Halldór Marteinn Hjartarson fæddist í Bæ við Steingrímsfjörð 15. maí 1930. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 29. desember 2024.
Foreldrar Halldórs voru Guðrún Ottósdóttir húsfreyja, f. 14.12. 1899, d. 14.8. 1980, og Hjörtur Samsonarson sjómaður og bóndi, f. 15.4. 1893, d. 19.7. 1971. Systkini Halldórs: Halldóra, Sigrún, Margrét, Finnfríður, Unnur og Hermann, sem öll eru látin, svo og Lilja og Fjóla sem lifa bróður sinn.
Halldór kvæntist 28.12. 1956 eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigrúnu Ástu Sigurbjartsdóttur, f. 31.1. 1936. Foreldrar hennar voru Sigurbjartur Vilhjálmsson húsasmíðameistari og Þuríður Magnúsdóttir húsmóðir, búsett í Hafnarfirði. Börn Halldórs og Sigrúnar eru þrjú: 1) Þuríður Erla, f. 5.3. 1955, gift Kristni Andersen og eiga þau tvo syni, a) Halldór, f. 15.8. 1988, í sambúð með Unni Flemming Jensen og eiga þau einn son, Kristþór Flemming, f. 12.12. 2021, og b) Geir, f. 10.5. 1994, í sambúð með Hallgrími Hjálmarssyni. 2) Sigurbjartur, f. 23.6. 1956, kvæntur Margréti Ragnarsdóttur. Börn Sigurbjarts og Aðalheiðar Jörgensen: a) Bent Bjarni, f. 21.4. 1988, d. 20.5. 2015, sonur hans og Erlu Sóleyjar Heide Sævarsdóttur er Bjartur Freyr, f. 8.10. 2009. b) Sigrún Ásta, f. 12.9. 1989, gift David Young og eiga þau tvo syni, George, f. 11.11. 2018, og Bent, f. 11.11. 2018. Börn Margrétar eru a) Jóhanna Astrid Arnarsdóttir, f. 9.6. 1990, í sambúð með Arnari Frey Gunnsteinssyni og eiga þau soninn Ragnar Gauta, f. 29.7. 2024. b) Ragnar Aron Arnarsson, f. 6.11. 1993, í sambúð með Alexöndru Ósk Guðjónsdóttur og eiga þau soninn Elmar Darra, f. 15.8. 2022. 3) Jóhann, f. 1.8. 1968, kvæntur Margréti Lárusdóttur og eiga þau tvö börn, a) Júlíu Ósk, f. 28.11. 1999, í sambúð með Arnari Loga Elínarsyni, og b) Martein Loga, f. 5.9. 2004.
Á yngri árum starfaði Halldór við landbúnað og vegavinnu í Strandasýslu, þar sem hann ólst upp. Hann flutti til Hafnarfjarðar 1953, stundaði sjómennsku við fiskveiðar og fragtflutninga og starfaði einnig við skipa- og húsasmíðar. Halldór var lögreglumaður í Hafnarfirði 1966-72 og gerði út mb. Faxaborg 1973-76. Hann starfaði við tollgæslu og útlendingaeftirlit í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli í tuttugu ár, eða þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Halldór var í keppnisliði skíðamanna Strandamanna á árunum 1948-52. Þá var hann varaformaður og stjórnarmaður í Tollvarðafélagi Íslands um nokkurra ára skeið.
Halldór var hagleiksmaður og listfengur. Hann naut tónlistar og söng í kórum, útskurður og smíðar léku í höndunum á honum og hann stundaði listmálun í frístundum ásamt eiginkonu sinni.
Útför Halldórs fer fram frá Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði í dag, 16. janúar 2025, klukkan 13.
Það var í ársbyrjun 1980 sem ég hitti fyrst verðandi tengdaforeldra mína, þegar hún Erla mín bauð mér, Reykjavíkurpiltinum, heim til sín í Klettahraunið suður í Hafnarfirði skömmu eftir að við höfðum kynnst. Þar hófst vinátta við þau yndislegu hjón, Halldór og Sigrúnu, sem aldrei hefur borið skugga á.
Strax og ég kynntist Halldóri skynjaði ég að hann átti sterkar taugar til æskuslóðanna norður á Ströndum. Hann hneigðist snemma að íþróttum og sem unglingur tók hann þátt í byggingu nýrrar Gvendarlaugar í Bjarnarfirði, en á ljósmynd sem þar er uppi frá vígslu laugarinnar má sjá Halldór í þann veginn að stinga sér þar til sunds frá nýsteyptum sundlaugarbakkanum. Skíðaiðkun var annað áhugamál hans, sem hann stundaði af kappi og tók hann þátt í að keppa fyrir hönd Strandamanna.
Þegar Halldór var kominn af unglingsaldri hleypti hann heimdraganum og flutti suður til að leita nýrra tækifæra. Hann starfaði um tíma í skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði, þar sem hann kynntist verðandi eiginkonu sinni, Sigrúnu Ástu, og sagði hann það hafa verið sitt mesta gæfuspor.
Halldór var sérstaklega lagtækur og smíðar léku í höndunum á honum. Hann byggði hús þeirra hjóna í Hafnarfirði, það fyrra í Köldukinn 15 og það síðara á Klettahrauni 9, að miklu leyti sjálfur og sömuleiðis byggði hann sumarhús þeirra og sælureit til fjölda ára í Skorradal. Þegar sá fyrir endann á húsbyggingum dró hann fram útskurðarhnífinn og hélt áfram, fram eftir aldri, að skera út skrautmuni úr við af miklum hagleik. Ennfremur var Halldór lagtækur við listmálun og deildi því áhugamáli með eiginkonu sinni, Sigrúnu, sem líka hafði næmt auga og hæfileika á því sviði. Þá var Halldóri fleira til lista lagt en að vinna með liti og tré, því hann hafði mikla ánægju af tónlist og söng m.a. með kórum sem störfuðu í Hafnarfirði.
Önnur hlið á Halldóri var óbilandi dugnaður og hugvitssemi í því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann stundaði útgerð um hríð, þar sem hann kynnti sér alla tæknilega þætti skipa og veiðarfæra og um tíma vann hann að þróun vélknúins verkfæris sem nota mætti við netaviðgerðir og hann vann að einkaleyfisumsókn fyrir.
Ungi maðurinn sem hóf vegferð sína norður á Ströndum fyrir 94 árum hefur átt langa og farsæla ævi. Ég hef átt þess kost að fylgjast með því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur, stundum reynt að leggja mitt af mörkum, en fyrst og fremst hef ég notið þess að eiga hann sem tengdaföður og góðan vin. Ég kveð þig kæri Dóri, þakka þér allar ánægjustundirnar og við eigum með okkur áfram hlýjar og kærar minningar um alla framtíð.
Kristinn Andersen.
Afi er farinn frá okkur eftir 94 snúninga í kringum sólina. Þann 29. desember 2024, þegar ég fékk þær fregnir að þú hefðir lagt upp í ferðalag hið óútskýrða, fann ég það strax innra með mér að þú værir á góðum stað.
Þín saga er einstök. Þú upplifðir tímana tvenna og tókst á við áskoranir sem fáir í dag geta ímyndað sér. Fyrstu árin þín voru í torfbæ á Vestfjörðum, þar sem lífið var krefjandi og fólkið þurfti að treysta á seiglu og þrautseigju. Þú sagðir mér oft frá þessum árum og líka frá upplifun þinni af seinni heimsstyrjöldinni, en þú varst 15 ára þegar stríðinu lauk. Árin þín á Vestfjörðum mótuðu þig og kenndu þér að standa á eigin fótum, því þú vissir að enginn nema þú sjálfur myndi móta þína framtíð. Þegar þú fluttir suður til Hafnarfjarðar hófst nýr kafli í lífi þínu. Þar kynntist þú ömmu, lífsförunaut þínum, og saman byggðuð þið ykkur líf – tvö einbýlishús, sumarbústað og ótal minningar sem ég er þakklátur fyrir. Þú varst maður sem lét ekkert stoppa sig. Þú sýndir okkur öllum að með vinnusemi, þrautseigju og drifkrafti væri hægt að ná hvaða markmiði sem er.
Mínar fyrstu minningar af þér eru frá Keflavíkurflugvelli, þar sem þú varst tollvörður. Ég var þriggja ára, á leið til Spánar með mömmu, pabba og Halldóri, þegar ég sá þig í einkennisbúningnum þínum, brosandi og heilsaðir mér með glettni. Síðan þá eru minningarnar ótal margar. Ein af þeim minningum sem ég gleymi seint er þegar þú fjarlægðir geitungabú með berum höndum, stappaðir á því og spreyjaðir eitri á það. Ég varð skíthræddur og horfði á þig í garðinum með derhúfuna þína og ský af geitungum í kringum þig. Að sjálfsögðu var sjóarinn og Vestfirðingurinn hann afi ekki í neinum hlífðarfatnaði og gat ekki verið meira sama um nokkrar stungur – hann einfaldlega kramdi geitungana með lófunum.
Elsku afi, ég sakna þeirra tíma þegar þú og amma bjugguð á Klettahrauninu og allra þeirra einstöku minninga sem ég á þaðan, yfir jólin og sumarið og allt þess á milli. Ég er mjög þakklátur fyrir öll þessi ár og þær minningar sem ég á með ykkur tveimur. Ég kom reglulega eftir skólann til ykkar og mér fannst alltaf jafn gaman að kasta „handsprengju af umræðuefni“ til ykkar og æsa þig og ömmu upp við eldhúsborðið. Eftir sitja margar hlýjar og góðar minningar af þér og ömmu, sem lengst af voruð við góða heilsu eða þar til 2020 þegar aldurinn var farinn að segja til sín. Nú er komið að kaflaskilum, en minning þín, ákveðni og drifkraftur situr eftir. Ég skil við þig, elsku afi, með hlýjar minningar í hjarta og ég mun halda minningu þinni á lofti.
Geir Andersen.