Símon Ingi Kjærnested fæddist 18. febrúar 1945 í Reykjavík. Hann lést 9. janúar 2025 á Landspítalanum í Fossvogi, í faðmi fjölskyldunnar.
Símon var sonur þeirra Guðmundar Kjærnested skipherra, f. 29. júní 1923, d. 2. september 2005, og Margrétar Önnu Símonardóttur Kjærnested húsmóður, f. 3. september 1923, d. 19. september 2016.
Símon var elstur af fjórum systkinum, hin eru Örn Kjærnested, f. 10. nóvember 1948, Helgi Stefnir Kjærnested, f. 12. nóvember 1954, d. 29. desember 2020, og Margrét Halldóra Kjærnested, f. 17. apríl 1960.
Símon giftist Elínborgu Matthildi Stefánsdóttur Kjærnested, f. 21 september 1945, þann 22. október 1966. Foreldrar hennar eru Stefán Guðjón Sigurðsson kaupmaður, f. 21. september 1911, d. 29. maí 1988, og Laufey Jakobsdóttir Thorarensen, f. 20. ágúst 1917, d. 11. febrúar 2000.
Synir þeirra eru: 1) Guðmundur Kjærnested, f. 12. október 1967, giftur Margaret Elizabeth Kjærnested, f. 13. ágúst 1969, börn þeirra eru a) Lilja Wells Kjærnested, f. 10. september 2003, b) Guðmundur Thor Kjærnested, f. 28. september 2005, c) Niels Spencer Kjærnested, f. 2. maí. 2007. 2) Stefán Kjærnested, f. 19. desember 1971, fyrrverandi eiginkona hans er Ásgerður Ósk Jakobsdóttir, f. 7. maí 1976. Börn þeirra eru a) Viktoría Ósk Kjærnested, f. 8. maí 2003, b) Kristófer Ingi Kjærnested, f. 8. júní 2004, d. 25. apríl 2021, c) Arndís Ósk Kjærnested, f. 28. október 2008, d) Hrafnhildur Ósk Kjærnested, f. 18. september 2012. 3) Brynjar Kjærnested, f. 12. október 1977, giftur Hjördísi Jónsdóttur, f. 12. janúar 1980. Dóttir Brynjars frá fyrra hjónabandi með Paolu Cardendas, f. 21. september 1977, er a) Líf Ísabel Cardenas Kjærnested, f. 20. nóvember 2002. Börn Brynjars og Hjördísar eru b) Jón Ingi Kjærnested, f. 6. ágúst 2009, c) Símon Elí Kjærnested, f. 6. júlí 2011, d) Una Lind Kjærnested, f. 31. ágúst 2014.
Símon ólst upp á Þorfinnsgötu 8 í Reykjavík. Sautján ára fór hann sem AFS-skiptinemi til Bandaríkjanna og dvaldi í Bangor í Maine í eitt ár. Hann stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands og útskrifaðist sem löggiltur endurskoðandi frá Háskóla Íslands. Hann starfaði á endurskoðunarskrifstofu Svavars Pálssonar, þaðan lá leiðin til Loftleiða þar sem hann vann í tvö ár og rak síðar sína eigin endurskoðunarskrifstofu. Hann var einn af stofnendum Atlantsolíu og stjórnarformaður um langt árabil.
Símon tók þátt í ýmsum félagsstörfum en hann var í skátunum frá unga aldri, einnig var hann meðlimur í Lionsklúbbnum Nirði, Frímúrarareglunni og Snarfara. Hann var virkur í bátasportinu og keypti sinn fyrsta bát árið 1974 sem var notaður til að ferðast umhverfis landið með fjölskyldunni og þá sérstaklega í Breiðafirðinum. Hann var mikill veiðimaður og stundaði bæði sjóstangaveiði og laxveiði.
Útförin fer fram í Hafnarfjarðarkirkju í dag, 16. janúar 2025, kl. 13.
Elsku pabbi, nú er komið að leiðarlokum í þessu jarðneska lífi.
Þú barðist eins og hetja á gjörgæslu í þrjár vikur eftir endurlífgun. Slagæð sprakk þegar þú varst uppi á spítala að bíða eftir að fara í æðaþræðingu og þú varst endurlífgaður eftir 30 mínútur, það var of langur tími. Læknarnir gerðu allt til að þú kæmist á lappir en líkaminn gat ekki meir. Ég kom daglega upp á gjörgæslu, talaði við þig og við náðum stundum smá sambandi. Það er huggun að vita þú heyrðir það sem ég sagði og ég gat kvatt þig fallega.
Pabbi, þú varst mér góður faðir. Kenndir mér margt og hvattir mig alltaf til að gefast ekki upp þegar á móti blés. Þú kenndir mér að hjóla, sigla, gera við hjólið mitt, þrífa bíla, vaska upp og taka ábyrgð. Hvattir mig til að fara í nám erlendis, bæði sem skiptinemi og líka í háskóla.
Minningar sem standa upp úr með þér eru stundirnar sem við áttum í kringum bátasportið. Þar nutum við okkar best saman; sigla um Breiðafjörð, Vestfirði og meira að segja að Kolbeinsey, sem er 55 sjómílur norður af Íslandi. Þú vildir fara í land á léttabátnum, en ég stoppaði það, vildi ekki að við lentum í hrakningum svo langt frá meginlandinu. En þetta er dæmi um hvað þú varst mikill landkönnuður og ævintýramaður.
Þú varst mjög handlaginn, kunnir að gera allt til að viðhalda bátnum og hafðir hann alltaf í toppstandi og sparaðir aldrei þegar kom að bátunum.
Þú lagðir metnað í að hafa alla hluti á hreinu í kringum þig. Þrastanesið, sem þú byggðir fyrir tæpum 50 árum, er eins og nýtt, viðhaldið var alltaf 100%, bílarnir voru alltaf hreinir, skórnir burstaðir, skyrturnar straujaðar (mamma sá um það) og jakkafötin pressuð. Það var klassi á þér.
Skapgerð þín var einstök, þú varst fastur fyrir, kurteis, yfirvegaður og misstir aldrei stjórn á skapi þínu. Þú varst vel liðinn og fólk bar virðingu fyrir þér.
Þú varst mikill herramaður, elskaðir mömmu frá 18 ára aldri, kallaðir hana alltaf „engilinn minn“. Þið voruð einstaklega náin og áttuð gott líf saman.
Kristófer Ingi, sonur minn, tekur vel á móti þér. Þið voruð alltaf miklir vinir.
Við kvöddumst alltaf með því að segja „ég elska þig“ og nú kveð ég þig í hinsta sinn. Góða ferð pabbi, ég elska þig.
Þinn sonur,
Stefán.
Elskulegur tengdafaðir minn hefur nú kvatt okkur eftir skammvinn veikindi og verður hans sárt saknað. Ég kynntist Símoni og Ellu fyrir rúmum 18 árum þegar við Brynjar byrjuðum saman og fann strax hversu náin fjölskyldubönd voru þarna á milli. Ég hef alltaf þakkað fyrir það hversu heppin ég er með tengdaforeldra en það er ekki sjálfsagt að eiga svona góða vini í tengdaforeldrum sínum.
Símon hefur alltaf verið alveg ótrúlega blíður og góður maður og þökk sé honum hef ég fengið að sjá Ísland með allt öðrum augum en ég hafði upplifað áður. Símon tók nefnilega upp á því að kaupa sér bát og fara að sigla með fjölskyldu sína þegar hann var yngri. Þessi áhugi smitaðist svo yfir til okkar en við sigldum á hverju sumri á bátnum Ými sem þeir feðgarnir áttu saman. Þá var nánast stoppað í hverri eyju þar sem Símon spjallaði við eyjabúa og aðra sem á vegi hans urðu. Símon var mjög góður að sigla og fór oft ótroðnar slóðir, hann merkti síðan flóknar leiðir að eyjunum inn á sjókort sem eru notuð enn þann dag í dag til að komast áleiðis. Hans uppáhaldseyjar voru Bjarneyjar en þangað var haldið á hverju sumri og eyjarnar og dýralífið skoðað. Þessar minningar eru mér mjög dýrmætar.
Það sem stendur einnig upp úr þegar ég minnist hans er þessi mikli viljastyrkur sem Símon bjó yfir en hann lét ekkert stoppa sig í því sem hann ætlaði sér og dáðist ég að því hjá honum.
Símon var ákaflega duglegur, hann var alltaf að, hvort sem það var að fara í sund, gönguferðir, þrífa bílana eða kíkja í og nostra við bátinn sem var í Snarfara en þennan dugnað sé ég í syni hans og barnabörnum. Þolinmæði hans var mikil og var hann því frábær kennari sem hans nánustu fengu að njóta góðs af, barnabörnin vildu miklu frekar fá afa til að kenna sér en að fá pabba í það hlutverk.
Sambandið milli hans og Ellu var einstaklega fallegt og virðingin og ástin sem þau sýndu hvort öðru er okkur góð fyrirmynd. Það er svo fallegt hvernig þau töluðu hvort til annars og var Ella alltaf engillinn hans Símonar. Við munum halda utan um hana og vera til staðar ávallt.
Símon var mjög mikill fjölskyldumaður og eyddi miklum tíma með okkur og barnabörnunum sem fengu að alast upp við þau forréttindi að hafa ömmu og afa í næsta húsi og alltaf vissi maður þegar þau höfðu verið í heimsókn þar sem afi hafði greinilega verið að knúsa þau og fann maður lyktina af rakspíranum hans.
Elsku Símon ég mun alltaf minnast þín með ást, hlýju og þakklæti.
Hvíl í friði.
Hjördís Jónsdóttir.
Elsku afi okkar.
Það er með sorg í hjarta sem við kveðjum þig.
Við þökkum fyrir það að eiga mikið af góðum minningum um þig sem verður alltaf gaman að rifja upp. Þú varst alltaf blíður, góður og þolinmóður við að kenna okkur hina ýmsu hluti, eins og hvernig ætti að þrífa bílinn, veiða, allt sem tengist bátasportinu og svo mætti lengi telja. Svo var líka rosalega gott að faðma þig.
Helstu minningarnar okkar með þér eru sundferðirnar sem þú varst duglegur að fara með okkur í, gönguferðirnar, fjölskylduboðin, skíðaferðirnar og að sjálfsögðu bátsferðirnar á Ými sem við fórum í á hverju sumri. Síðasta ferðin sem við fórum á bátnum var í Breiðafirðinum núna í sumar og þú vildir fara upp á allar eyjarnar þótt það væri oft erfitt yfirferðar en þú komst alltaf þangað sem þú ætlaðir þér með bros á vör.
Þú varst alltaf í góðu skapi og elskaðir glens og gaman. Áramótin voru stór hjá okkur en líklegast hafðir þú meira gaman af öllum sprengjunum en pabbi og við krakkarnir.
Við munum alltaf minnast þín með hlýju og þakka fyrir þann tíma sem við áttum með þér.
Við elskum þig afi og vitum að þú vakir yfir okkur.
Jón Ingi, Símon Elí og Una Lind.
Elsku afi minn.
Þú kenndir mér að elska sjóinn og þegar ég frétti að þú værir að kveðja okkur þá fór ég að sjónum fyrst ég gat ekki komist til þín. Ég fann svo sterkt fyrir þér og með tásurnar mínar ofan í sjónum fann ég fyrir heita knúsinu þínu og rakspíranum. Þú varst yndislegur afi og ég lærði margt af þér.
Þú varst mjög þrjóskur og agaður og ég er svo glöð að hafa fengið þá eiginleika frá þér. Man eftir því að þegar þig langaði að fara á bátinn eða til Spánar þá gerðirðu það bara þó svo að stundum þyrftir þú að hafa fyrir því að sannfæra ömmu en þú gafst aldrei upp og á endanum fór hún alltaf með þér. Ég mun núna passa upp á ömmu og fá hana til að heimsækja mig til Spánar og víðar. Afi, ég lofa að hún er í góðum höndum hjá okkur Kjærnested-fjölskyldunni.
Man bara að þú lést ekkert stoppa þig og ég ætla að tileinka mér það í framtíðinni að vera með viljastyrkinn og agann sem þú hafðir elsku afi.
Ég elska þig svo mikið elsku afi minn.
Ég mun alltaf minnast þín þegar ég horfi á sjóinn.
Hvíldu í friði.
Líf.
Elsku afi okkar, hann Símon, á sérstakan stað í hjörtum okkar. Í uppvextinum eyddum við oft sumrum hjá ömmu og afa og þær stundir eru margar af bestu minningum lífs okkar. Á þessum sumrum vorum við svo lánsöm að eyða miklum tíma með afa, ferðast um landið í ýmsar skoðunarferðir.
Það sem stendur helst upp úr þessum skemmtiferðum voru ekki bara áfangastaðir sem við heimsóttum heldur ferðirnar sjálfar. Bíltúrarnir voru fullir af djúpum og heillandi samtölum við afa. Við töluðum um allt – heimsfréttir, næstu máltíð okkar og jafnvel muninn á glæparéttarkerfum um allan heim. Afi bjó yfir ótrúlegri þekkingu og hver umræða gaf okkur tækifæri til að læra eitthvað nýtt.
Stundum, meðan á þessum ökuferðum stóð, benti afi á að því er virtist venjulega staði, en gaf sér tíma til að útskýra sögu þeirra eða mikilvægi.
Stundum átti hann það til að fara krókaleiðir bara til að skoða eitthvað sem við fyrstu sýn virtist ómerkilegt, en með sögum og útskýringum afa breyttust þessar stundir í ógleymanlegar kennslustundir, ríkar af merkingu. Í gegnum þessa reynslu fræddi hann okkur ekki aðeins um Ísland og sögu fjölskyldu okkar heldur kenndi hann okkur dýpra þakklæti fyrir íslenska arfleifð okkar – hluti sem við hefðum kannski aldrei lært annars.
Þegar litið er til baka var hver stund með ömmu og afa, og þá sérstaklega afa, dýrmæt. Þessi sumur snerust ekki bara um fjölskyldutíma – þau snerust um tengsl, menningu og nám. Ástríða afa fyrir kennslu og miðlun setti varanlegt mark á okkur og okkur mun að eilífu þykja vænt um tímann sem við áttum saman. Arfleifð hans lifir í öllu því sem hann kenndi okkur og við erum innilega þakklát fyrir lærdóminn sem hann gaf okkur.
Það sem við munum helst minnast um afa er þolinmæði hans, húmor og almenn nægjusemi. Hann hafði lag á að láta hverja stund vera innihaldsríka og róleg nærvera hans mun að eilífu lifa í hjörtum okkar.
Lilja, Thor og Níels.