Ungfrú Ísland „Við erum með fjórar lykilpersónur sem leiða vagninn og þar ber hin magnaða Íris Tanja, sem leikur Heklu, mest á herðum sér,“ segir leikstjórinn Gréta Kristín Ómarsdóttir.
Ungfrú Ísland „Við erum með fjórar lykilpersónur sem leiða vagninn og þar ber hin magnaða Íris Tanja, sem leikur Heklu, mest á herðum sér,“ segir leikstjórinn Gréta Kristín Ómarsdóttir. — Ljósmynd/ Íris Dögg Einarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Að gera leiksýningu upp úr skáldsögu er dálítið eins og þýðingarvinna því maður er að þýða úr einu tungumáli yfir á annað. Nú er komið meira en ár síðan við Bjarni Jónsson hófumst handa við leikgerðina og það var áskorun að finna leið til þess að…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Að gera leiksýningu upp úr skáldsögu er dálítið eins og þýðingarvinna því maður er að þýða úr einu tungumáli yfir á annað. Nú er komið meira en ár síðan við Bjarni Jónsson hófumst handa við leikgerðina og það var áskorun að finna leið til þess að þýða slagkraftinn í bókinni hennar Auðar og undirölduna sem er kraumandi í skáldsögunni hennar,“ segir leikstjórinn Gréta Kristín Ómarsdóttir innt eftir nálgun sinni á verkið Ungfrú Ísland, sem byggist á samnefndri bók Auðar Övu Ólafsdóttur og verður frumsýnt annað kvöld, föstudaginn 17. janúar, á Stóra sviði Borgarleikhússins. Verkið gerist um miðbik síðustu aldar og hverfist að miklu leyti um vinkonurnar Heklu og Íseyju. Hekla þráir að skrifa og gefa verk sín út en það reynist fjarlægur draumur fyrir unga konu á Íslandi á þessum tíma. Draumurinn virðist þó enn fjarlægari fyrir Íseyju, sem er gift og komin með barn, því henni virðast sjálfkrafa allar bjargir bannaðar. Með burðarhlutverk fara þau Íris Tanja Flygenring, Birna Pétursdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson og Fannar Arnarsson.

Trú verki Auðar Övu

„Aðalpersónur sögunnar eru ungt alþýðu­fólk sem berst, hvert á sinn hátt, við það að finna pláss fyrir listina og fegurðina í hversdagsleika og aðstæðum sem bjóða ekki upp á það. Eitt af því fyrsta sem ég gerði var að þýða þessa baráttu yfir á sviðstungumál. Mig langaði ekki að detta í einhverja klisju eða melódrama um þetta þekkta minni heldur vildi ég finna leið til að raungera eða líkamna sköpunina sjálfa og gera hana leikbæra, það er þessa gjörð að skrifa, skapa og búa til nýjan heim. Það hefur verið sá lykill sem við hópurinn höfum notað í nálguninni,“ útskýrir hún.

„Við vildum sýna sköpun Heklu, sem er að berjast fyrir því að skrifa og koma verkum sínum út, á sviðinu. Hún er því í beinu sambandi við áhorfendur og er í raun að skrifa bókina sína fyrir þeirra augum.“

Þá segir Gréta Kristín allan textann vera beint upp úr bókinni nema í örfáum undantekningartilfellum.

„Við höfum verið mjög trú verki Auðar, en skáldsagan er rík af húmor og sterkum myndum sem við kappkostum við að glæða lífi. Períódan og tíðarandi sögunnar verður ljóslifandi í vinnu stórlistamannsins Filippíu I. Elísdóttur, sem hannar búninga, og leikmynd Kristins Arnars og Brynju Björns er hönnuð og útfærð til þess að túlka bæjarmynd Reykjavíkur, sem er í uppbyggingu á þessum tíma, og sömuleiðis skilja eftir pláss fyrir ímyndunarafl áhorfenda.“

Áhugavert val á ytri tíma

Þá gerist verkið eins og fyrr segir um miðbik síðustu aldar, nánar tiltekið árið 1963, og telur Gréta Kristín það hafa verið snilldarlega klókt hjá Auði Övu að velja þennan ytri tíma í sögunni. „Þetta var mjög viðburðaríkt ár í mannkynssögunni og það verður svolítið táknmynd fyrir kraftinn sem kraumar undir öllum textanum í bókinni hjá Auði. Þetta er saga sem gerist á barmi byltingar rétt áður en alls konar barátta fyrir mannréttindum og breytingar fara af stað, til að mynda kvenréttinda­baráttan og stærri barátta jaðarhópa og kúgaðra úti í heimi, eins og mannréttindabarátta svartra í Bandaríkjunum,“ segir hún til útskýringar. „Einnig er kalda stríðið í algleymingi á þessum tíma og mikil austur/vestur-spenna. Þannig að þetta er mjög áhugavert val hjá Auði, svona rétt áður en alls konar gerist sem við áhorfendur og lesendur vitum en persónurnar í sögunni vita ekki.“

Fortíðin ákveðin gjöf

Spurð út í það að hvaða leyti verkið tali við samtímann segir Gréta Kristín margt koma upp í hugann.

„Það hefur kannski ýmislegt breyst að lögun og formi síðan 1963 en ég held að ráðandi hugmyndafræði sé enn innra með okkur og enn alltumlykjandi hvað varðar hefðbundin kynhlutverk og til hvers er ætlast af konum og körlum,“ segir hún og bætir við að það sé þó ákveðin gjöf að horfa aftur til fortíðar og líta í baksýnisspegilinn.

„Líta til gamals tíma og sjá heim sem er örlítið rúðustrikaðri og reglurnar aðeins skarpari og meira uppi á yfirborðinu en í dag þar sem þessar sömu reglur hafa færst undir yfirborðið. Mér finnst við Íslendingar meistarar í að gaslýsa okkur sjálf og segja að við séum fremst í röðinni hvað varðar mannréttindi, kvenréttindi og annað slíkt. En svo vita allar konur og allt hinsegin fólk og aðrir sem búa við jaðarsetningu að þetta er ekki alveg svona. Nú erum við að horfa á endurtekna rútínu fara af stað; fasismi er að ryðja sér aftur til rúms og popúlisminn er aftur að ná tangarhaldi á okkur þannig að þessi réttindi sem við höfum barist fyrir að fá eru alls ekki sjálfgefin og það þarf að viðhalda þeim. Ég held að gjöfin sem við fáum með því að horfa til baka sé sú að þá getum við séð og skoðað daginn í dag í háskerpu. Þurfa konur enn að velja á milli þess að stofna til fjölskyldu eða eiga farsælan feril? Getur fólk verið fleira en eitthvað eitt? Má eiga sér ólíkar hliðar og langanir? Fá kvenkyns listamenn líka framgang sem „snillingar“ eða er það hlutskipti aðeins ætlað karlmönnum? Sú spurning sem við viljum varpa fram með þessari sýningu er hversu langt við erum raunverulega komin frá veruleika ársins 1963.”

Bera virðingu fyrir sögunni

Tekur Gréta Kristín það sérstaklega fram að mikið sé lagt upp úr því að nálgast persón­urnar í verkinu og þetta tímabil í sögunni með mikilli virðingu. Þá finni hún til ábyrgðar að gera það vel og sé einstaklega þakklát fyrir það kærleiksríka og góða samband sem hún hafi átt við Auði Övu og það fulla traust sem hún hafi sýnt henni.

„Við sem komum að verkinu erum að fjalla um kynslóð foreldra okkar, amma okkar og afa. Ég vil tileinka þessa sýningu ömmu minni, Rósu Káradóttur, sem er jafn gömul persónunum sem eru í forgrunni í sögunni. Hún er enn lifandi, svo að þetta er sömuleiðis hennar saga og saga fólks sem enn er með okkur. Við viljum alls ekki smætta fortíðina í einhverja friðþægingu fyrir okkur í dag eða bera kynslóðirnar saman á neikvæðan hátt: „Æi, sjáðu hvað allt var glatað í gamla daga og hvað við erum frábær í dag.“ Við erum í rauninni ekki að halda neinu fram í sýningunni eða staðhæfa neitt um fortíðina. Við erum einungis að gera þessum tíma og þessum persónum góð skil og höfum lagt mikið kapp á að gera þær þrívíðar, heilar og áhugaverðar.“

Þá segist hún sjálf hafa alist upp með konum eins og Heklu og Íseyju, konum sem hafi átt sínar langanir og þrár. „Ég tengi mjög sterkt við báðar þessar persónur, bæði í gegnum sögu ömmu minnar og mína eigin sögu. Amma er stórkostleg kona sem stóð ekkert annað til boða á sínum tíma en að fara í húsmæðraskóla. Hún er mikill listamaður og hefur skrifað mikið en það var aldrei ráðrúm til þess að gera mikið í því, svo að ég velti því fyrir mér hversu mörgum listamönnum og skáldum við höfum misst af? Það sama á við í dag því ég tengi líka við þetta samband Íseyjar og Heklu þar sem ég er sjálf barnlaus og hef allan heimsins tíma til að einbeita mér að störfum mínum og ástríðu í sviðslistum en á síðan nána vini sem eiga fjölskyldu og börn. Það er áhugavert á þessu persónulega plani að skoða hvað við erum oft með ákveðnar væntingar eða vörpum einhverju á hvert annað sem er ekki endilega raunverulegt eða frá okkar eigin sannfæringu komið. Svona eins og þær gera vinkonurnar í bókinni og í sýningunni. Við höldum oft að einhver sé að dæma okkur fyrir það að velja að eignast barn eða eignast ekki barn en svo er það kannski ekki raunin heldur miklu meira einhver samfélagsleg hugsun sem smitast inn í okkar eigin hugmyndir og sambönd okkar við fólk.“

Dýnamískur leikhópur

Að sögn Grétu Kristínar gekk afar vel að velja leikhópinn, en með önnur hlutverk fara þau Esther Talía Casey, Haraldur Ari Stefánsson, Jörundur Ragnarsson, Sólveig Arnarsdóttir, Unnsteinn Manuel Stefánsson, sem einnig er tónlistarstjóri, Valur Freyr Einarsson, Vilhelm Neto og Þórunn Arna Kristjánsdóttir.

„Mig langaði mikið í dýnamískan hóp og það hefur verið ótrúlega skemmtilegt að vinna með þessum sterku og næmu listamönnum í ferlinu. Við erum með fjórar lykilpersónur sem leiða vagninn og þar ber hin magnaða Íris Tanja, sem leikur Heklu, mest á herðum sér. Persónugalleríið er einnig stórt og það eru 12 manns á sviðinu sem leika samtals um 35 hlutverk. Vinnan með þessu dýnamíska „ensemble“ hefur verið ofsalega skemmtileg, ferlið hefur verið gjöfult og fallegt og sprúðlandi leikgleði á hverju strái. Hópurinn er einstaklega samstilltur og sterkur og saman höfum við fundið sameiginlegt sviðstungumál til þess að segja þessa sögu; sögu sem fjallar jafnframt um sögu og einnig það hvernig saga verður til,“ segir hún kímin og bætir því við aðspurð að lokum að æfingar hafi gengið mjög vel og eftirvæntingin í hópnum sé mikil fyrir morgundeginum.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir