson, 9. þingmaður Suðvesturkjördæmis og þingflokksformaður í Flokki fólksins, vill losna við: Kannski værum við betur stödd fjárhagslega ef henni væri sleppt.
Höfundur er 23. varaþingmaður Flokks fólksins í Suðvesturkjördæmi.