Jarðvinna Framkvæmdir halda áfram við Álfabakka 2 á meðan íbúar bíða eftir samráðsfundi. Stórvirkar vinnuvélar að störfum við vöruhúsið í gær.
Jarðvinna Framkvæmdir halda áfram við Álfabakka 2 á meðan íbúar bíða eftir samráðsfundi. Stórvirkar vinnuvélar að störfum við vöruhúsið í gær. — Morgunblaðið/Karítas
Reykjavíkurborg og uppbyggingaraðilar vinna nú að tillögum um breytingar á húsinu að Álfabakka 2 vegna harðrar gagnrýni sem upp kom þegar húsið reis með miklum hraða. Einnig hefur borgarstjóri boðað samráð og samvinnu við Búseta og íbúa í nágrenni hússins

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Reykjavíkurborg og uppbyggingaraðilar vinna nú að tillögum um breytingar á húsinu að Álfabakka 2 vegna harðrar gagnrýni sem upp kom þegar húsið reis með miklum hraða. Einnig hefur borgarstjóri boðað samráð og samvinnu við Búseta og íbúa í nágrenni hússins.

Morgunblaðið spurðist fyrir um hvort komnar væru tillögur í málinu og fékk þau svör hjá Reykjavíkurborg að tillagna væri að vænta í næstu viku.

Í Silfrinu á RÚV á mánudag kom fram í máli borgarstjóra að samtal við uppbyggingaraðila og aðra hagsmunaaðila stæði yfir og verið væri að skoða hvernig hægt væri að breyta húsinu.

„Það eru til flottir arkitektar sem eru byrjaðir að teikna upp lausnir. Þetta byggir á samtali og samvinnu, af því við erum öll sammála um það að þetta er ekki eins og við viljum hafa hlutina,“ sagði Einar Þorsteinsson borgarstjóri.

Hagsmunaaðilum hafði ekki enn borist formlegt fundarboð í gær um hvers konar samtal eða samráð væri um að ræða.

„Hvort við berum fjárhagslega ábyrgð á málinu eða málið fari fyrir dóm er bara aukaatriði sem má ekki skyggja á þá vinnu sem við erum nú í,“ sagði Einar í sama þætti.

2.500 hafa skrifað undir

Eins og fram hefur komið stendur yfir undirskriftasöfnun til að mótmæla byggingu hússins. Kristján Hálfdánarson er ábyrgðarmaður söfnunarinnar. Í gær höfðu 2.516 manns skrifað undir.

Í greinargerð með undirskriftalistanum kemur fram að húsið og starfsemin séu algjörlega á skjön við samfélagið, gangi gegn markmiðum skipulagslaga og stefnu Reykjavíkurborgar um grænni byggð. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar, en þeirri tillögu hafnaði meirihluti borgarstjórnar á fundi sínum í síðustu viku.