Félagsmál Páll Andrésson á fundi Aðdáendaklúbbs Loftleiða í liðinni viku.
Félagsmál Páll Andrésson á fundi Aðdáendaklúbbs Loftleiða í liðinni viku.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Páll Andrés Andrésson hefur verið á fullu í félagsmálum í yfir 50 ár og ekki sér fyrir endann á því nema síður sé. Hann ræktar sköpunarhæfileikana með hópi manna þrisvar í viku og heldur utan um mánaðarlega kaffifundi Aðdáendaklúbbs Loftleiða auk annarra félagsstarfa

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Páll Andrés Andrésson hefur verið á fullu í félagsmálum í yfir 50 ár og ekki sér fyrir endann á því nema síður sé. Hann ræktar sköpunarhæfileikana með hópi manna þrisvar í viku og heldur utan um mánaðarlega kaffifundi Aðdáendaklúbbs Loftleiða auk annarra félagsstarfa.

Þrjá morgna í viku er Páll, sem er 85 ára, í smíðastofu í frístunda- og félagsstarfi fullorðinna í Árskógum 4 í Breiðholti. „Ég hef dundað mér hérna við að saga út Íslandskort og kort af Lúxemborg, tálga fugla og fleira í nokkur ár,“ segir hann, en þegar mest er mæta 16 manns. „Hér eru listamenn á heimsmælikvarða, menn sem ætti að stoppa upp, því þeir eru svo flottir.“

Gott líf í Lúx

Páll lærði að fljúga en segir að engin störf hafi síðan verið að fá í fluginu. „Ég hafði ekki efni á því að sitja úti á flugvelli í tíu til tólf ár og bíða eftir vinnu og því fór ég til Miami á Flórída og lærði þar flugumsjón.“ Að því loknu buðu Loftleiðir honum starf í Lúxemborg í tvo mánuði. „Við fluttum út vorið 1971 og mánuðirnir urðu að tólf árum, en þá var starfsemi Flugleiða þar lögð niður og við fluttum aftur til Íslands. Sem gamall Loftleiðastarfsmaður fékk ég ekki vinnu og þá fór ég bara að kenna á bíl og var ökukennari það sem eftir var starfsævinnar.“

Fjölskyldunni leið sérlega vel í Lúxemborg og erfitt var að flytja þaðan. „Ég grét mig í svefn á hverju kvöldi í að minnsta kosti 15 ár eftir að við fluttum. Lúxemborg er besta land í heimi og það er rosalega gott að búa þar,“ staðhæfir Páll. Segir reyndar að sumarhitinn sé hærri nú en áður og flestir íslenskir vinir sínir sem búi þar komi nú yfirleitt til Íslands á sumrin. „Hitinn fór einu sinni yfir 30 stig þegar við bjuggum þarna og það var helvíti erfitt, en nú gerist þetta á hverju sumri.“

Gunnar Björgvinsson stóð fyrir stofnun Íslendingafélagsins í Lúxemborg og ekki leið á löngu þar til Páll lét þar til sín taka. „Ég vann mikið fyrir félagið og sá um allan fjandann, var potturinn og pannan í þessu öllu saman, en 186 manns voru í félaginu þegar mest var,“ rifjar hann upp. Hann hafi líka aðstoðað Valgeir Tómas Sigurðsson við að koma upp innréttingum á veitingastaðnum Cockpit Inn og verið honum innan handar. „Ég var líka kokkur hjá Valgeiri um tíma, þegar hann vantaði kokk.“

Lengi vel var íslenska fánanum, 72 fermetrum að stærð, flaggað í Lúxemborg 17. júní eftir að Páll og Valgeir höfðu frumkvæði að því að gefa borginni fánann. Þeir borguðu 50% á móti Íslendingafélaginu, en fáninn kostaði 15.000 franka eða á þriðja hundrað þúsund krónur gamlar 1974. Kappið var mikið og á tímabili vildi Páll kaupa land norður við vötnin í Lúxemborg og reisa þar félagsheimili fyrir félagsmenn. Samið var við banka vegna kaupa á landinu og síðan var haldinn félagsfundur vegna málsins. „Góður vinur minn, sem var búinn að fá sér vel í tána, spurði hvort ætti að fara að kaupa golfvöll fyrir Palla og þar með var málið dautt. Sem betur fer.“

Á síðu Aðdáendaklúbbs Loftleiða á Facebook segir að hann hafi verið stofnaður þegar heimildamyndin um Alfreð Elíasson og Loftleiðir var frumsýnd 2009. Kaffifundur er í Café Atlanta í Kópavogi fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði. Páll segir að allir hafi verið dregnir á flot og hann hafi lengi aðstoðað Emil Guðmundsson við undirbúning kaffifundanna. „Emil ræður öllu, hringir í mig og segir mér hvað ég eigi að gera.“ Páll tekur m.a. myndir af öllum sem mæta í kaffið og birtir á síðunni. „Þá sjá allir í heiminum hverjir koma.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson