Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Rússar gerðu stóra loftárás á orkuiðnað Úkraínu í fyrrinótt og gærmorgun. Skutu Rússar rúmlega 40 eldflaugum á skotmörk víða um Úkraínu, auk þess sem þeir sendu rúmlega 70 sjálfseyðingardróna til árása á landið.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti fordæmdi árás Rússa og sagði að skotmark Rússa um hávetur væri alltaf hið sama, orkuiðnaðurinn. Sagði Selenskí að loftvarnir Úkraínu hefðu náð að granda að minnsta kosti 30 af eldflaugunum, en þar á meðal voru skotflaugar.
Svítlana Oníshtsjúk, héraðsstjóri í Ívanó-Frankívsk-héraði sem er í vesturhluta Úkraínu, sagði að árásin hefði beinst að mikilvægum innviðum, en að loftvarnir héraðsins hefðu virkað og ástandið væri því undir stjórn. Maksím Kositskí, héraðsstjóri í Lvív-héraði, sagði að mikilvægir innviðir héraðsins hefðu orðið fyrir árásinni. Ekkert mannfall varð í árásinni, en skemmdir urðu nokkrar.
Þurfti að skammta rafmagn í sjö héruðum Úkraínu eftir loftárásina og var m.a. rafmagnslaust tímabundið í Donetsk-héraði og í Kerson-borg.
Árás Rússa kom degi eftir að Úkraínumenn gerðu stærstu loftárás sína á Rússland frá upphafi innrásarinnar, en þar réðust þeir á efna- og skotfæraverksmiðjur, olíuhreinsistöð og olíutank, auk þess sem skotfærageymsla við Engels-herflugvöllinn var sprengd í loft upp. Var það í annað sinn á einni viku sem ráðist var á flugvöllinn.
Náði árás Úkraínumanna til skotmarka sem voru í allt að 1.100 kílómetra fjarlægð frá landamærum Rússlands og Úkraínu að sögn herráðs Úkraínuhers, en hún náði til héraðanna Bríansk, Saratov og Túla, auk þess sem eitt skotmark var í sjálfstjórnarlýðveldinu Tatarstan.
Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði í fyrradag að Úkraínumenn hefðu beitt bandarískum og breskum eldflaugum í árás sinni í Bríansk-héraði og að henni yrði ekki látið ósvarað. Sagði ráðuneytið að loftvarnir Rússa hefðu skotið niður sex bandarískar ATACMS-eldflaugar og sex breskar Storm Shadow-stýriflaugar í árásinni í fyrradag.
Hafa áhyggjur af stríðsfanga
Utanríkisráðherra Ástralíu, Penny Wong, sagði í gær að stjórnvöld þar reyndu að fá það staðfest að Rússar hefðu tekið Ástralann Oscar Jenkins af lífi, en Jenkins barðist sem sjálfboðaliði fyrir Úkraínu. Var hann tekinn til fanga í síðasta mánuði og birtist myndband af honum í haldi Rússa á samfélagsmiðlum.
Var sendiherra Rússlands kallaður á teppið vegna málsins, og sagði Wong í viðtali við áströlsku ABC-sjónvarpsstöðina að „allir möguleikar væru á borðinu“, m.a. að sendiherranum yrði vísað úr landi.
Anthony Albanese forsætisráðherra sagði í fyrradag að ríkisstjórnin hefði miklar áhyggjur af Jenkins og velferð hans, og að hún myndi grípa til „hörðustu mögulegu aðgerða“, ef hann hefði verið myrtur. Sagði Albanese brýnt að Rússar fylgdu alþjóðalögum um meðferð stríðsfanga.