„Íslendingafélagið í Los Angeles hefur verið starfrækt í mörg ár, en starfsemin datt svolítið niður í kórónuveirufaraldrinum,“ segir Agla Friðjónsdóttir sem er formaður félagsins í dag ásamt Tönju Ólafíu Gylfadóttur.
„Félagið hafði alltaf verið mjög virkt og alveg frábært fólk sem sá um það, sem vildi fara að snúa sér að öðru. Ég og vinkona mín Tanja buðumst til að endurvekja félagið og við tókum við stjórninni um mitt síðasta ár,“ segir Agla, en hún flutti til Los Angeles árið 2017.
Ný Íslendingasíða
„Við ákváðum strax að búa til nýja Íslendingasíðu og fórum að safna inn fólki, og núna eru 120 meðlimir skráðir í félagið á síðunni.“
Agla segir að félagsmenn Íslendingafélagsins reyni að hittast einu sinni á hverjum ársfjórðungi, á jólum, þorrablóti, 17. júní og svo á haustin. „Núna er næsti hittingur þorrablót.“
Tala íslensku
„Þegar við tökum við skráningum á síðunni fáum við alltaf fjölskylduupplýsingar og búsetu. Við sem búum hér sem erum með lítil börn viljum að börnin okkar geti hitt önnur börn og talað íslensku og myndað góð tengsl.“
Fleiri fundir
Stefnt er að því að fjölga fundum í Íslendingafélaginu og jafnvel skipta þeim niður á milli hverfa, enda Los Angeles-svæðið gríðarlega víðfeðmt.
„Við höfum verið að hugsa um að hafa hverfishittinga og jafnvel líka að skipta niður eftir aldri og áhugamálum. Til dæmis gæti barnafólkið hist saman og jafnvel unga fólkið sem fer meira út á lífið og aðrir hópar innan samfélagsins sem hafa svipuð áhugamál.“