Yfirsýn Innsetningin „Else“, hluti, séð yfir innri sal sýningar Joes Keys.
Yfirsýn Innsetningin „Else“, hluti, séð yfir innri sal sýningar Joes Keys.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kling & Bang Else ★★★★½ Sýning á verkum Joes Keys. Sýningin stendur til 9. febrúar og er opin miðvikudag til sunnudags kl. 12-18.

Myndlist

Hlynur

Helgason

Á sjöunda áratug síðustu aldar reyndi bandaríski myndhöggvarinn Richard Serra að skilgreina allar aðgerðir og athafnir sem gerð þrívíðra verka í efnivið gæti falið í sér, eins og „að beygja“, „að skera“, „að láta drjúpa“. Þetta var grundvöllur möguleika sem entust honum alla ævina. Þessar skilgreiningar Serra koma upp í hugann þegar gengið er um sýningu Joes Keys sem nú stendur yfir í tveimur sölum Marshallhússins. Sýningin er byggð upp af safni muna og uppbyggðra eininga sem eru í eðli sínu ólíkir hlutir sem gætu, séðir saman, verið rannsókn á möguleikum myndgerðar í þrívíðu rými. Þetta er innsetning sem er einföld í grunninn en býður upp á áhugaverðar tilfinningalegar tengingar þegar hún er skoðuð nánar.

Joe Keys er enskur listamaður sem hefur búið hér á landi frá 2018 og útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2021. Hann hefur allar götur síðan verið virkur í sýningarhaldi. Listsköpun hans er fjölbreytt; hann vinnur með fundið efni, þrívíða hluti og innsetningar, grafík og teikningu. Hann hefur sýnt víða á Íslandi, meðal annars röð teikninga í Listasafni Reykjavíkur og þrívíð verk í Listasafni Kópavogs á síðasta ári.

Verkin á sýningunni í Marshallhúsinu eru tvær innsetningar, hvor í sínum salnum. Í þeim fremri er verk sem ber titilinn „Above all else“ og samanstendur af tveim stöplum á miðju gólfi auk hillu sem liggur í horn í efsta hluta rýmisins. Í innri salnum er viðamikil innsetning, „Else“, sem er byggð upp af fjölda hluta og eins konar inngripa í rými salarins.

Stöplarnir í „Above all else“ eru svið fyrir innsetningar hluta. Á öðrum er rá úr timbri sem hvílir á stálfestingu og á hinum eru tveir litlir hlutir; sívalur pinni í þremur litum og listabútar samsettir í horn. Á hillunni sem er hátt yfir salnum má sjá samansafn fjölmargra smáhluta sem virka eins og safn möguleika sem mætti útfæra fyrir sýninguna í heild, stafróf mögulegra tilbrigða sem sjá má í nánari útfærslu vítt og breitt um sýninguna.

Í hinum salnum, sem er meginsalur gallerísins, er verkið „Else“ sem er innsetning fjölda myndheilda sem allt eins gætu talist einstök verk. Nokkrir hlutar eru fagurlega smíðaðir og fágaðir, eins og um húsgögn væri að ræða. Hér er á ferðinni skoðun á uppbyggingu forma úr timbri. Eitt formið er eining á vegg sem gæti allt eins verið hluti af skíðasleða. Önnur eining er rammi sem gæti allt eins verkað sem gluggi. Við gólfið við einn vesturgluggann er timburrá sem svífur yfir gólfinu og minnir á afmörkun eða fyrirstöðu. Hér fær áhorfandi hugmynd um mögulegt notagildi hluta sem greinilega hafa það þó ekki. Þeir líta út eins og nytjahlutir en erfitt er að sjá til hvers þeir eru ætlaðir. Aðrar einingar „Else“ eru formrænni og eru litlar myndhugsanir í mismunandi efni, eins og lok á djúpum kassa, röð timburskífa á bandi, mótaðir viðarhlutir sem virka sem fundið efni, afgangar sem búið er að upphefja og koma á framfæri sem einstökum formum. Hér er myndhöfundur að búa til eins konar frummyndir skúlptúrs, litlar tákneiningar sem gefa tilfinningu um fyrra notagildi sem er okkur hulið.

Sem fyrr segir er Joe Keys að hefja feril sinn en hann hefur þó þegar mótað sér persónulegan stíl. Stíllinn byggist á fínlegri hugsun með efni og form þar sem skipuleg vinna og framsetning er í öndvegi. Hér í upphafi minntist ég á fyrirmynd í hugleiðingum Richards Serra um meginverkan skúlptúrskra eininga. Skipuleg samsetning og vinnsla hins smáa jafnt sem hins stóra í verkum Joes á sér einnig hliðstæðu í mörgu sem Hreinn Friðfinnsson gerði á löngum ferli. Timburverk Joes eiga sér líka sterka samsvörun í húsgagnasmíði Daníels Magnússonar sem um langa hríð smíðaði stóla sem voru í reynd einstakir táknrænir munir, hver um sig, þótt þeir hefðu einnig notagildi. Fínlegri vinnunni með efni og einfaldar uppsetningar svipar einnig til vandaðra vinnubragða Guðjóns Ketilssonar.

Það er ljóst að þótt uppruni Joe Keys liggi í Englandi þá tengjast verk hans vel íslenskum veruleika. Núverandi sýning er mikilvægur áfangi í ferli hans. Hér er um að ræða einkasýningu þar sem hann hefur átt þess kost að koma vandaðri myndhugsun sinni vel til skila, þar sem fágaður og fínlegur stíll hans og hugsun fær að njóta sín. Heildarmynd sýningarinnar er sterk og persónuleg.