Guðmundur Lárusson fæddist á Kvennhóli í Klofningshreppi í Dalasýslu 9. mars 1930. Hann lést á heimili sínu 3. janúar 2025.

Foreldrar hans voru Lárus Daníelsson, f. 1901, d. 1985, og Guðný Nikolína Einarsdóttir, f. 1903, d. 1978. Systur Guðmundar eru Guðrún, f. 1932, d. 2023, og Valgerður, f. 1938.

Guðmundur kvæntist árið 1960 Birnu Óskarsdóttur hárgreiðslumeistara, f. 16. apríl 1941. Foreldrar hennar voru Óskar Gissurarson, f. 1903, d. 1990, og Ingibjörg Ásgeirsdóttir, f. 1905, d. 1984.

Synir Guðmundar og Birnu eru: 1) Lárus, f. 1961. Maki Kolbrún Sif Halldórsdóttir, f. 1963. Börn þeirra eru a) Ásdís Eva, f. 1989. Maki Hörður Halldórsson, f. 1982. Þau eiga þrjú börn. b) Sara Björk, f. 1990. Maki Börkur Smári Kristinsson, f. 1990. Þau eiga þrjú börn. c) Sindri, f. 1993. Maki Auður Anna Jónsdóttir, f. 1993. Þau eiga þrjú börn. 2) Óskar, f. 1963. Maki Erla Jónsdóttir, f. 1965. Börn Óskars eru a) Birna, f. 1993. Maki Mario Ingi Martel, f. 1997. b) Kristófer, f. 1996. Erla á fjögur börn. 3) Trausti Jóhann, f. 1970. Maki Bjarkey Björnsdóttir, f. 1980. Börn Trausta: a) María Lind, f. 1993. Maki Lúkas Björn Bogason, f. 1997. b) Guðmundur, f. 1998. Maki Helena Sól Alexandersdóttir, f. 2000. Þau eiga eina dóttur. Dætur Bjarkeyjar: a) Efemía Rún Sindradóttir, f. 2000. b) Þóra Berglind Hannesdóttir, f. 2004.

Sonur Guðmundar og Þórunnar Gunnarsdóttur, f. 1939, d. 2020, er Þorsteinn Marel Júlíusson, f. 1959. Maki Sigríður Birna Kjartansdóttir, f. 1960. Börn þeirra eru a) Andrea Marel, f. 1983. Maki Kári Sigurðsson, f. 1985. Andrea á einn son. b) Elías Marel, f. 1990. Maki Malin Olsson, f. 1994. c) Þórunn, f. 1992. Maki Hlynur Einarsson, f. 1985. Þau eiga eina dóttur.

Guðmundur flutti ungur með foreldrum sínum í Akureyjar á Breiðafirði þar sem hann bjó fram á unglingsár þegar fjölskyldan flutti að Fremri-Brekku í Dalasýslu. Sem ungur maður starfaði Guðmundur við vörubílaakstur og sem skipstjóri og útgerðarmaður á eigin bát. Hann lærði skipasmíðar í Bátalóni i Hafnarfirði og starfaði sem slíkur í nokkur ár. Einnig starfaði hann fyrir Vita- og hafnamálastofnun við hafnarframkvæmdir og hjá Hitaveitu Reykjavíkur við eftirlit með framkvæmdum.

Hann starfaði við gerð trefjaplastbáta hjá Mótun og stofnaði árið 1979 sitt eigið fyrirtæki, Bátasmiðju Guðmundar, sem framleiddi fiskibáta af gerðinni Sómi.

Útför Guðmundar fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 16. janúar 2025, klukkan 13.

Jæja elsku pabbi minn. Þá er þessari ferð þinni lokið. Kallinn er kominn í land eins og skáldið söng, og aðalvélin er stopp.

Ég hef kviðið fyrir að þessi dagur rynni upp, þó það hafi verið eitt af því sem er alveg öruggt, að síðasti dagurinn komi, eins og þú sagðir svo oft. Ég er glaður að ég kom í heimsókn til ykkar mömmu rétt fyrir jólin, fékk að eiga góðan tíma með ykkur, og síðasta knúsið okkar var aðeins fastara og lengra en oft áður. Fyrir það er ég þakklátur, pabbi.

Mig langar líka að segja þér frá ýmsu sem ég er þakklátur fyrir, góðum minningum. Ég fékk að vera með í brasinu. Allt sem var gert var „okkar“ og „við“ vorum alltaf aðal, ég fékk að vera hluti af menginu þínu þegar við vorum að brasa, pabbi, það er ómetanlegt fyrir lítinn polla að upplifa það, finna hvað það er gott að tilheyra. Ég fékk að hjálpa til við allt mögulegt í kringum bátana, fyrst bara lítill gutti sem sagðist vera gervismiður, og seinna fékk ég að vinna í bátunum, fara í sendiferðir, kaupa kex á kaffistofuna og súkkulaði í leyniskúffuna sem við lumuðum á. Fékk að verða alvörusmiður.

Þú kenndir mér að smíða allt mögulegt, kenndir mér á rennibekk, bandsögina og hefilinn, ég fékk að prófa þau verkfæri sem hugurinn stóð til, ekki ónýtt það, pabbi. Á þessum tíma fékk ég að eiga bátadelluna þína með þér, bryggjurúntar, bátakallar og spjall, vera niðri á bryggju heilu kvöldin að fylgjast með bátunum þegar veður var slæmt. Ógleymanlegt, pabbi.

Manstu eftir öllum ferðalögunum okkar á bátunum, um Breiðafjörðinn í Akureyjar, verslunarmannahelgi í Flatey, Ísafjarðarhátíðunum, Hesteyri, kolvitlaust veður heim frá Ísafirði, það komst sjór í svefnpokana og ferðalagið tók nokkra daga, einn fjörð í einu í snælduvitlausu veðri, en við þurftum að komast í bæinn, og þá bara gerðum við það. Þá lærði ég að sigla rastirnar í vondum veðrum. Við fórum út í Akureyjar í hjólhýsið, þú settir upp útsýnisturn með ljóskastara svo Steinólfur vinur þinn í Fagradal gæti fylgst með því hvort vindmyllan væri í lagi.

Þú varst fyndinn gaur, oft höfum við fjölskyldan talað um húmorinn og glettin tilsvör í gegnum tíðina og hlegið. Þú talaðir svo sem ekkert af þér en sagðir sirka það sem þurfti, við gátum mikið talað saman þegar ég var með þér að bauka í Bátasmiðjunni í gamla daga, en við fórum líka létt með að þegja saman, það var ágætt inn á milli. Manstu allar sundferðirnar á pickupnum „okkar“, og svo pulsa á eftir, alveg eins og María og Guðmundur fengu að njóta með ykkur mömmu seinna meir, og pulsurúntar eftir skóla.

Ég veit líka að krakkarnir minnast góðra tíma með þér, öll ferðalögin með geimstöðina, á Eyjasómanum og á húsbílnum, það var spennandi fyrir lítið fólk að spígspora í grasinu í náttfötunum í sumarkvöldinu að þykjast vera að bursta tennurnar, og öll gistipartíin í Geimstöðinni fyrir utan á Álfaskeiðinu. Fyrir þetta og svo ótrúlega margt annað er ég þakklátur.

Pabbi, þú hefur getið þér góðan orðstír, og það er engin tilviljun, og „góður orðstír deyr aldrei“.

Farðu í friði, elsku pabbi.

Trausti.

Elsku hjartans besti afi. Ég get ekki lýst því né komið því í orð hvað ég sakna þín mikið og hvað þú varst mér og öllum góður vinur. Ég get heldur ekki lýst því hvað ég er þakklátur fyrir allan þann tíma og góðu stundirnar sem við áttum saman. Öll ferðalögin sem ég, þú og amma fórum í Dalina, Snæfellsnesið þvert og endilangt og í Breiðafjörðinn. Hvað ég átti mörg góð sumur í Stykkishólmi á húsbílnum þar sem báturinn beið okkar og allar ferðirnar sem við fórum í Flatey.

Ég er líka þakklátur fyrir þann tíma sem við áttum úti í bílskúr að smíða báta sem auðvitað þurfti að fara með niður á tjörn til þess að athuga hvort þeir væru ekki góðir til siglinga. Ég sakna þess þegar ég var polli og þú sóttir mig í skólann. Það var alltaf komið við í Holtanesti og keypt pulsa og margar af konunum sem afgreiddu okkur mundu mörgum árum seinna hvað ég vildi á pulsuna mína. Ég sakna þess að heyra sögurnar þínar frá Akureyjum, Bátalóni og öllum þeim mögnuðu ævintýrum sem þú lentir í. Ég sakna þess að fá þig með mér í bíltúr, allir bryggjurúntarnir sem við tókum og öll leiðinlega dagskráin sem við hlustuðum á bæði á Rás 1 og Útvarpi Sögu. Mér þykir ofboðslega vænt um hvað ég náði að dobla þig oft með mér á smá „rúss“ eftir að þú hættir að keyra og hvað ég er ánægður með þann tíma sem við áttum í bílnum saman karlarnir.

En það sem ég er kannski mest þakklátur fyrir er allur tíminn sem þú gafst mér og allt sem þú hefur kennt mér eins og að sitja í sófanum á Norðurbakkanum og bara þegja og njóta þagnarinnar. Það þurfti ekki alltaf að tala og ég veit fyrir víst að þér þótti gott að fá mig í heimsókn þótt ég hefði ekki frá miklu að segja. En þegar við höfðum frá einhverju að segja þá gátum við hlegið mikið og þú varst líka alveg meinfyndinn. Það voru mörg skipti sem þú komst með einhverja gullna setningu sem ömmu fannst kannski ekkert sérstaklega sniðug, þó hló hún samt á endanum.

Ég var svo glaður að sjá hvað Írena dóttir mín fór að pæla mikið í þér og brosti svo fallega til þín þegar við komum til ykkar í desember og hvað ég er ánægður að þið náðuð að hittast. En afi, ég vil þakka þér fyrir allt, allt sem við gerðum og allt sem við áttum sameiginlegt. Ég er líka svo yfir mig stoltur af nafninu sem við berum, ég er stoltur að kalla þig besta vin minn og ég er stoltari af því að kalla þig afa minn. Takk fyrir allt afi minn.

Þinn

Guðmundur.

Við kveðjum í dag elsku afa okkar.

Afi var alinn upp í Akurey á Breiðafirði og hafði alla tíð taugar til Breiðafjarðar og nærsveita. Við vorum svo heppin að fá að sigla um Breiðafjörðinn á Eyjasóma með afa og ömmu. Það var mikið ævintýri fyrir okkur börnin að kynnast fuglalífinu, heilsa upp á ábúendur í eyjunum og kíkja á hjólhýsið hans afa úti í eyju.

Afi var almennt fámáll maður en þegar hann komst í Breiðafjörðinn léttist lundin og hann sagði sögur af náttúrunni, álfunum og lífinu þegar hann var ungur. Uppáhaldssagan var sennilega af því þegar afi flutti hjólhýsið út í eyju og kom því upp mikinn bratta og illfært land.

Við eigum einnig góðar minningar af Álfaskeiðinu, þar sem afi og amma bjuggu lengst af. Afi smíðaði kofa fyrir okkur barnabörnin úti í garði þar sem við gátum verið með bú. Við lékum okkur í hjólhýsinu á planinu og í hárgreiðsluherberginu hennar ömmu og glömruðum á píanóið. Okkur þótti einnig mikið sport að fá boð í gjótugrillið þar sem íbúar götunnar hittust og grilluðu í hrauninu.

Amma og afi vildu alltaf gera vel við okkur og afi var sendur eftir „kentúkkí“ eða út í bílskúr eftir ís úr frystikistunni. Við fengum líka alltaf Engjaþykkni þegar við gistum hjá ömmu og afa, sem var lúxusvarningur sem við fengum ekki að venjast heima fyrir.

Afi smíðaði Sómabáta í Bátasmiðju Guðmundar. Við systkinin lögðum mikið upp úr því að finna alla Sómabáta í höfnum landsins þegar fjölskyldan ferðaðist og vorum ákaflega stolt þegar við sáum bátana hans afa.

Afi hafði stálminni allt fram á síðasta dag og hafði ótrúlegustu staðreyndir á hreinu. Hann var alltaf harður af sér og kvartaði ekki. Þegar hann var spurður hvernig hann hefði það svaraði hann ætíð „ég get ekki kvartað“.

Langafabörnin sóttu mikið í afa og töluðu um hann, þennan rólega mann sem sat í hægindastólnum sínum, gekk við staf og heilsaði þeim með handabandi. Litlu strákarnir vildu sífellt vera að skoða myndir af honum í myndabók fjölskyldunnar og báðu þá um að „lesa afa Gumma“.

Elsku afi, hvíldu í friði. Við munum alltaf hugsa hlýlega til þín.

Ásdís Eva, Sara Björk
og Sindri.