Þórir S. Gröndal
Við, stúdentar úr Verslunarskólanum 1953 (vorum bara 16), ákváðum að fara í utanlandsferð til að fagna útskriftinni. Þetta var ekki algengt á þeim tíma, en við vorum búnir að safna peningum fyrir ferðinni í tvö ár. Siglt var út með nýja Gullfossi til Kaupmannahafnar en heim með danska áætlunarskipinu ms. Dronning Alexandrine. Að koma um borð í Gullfoss var eins og að vera strax kominn til útlanda. Veigar bjórbræðranna Tuborgs og Carlsbergs voru teygaðar af ferðalöngunum af ánægju og áfergju. Það var vel skiljanlegt, því á þeim tíma var áfengur bjór bannaður á Íslandi.
Ekki ætla ég að þreyta ykkur með að segja frá því sem fór fram á meginlandinu, en langar að nefna atvik sem gerðist á leiðinni heim með Drottningunni. Skipið kom við í Færeyjum og komu þar um borð nokkrir farþegar á leið til Reykjavíkur. Eins og við var að búast vorum við á þriðja farrými og þar voru máltíðir snæddar við tvö langborð. Eitt kvöldið sat ég við endann á öðru borðinu, en við hinn enda borðsins sat aldraður maður sem komið hafði um borð í Færeyjum. Fannst mér hálfóþægilegt hve honum varð starsýnt á mig.
Eftir matinn kom hann til mín og kynnti sig. Hann var Íslendingur, ættaður vestan af fjörðum, sem dvalið hafði meira en 40 ár í Færeyjum og var nú að snúa heim. Hann hafði alist upp í Hnífsdal og þar hafði hann kynnst manni að nafni Hálfdán Hálfdánarson, jafnan kenndur við Búð. Taldi hann mig bera sterkan svip af þessum manni eins og hann mundi eftir honum. Spurði hann hvort það gæti verið að ég væri skyldur Hálfdáni. Ég varð mjög hissa og hann varð aldeilis ánægður þegar ég sagði honum að Hálfdán í Búð, sem nú væri nýlega dáinn, hefði verið ömmubróðir minn.
Ekki er annað hægt að segja en að þessi náungi hafi verið mannglöggur í meira lagi. Hann sá svip með mér og kunningja sínum, sem hann hafði ekki séð í 40 ár. Og hann hafði rétt fyrir sér því vissulega vorum við Hálfdán skyldir. Þegar ég ber þetta saman við mína eigin glöggskyggni þá kem ég ekki vel út. Ég verð því miður að viðurkenna að ég er mjög ómannglöggur. Á liðinni ævi hefi ég oft komist í hann krappan vegna þess að ég hef ekki borið kennsl á fólk sem ég hefði átt að þekkja. Ég skal nefna nýjasta dæmið, sem gerðist fyrir nokkrum vikum.
Öldruð ekkja að nafni Janice flutti hingað í hverfið fyrir fáum árum. Á daglegum göngum mínum um nágrennið hafði ég hitt hana nokkrum sinnum. Hún var hávaxin kona með sítt dökkt (litað?) hár og hafði verið í hjúkrun í mörg ár og unnið á spítölum í Texas. Eitt sinn þegar ég gekk fram hjá húsi hennar kynnti hún mig fyrir stóra ljósbrúna kettinum sínum, Calvin. En svo liðu nokkrir mánuðir og einhver tjáði mér að Janice héldi sig mest innan dyra því hún ætti bágt með gang. Svo heyrði ég seinna að hún væri að bíða eftir að fá hnjáskipti.
Jæja, fyrir tveimur vikum, þegar ég var á minni daglegu göngu, sá ég hávaxna konu með dökkt sítt hár koma á móti mér. Hún notaðist við göngugrind á hjólum og gekk dálítið álút eins og göngugrindarfólk gerir oft svo ég gat ekki beint greint andlit hennar. Ég heilsaði strax og spurði hvernig gengi með nýja hnéð. „Það er ekkert að hnénu á mér. Ég er með öll mín upprunalegu liðamót eins og guð gaf mér,“ svaraði hún og það hnussaði í henni. Sú hugsun þaut eldsnöggt í gegnum huga mér að fréttin um hnjáskipti hennar hefði ekki verið á rökum reist. Í stað þess að svara henni beint spurði ég í allmiklu fáti: „Hvernig hefir kötturinn þinn, hann Calvin, það?“ Það stóð ekki á svarinu: „Ég hef aldrei átt kött og er með ofnæmi fyrir þeim,“ og svo strunsaði hún áfram án þess að kveðja. En ég stóð eftir eins og illa gerður hlutur.
Ekki er ég viss um hvort það að vera ómannglöggur gengur í ættir. En ég man eftir einu atviki með Benna bróður. Hann var elstur af okkur systkinum, bæði gáfaður og duglegur. Var hann orðinn íþróttafréttaritari á Alþýðublaðinu 19 ára að aldri, og gekk hann til vinnu úr Vesturbænum upp í Alþýðuhús. Í þá daga áttu tiltölulega fáir bíla og fólk lét sig hafa það að ganga, hjóla eða taka strætó. Benni hafði orðið sér úti um gaberdínfrakka og barðastóran hatt og sprangaði nú um strætin og fannst hann vera orðinn maður með mönnum.
En svo gerðist það einn dag að mamma fékk símtal frá vinkonu sinni, Guðríði, sem einnig var hálfgerður heimagangur hjá okkur. Henni var mikið niðri fyrir og sagðist hún hafa mætt Benna á Túngötunni og hann hefði ekki einu sinni heilsað sér. Í þá daga var þetta hið alvarlegasta mál. Það var skylda karla að heilsa konum sem þeir þekktu og taka ofan hattinn. Mamma tók Benna á teppið og hann lofaði bót og betrun. En svo gerðist þetta aftur og þá vandaðist málið. En Benni var hinn harðsvíraðasti og spurði: „Ef hún bar kennsl á mig, af hverju heilsaði hún þá ekki?“ Og við sat.
Höfundur er fyrrverandi fisksali og ræðismaður í Ameríku.