Viðtal
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
„Ég man þetta mjög skýrt og hef alltaf getað lýst þessum aðstæðum þegar ég hef verið spurð út í atvikið. Þessi dagur 16. janúar er enn rosalega erfiður þótt ég sé orðin fullorðinn. Þennan dag tölum við í fjölskyldunni um þessa atburði þótt foreldrar mínir hafi lengi vel átt mjög erfitt með að ræða þetta. Ég held að það hjálpi manni mikið að segja hlutina upphátt,“ segir Elma Dögg Frostadóttir þegar blaðamaður Morgunblaðsins sest niður með henni á heimili hennar í Grafarholtinu í Reykjavík.
Þjóðarathygli vakti þegar fréttir bárust af björgun Elmu úr snjóflóðinu í Súðavík en hún hafði legið föst í rústum æskuheimilisins í 15 klukkutíma. Björgun þessarar 14 ára gömlu stúlku var ein fárra góðra frétta sem landanum bárust frá Súðavík þessa dimmu daga fyrir þremur áratugum. Elma var í fastasvefni eins og foreldrar hennar, Frosti og Björg, sem einnig björguðust. Gunnar bróðir hennar gisti hjá kærustu sinni þessa nótt í húsi sem lenti ekki í flóðinu og sú þriðja í systkinahópnum, Ingibjörg, bjó í Reykjavík.
„Þegar höggbylgjan kom á undan snjóflóðinu sjálfu þá myndaðist ofboðslegur hávaði sem ég vaknaði við og rúðan í herberginu sprakk. Ég var að reyna að rísa upp til að sjá hvað væri um að vera þegar flóðið skall á. Fataskápurinn fór ofan á mig og ég fékk nógu þungt högg á mjóbakið til þess að ég missti meðvitund. Ég hafði sofið með höfuðið upp við skápendann. Skápurinn féll yfir mig og bjargaði lífi mínu því snjórinn komst ekki ofan á mig fyrir vikið. Rúmið var alveg upp við skápinn og hann kramdi mig því ekki. Andlitið snéri upp að veggnum og ég fékk því smá rými til að anda. Í raun voru tvö þök ofan á mér og bíll nágrannans við fæturna,“ útskýrir Elma en upplýsingar sem þessar fékk hún síðar því hún áttaði sig ekki á því að hún hafði lent í snjóflóði.
Skápurinn bjargaði
„Það tók mig svolítið langan tíma að vita af mér í þessum aðstæðum og ég vissi ekki að þetta væri snjóflóð. Ég hafði legið nokkra stund þegar ég heyrði skrítið hljóð en hljóðið hvarf aftur. Eftir á að hyggja tel ég að þá hafi björgunarmenn verið að leita að mér í herberginu við hliðina út frá teikningu af húsinu. En ég lá dýpra en það svæði sem þeir leituðu á enda mikið drasl á milli okkar. Þegar leið á biðina var ég með hálfgerðu óráði og var með alls kyns ranghugmyndir. Þá var mér farið að líða ofboðslega illa,“ rifjar Elma upp og útskýrir örlítið betur um hvað þessar ranghugmyndir snérust.
„Ég skildi ekki af hverju mamma og pabbi væru ekki vöknuð og búin að fjarlægja þennan skáp ofan af mér. Eða hvers vegna bróðir minn hefði ekki hjálpað mér því hann kom alltaf við heima á morgnana áður en hann fór til vinnu. Biðin var löng. Í mínum huga hafði veðrið bara verið svo slæmt að rúðan hafði brotnað og vindurinn feykt skápnum ofan á mig. Ég hafði verið lengi að sofna út af látunum í veðrinu.“
Lífið var að fjara út
Eftir 15 klukkutíma í miklum kulda, með vökvaskort, líkamlega kvalin og með takmarkað súrefni segir Elma það vera ljóst að ekki hefði mátt tæpara standa. Leitarhundar eru með ólíkindum snjallir og einn þeirra hafði haldið áfram að vekja athygli leitarmanna á þessum rústum eftir að foreldrum Elmu hafði verið bjargað eftir hádegið. Glöggur björgunarsveitarmaður greindi þegar Elma öskraði og var hann staddur nokkuð fyrir ofan hana.
„Ég kallaði á mömmu og hélt áfram að kalla á hana þótt hún kæmi ekki. Ég öskraði af öllum lífs og sálar kröftum og loksins var mér svarað. Það tók mig tíma að skynja hvað væri verið að segja við mig því ég var svo rugluð. Hann var með vasaljós og reyndi að lýsa til að finna mig. Hann spurði mig nokkrum sinnum hvort ég sæi ljósið. Þá small eitthvað saman í höfðinu á mér og ég gat svarað honum: „Ég sé ljósið, ég sé ljósið, ég sé ljósið.“ Fljótlega eftir það varð ég skýrari í hugsun en læknirinn sagði mér síðar að ég hefði verið að fjara út. Þetta var komið á það stig að ég hefði ekki fundist lifandi ef þeir hefðu ekki fundið mig akkúrat á þessum tímapunkti,“ segir Elma og í framhaldinu var siglt með hana til Ísafjarðar. Tilviljanir í þessu lífi eru gjarnan merkilegar. Ísfirðingur, 19 ára að aldri, sem fór sem sjálfboðaliði í björgunarstarfið, var einn þeirra sem báru Elmu úr rústunum og í frystihúsið þar sem móttaka var fyrir þá sem björguðust. Hann er kærasti Elmu í dag.
Sýna þarf þakklæti
Elma Dögg leggur áherslu á að færa viðbragðsaðilum öllum þakkir fyrir fórnfýsi við björgunarstörfin en segir þátt heimamanna sem ruku út í óveðrið stundum vilja gleymast.
„Af því að ég er í lagi og foreldrar mínir einnig þá hefði ég ekki viljað skipta við Súðvíkingana sem fóru út um morguninn og voru að allan tímann. Eða björgunarsveitarfólkið sem kom alls staðar að til að hjálpa. Mér finnst eins og þeim sem lögðu mikið á sig til að hjálpa til í þessum aðstæðum hafi ekki verið þakkað nægilega vel fyrir. Stundum gleymast Súðvíkingar sem fóru út í svakalegar aðstæður og sáu hvað hafði gerst í litla þorpinu þeirra. Þau sinntu fólki með lífsmarki þar til frekari hjálp barst.“
Vann úr áfallinu löngu síðar
Áttaði sig á því síðar hversu mikið samviskubitið nagaði
Litla sem enga skipulagða áfallahjálp var að fá eftir hamfarirnar í Súðavík fyrir utan hin hefðbundnu hlutverk sálusorgara þjóðkirkjunnar. Slík viðbrögð höfðu þá ekki rutt sér til rúms á Íslandi.
„Fimm árum eftir flóðið átti ég rosalega erfitt. Ég heyrði af því að til væri sjóður sem hægt væri að sækja í til að fá fagaðstoð en þá var það hætt. Ég kom því að lokuðum dyrum en fór að lesa blaðagreinar um snjóflóðið og talaði við marga Súðvíkinga til að heyra þeirra frásögn. Mér fannst það hjálpa alveg ótrúlega mikið. Árið 2016 missti ég manninn minn í sjóslysi. Þá kom í ljós að ég hafði náttúrlega ekki unnið úr fyrra áfalli og í raun var það ekki fyrr en árið 2023 sem ég gat talað um mína reynslu án þess að finna fyrir samviskubiti eða jafnvel skömm,“ segir Elma en þekkt er að samviskubit getur gripið um sig hjá fólki sem lifir af atburði þar sem aðrir láta lífið.
„Eins og margir vita vorum við eina fjölskyldan sem lenti í flóðinu þar sem allir komust lífs af. Ég komst að því löngu síðar að samviskubitið hafði verið rosalega mikið.“
Nokkur tími leið þar til Elma fór aftur til Súðavíkur. Hún fór til Reykjavíkur í aðgerðir og dvaldi á Ísafirði hjá frænku sinni á meðan hún var í endurhæfingu. Seinni hluta vetrarins var auk þess kennaraverkfall í landinu.
„Þegar ég fór aftur í skólann í Súðavík um haustið leið ekki á löngu þar til snjóflóðið féll á Flateyri [26. október]. Þá kom fyrir að fólk segði við mig að ég hefði ekki yfir neinu að væla því að ég hefði komist lífs af. Þessi viðbrögð sátu svakalega í mér og í framhaldinu kaus ég að þegja um þessa atburði í langan tíma. Ég var bara barn og þetta hafði áhrif á mig. Ég missti nágranna og vini í flóðinu og þar létust börn sem ég hafði passað. Allir Súðvíkingar þekktu einhverja vel sem létust enda lítið samfélag.“
Elma nefnir annað sem hafi setið í henni lengi. Þegar hún var á sjúkrahúsinu á Ísafirði hafði henni ekki verið tilkynnt um að fólk hefði farist í snjóflóðinu.
„Þegar ég var komin út á Ísafjörð þá kom Linda grátandi til mín og Sigga Ranný einnig. Þá vissi ég ekkert um þá sem dóu og skildi ekki af hverju fólk kom grátandi til mín. Það situr í mér enn þann dag í dag að ég vildi að ég hefði vitað eitthvað um stöðuna. Þá hefði ég getað sýnt þeim samúð.“