Kristín Söfn Helgadóttir fæddist á LSH 9. nóvember 1943. Hún lést á krabbameinsdeild 11EG 7. janúar 2025.
Foreldrar hennar voru Sigríður Einarsdóttir, f. 17.9. 1922, d. 12.9. 1997 og Helgi Filippusson, f. 14.9. 1919, d. 16.3. 1982.
Kristín Sjöfn var elst þriggja systra en hinar eru Hrafnhildur og Guðfinna Björk.
Fyrstu árin bjó fjölskyldan í „stóra hvíta húsinu“ í Árbænum en það hús byggði afi Kristínar, Filippus Guðmundsson, fyrir stórfjölskylduna. Fyrir austan Elliðaár var skólaganga erfið því sækja þurfti í Laugarnesskóla og ekki voru ferðir strætisvagna jafn tíðar og í dag.
Fjölskyldan flutti í íbúð sem foreldrarnir byggðu í Goðheimum og
voru þau því komin til byggða. Kristín gekk að grunnskóla loknum í Réttarholtsskóla og var dvölin þar henni erfið því hún varð fyrir allnokkru einelti og þá aðallega af hendi kennara hennar sem varð til þess að hún lauk ekki gagnfræðaprófi. Hún byrjaði því snemma að vinna og var í nokkur ár innanbúðar í Tómstundabúðinni sem pabbi hennar og bræður hans stofnuðu. Pabbi hennar keypti blómabúðina Flóru og var Kristín þar við störf. Pabbi hennar seldi Flóru og stofnaði eigin heildverslun, þar fór Kristín að vinna nokkru eftir að barneignum lauk og vann hún þar með Hrafnhildi systur sinni og ráku þær fyrirtækið saman eftir að pabbi þeirra dó í viðskiptaferð í mars 1982 ásamt með mömmu sinni en Sigríður var mikilvægur þátttakandi í rekstri heildverslunarinnar. Eftir að heildverslunin hætti störfum fékk Kristín Sjöfn vinnu hjá Icelandair sem aðstoðarkona umsjónarmanns með húseignum og vann þar næstum fram að lokum starfsævinnar.
Kristín gekk í hjónaband þegar aldur leyfði og var fyrri eiginmaður hennar Viggó Örn Viggósson. Þau skildu. Eignuðust þau þrjú börn: 1) Helgi Örn. Hann giftist Guðrúnu Þórðardóttur kennara. Þau skildu en eignuðust þrjú börn – Viggó Örn, Bryndísi og Þórð Örn. Hann er í sambúð með Söru Kristinsdóttur. Þau eiga dótturina Guðrúnu. Helgi er nú í sambúð með Evu Maríu Vadillo Munoz. 2) Viggó Haraldur. Hann er kvæntur Helgu Hrönn Stefnisdóttur. Eiga þau þrjú börn – Kristínu Helgu sem er í sambúð með Ragnari Árnasyni og eiga þau tvö börn, Birtu Lind og Birki Inga. Viggó Helga. Eiginkona hans er Lilja Karen Steinþórsdóttir og eiga þau soninn Alexander Helga. 3) Hafdísi. Hún giftist Tryggva Þorsteinssyni og eignuðust þau dótturina Alexöndru Sif. Þau skildu. Hafdís er nú í sambúð með Ágústi Guðmundssyni og eiga þau soninn Viktor Ara.
Seinni maður Kristínar er Skúli Möller. Þau giftust 22.12. 1972. Þau eiga soninn Ingólf Þórð en hann á soninn Skúla.
Skúli á dótturina Huldu úr fyrra hjónabandi. Hulda býr í Hollandi og er gift Jip van Ejden og eiga þau dótturina Yöru Þóru.
Kristín var mikil félagsmálavera. Hún sat m.a. í stjórnum sjálfstæðisfélaga. En mesta ánægju hafði hún af því þegar hún var með í að stofna Soroptimistaklúbb Árbæjar og var alla tíð síðan mikill soroptimisti.
Útför hennar verður gerð frá Árbæjarkirkju í dag, 16. janúar 2025, og hefst klukkan 13.
Hinn 11. júlí 2024 má segja að heimi okkar fjölskyldunnar hafi verið velt á hvolf. Kristín mín vaknaði snemma með mjög mikla verki, svo mikla að hún vildi fara á sjúkrahús. Hringt var á sjúkrabíl sem flutti hana á bráðamóttökuna. Þar var hún skoðuð gaumgæfilega og tekin blóðprufa. Kristín hringdi í mig að rannsókn lokinni og sagði að hún yrði flutt á LSH og við ættum öll að koma til fundar við lækna morguninn eftir kl. 10.00. Á þessum fundi sagði læknir okkur að Kristín hefði greinst með bráðahvítblæði og þar sem hún væri orðin allfullorðin væri ekki hægt að lækna sjúkdóminn, hugsanlega væri hægt að halda honum niðri um einhvern tíma en sá tími gæti orðið stuttur. Starfsfólkinu tókst í nokkur skipti að fækka hvítu blóðkornunum en þar kom um jólin að þau tóku völdin og var þá ekkert hægt að gera. Hún var þó með okkur um jólin og svo aftur um áramótin. Hún var sæmilega hress fyrstu daga nýs árs en 5. og 6. dró smám saman af henni og svaf hún meira eða minna allan mánudaginn og var þá ljóst að hverju stefndi. Andlát hennar bar mjög brátt að. Við Hafdís vorum á vaktinni og höfðum samband við þá nánustu en fyrirvarinn var of stuttur. Hún kvaddi kl. 04.15; þá gaf hún frá sér tvö stutt andvörp og þar með var hún farin rétt áður en krakkarnir komu á staðinn.
En hvernig kona var Kristín Sjöfn? Hún var yndisleg eiginkona, framúrskarandi húsmóðir, góð móðir, amma og langamma. Einstaklega smekkleg, sem sást vel á heimili okkar og líka í heildversluninni þar sem hún sá ætíð um innkaup með systur sinni Hrafnhildi eftir að pabbi þeirra dó 1982.
Kristín var mikil félagsvera og starfaði í mörgum félögum. Sat t.d. í stjórn Sjálfstæðisflokks í Reykjavík en hún var grjóthörð sjálfstæðiskona þótt aðeins hafi dregið úr stuðningi hennar við flokkinn seinni árin.
Kristínu fannst ótrúlega gaman að ferðast bæði innanlands og utan. Hún elskaði landið og eitt sumarið náði hún að vera 27 daga í útilegum með börnin í bílnum sínum. Eftir að við giftumst keyptum við okkur tjaldvagn og fórum vítt og breitt um landið, bæði ein og með traustum vinum. Uppáhaldsstaður hennar var Landmannalaugar og vildi hún helst fara þangað á hverju ári. Við heimsóttum alla merkilegustu staðina.
Árið 1981 urðu kaflaskil í félagsmálavafstri hennar því þá var hún beðin, ásamt tveimur öðrum konum, að stofna Soroptimistaklúbb í Árbænum. Kristín var fyrsti formaður klúbbsins en 1992 varð hún forseti landssambandsins í tvö ár. Hún fór í margar utanlandsferðir á vegum samtakanna en æðislegasta ferðin var farin 2009 til Rúanda. Leit að górillum er það sem sat fastast í minni hennar, fjögurra tíma ferð varð að 13 tímum en górillur sáu þau.
Kristín hafði ótrúlegt sjónminni og var ég oft efins þegar hún sagðist hafa verið á stað sem sást t.d. í sjónvarpi.
Við náðum að halda gullbrúðkaup plús tvö ár. Hjónaband okkar var gott en auðvitað upplifðum við súrar stundir og sætar eins og er oft í góðum hjónaböndum.
Elsku Kristín mín. Þakka þér fyrir öll árin okkar saman. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi og hafðu þökk fyrir allt og allt.
Skúli Möller.
Elsku mamma okkar, Kristín Sjöfn Helgadóttir, kvaddi lífið að morgni 7. janúar eftir baráttu við erfiðan sjúkdóm. Með styrk sínum, æðruleysi og gleði gaf hún okkur ómetanlegan arf, sem lýsir upp hjörtu okkar jafnvel á sorgarstundu.
Mamma var kona sem óttaðist ekki áskoranir og sótti í ævintýrin. Hún var aðeins 12 ára þegar hún tók sólópróf í svifflugi og varð yngst í Evrópu til að afreka það. Flugið átti sinn sérstaka sess í lífi hennar, enda dóttir Helga Filippussonar, eins af frumkvöðlum svifflugsins á Íslandi. Þessi ævintýraþrá og hugrekki fylgdu henni í gegnum lífið.
Ung að árum hélt hún til Oxford til að læra ensku, og þar kviknaði áhugi hennar á ferðalögum, nýjum menningarheimum og víðerni heimsins. Þessi ástríða lifði með henni alla ævi, hvort sem hún var á heimshornaflakki eða í fjölskylduferðum um landið, þar sem tjaldútilegur með okkur börnunum voru fastur liður sumarsins.
Starfsferill mömmu var nátengdur fjölskyldufyrirtækjunum Flóru í Aðalstræti og Heildverslun Helga Filippussonar, þar sem hún vann af ástríðu og metnaði. Seinna á ævinni hóf hún störf hjá Icelandair, fyrirtæki sem hún bar miklar taugar til og átti við sérstaka tengingu vegna flugsins.
Félagsstörf voru mömmu einnig hjartfólgin. Hún helgaði líf sitt góðgerðarmálum og félagsstörfum, þar sem hún lét sig varða velferð og jafnrétti. Hún var meðstofnandi og fyrsti formaður Soroptimistaklúbbs Árbæjar og forseti Soroptimistasambands Íslands árin 1990 til 1992. Einnig var hún virk áður fyrr í Kvenfélagi Árbæjarsóknar, Hvöt félagi sjálfstæðiskvenna og Félagi Fóstbræðrakvenna.
Síðustu árin reyndust henni erfið, en hún tók á móti þeim með æðruleysi. Hún sigraðist á brjóstakrabbameini árið 2022 en mætti síðar erfiðari raun með greiningu á bráðahvítblæði. Engu að síður veitti hún okkur hugrekki og gleði fram á síðustu stundir. Hún kvaddi lífið í faðmi fjölskyldu sinnar, friðsæl og sátt, umlukin ást.
Yndislega móðir mín
minning þín mun ætið lifa.
Unaðsblíðu brosin þín
bjarta hlýja móðir mín.
Aldrei gleymist ástin þín
og gleðin meðan hjörtun lifa.
Blessuð kæra móðir mín
minning þín mun fögur lifa.
Hjartans elsku móðir mín
mig þú leiddir lífs á vegi.
Hlý var ætíð höndin þín
hennar nutu börnin mín.
Heyrðist fagra röddin þín
á hreinum tærum sólardegi.
Undur fagra móðir mín
verndaðu oss á lífsins vegi.
(Guðmundur Kr. Sigurðsson)
Góða ferð elsku mamma, í ferðalagið mikla sem þú hefur nú lagt í. Við elskum þig að eilífu og þökkum fyrir allt sem þú gafst okkur.
Helgi Örn Viggósson, Viggó Haraldur Viggósson, Hafdís Viggósdóttir og Ingólfur Skúlason.
Elsku amma mín, svo skemmtileg, fyndin, flott og fín og ótrúlega góð fyrirmynd.
Amma hafði ferðast út um allan heim og átti alltaf nóg af sögum frá þeim ferðum að segja mér. Það var kastalinn í Þýskalandi, margarítur á stærð við hauskúpu í Mexíkó, górillurnar í Úganda og það mikilvægasta — fæðing mín í Los Angeles. Hún minnti mig oft á að hún hefði fengið að vera viðstödd fæðingu mína á Saint John's-spítalanum í Santa Monica og hvað það hefði verið stórkostleg upplifun.
Ég hugsa oft og vona að ég fái að eiga jafn skemmtilegt og ævintýraríkt líf og amma Kristín. Ég vona líka að ég verði jafn hamingjusöm og ástfangin eins og amma og afi Skúli voru í öll þessi ár.
Áður en amma kvaddi sagði hún mér að hún ætlaði að vera ljósálfur í næsta lífi — og að hún ætlaði að vaka yfir okkur og ekki missa af brúðkaupinu mínu í sumar.
Sé þig þar, amma mín.
Við kveðjum þig elsku amma mín,
í upphæðum blessuð sólin skín,
þar englar þér vaka yfir.
Með kærleika ert þú kvödd í dag,
því komið er undir sólarlag,
en minninga ljós þitt lifir.
Leiddu svo ömmu góði guð
í gleðinnar sælu lífsfögnuð,
við minningu munum geyma.
Sofðu svo amma sætt og rótt,
við segjum af hjarta góða nótt.
Það harma þig allir heima.
(Halldór Jónsson)
Elska þig,
Alexandra Sif.
Við fráfall elsku Kristínar Sjafnar er saumaklúbburinn okkar nú orðinn ansi fáliðaður. Við erum einungis fjórar eftir og höfum misst fimm úr hópnum. Við minnumst Kristínar með miklum hlýhug. Hún var aðaldriffjöðrin í okkar félagsskap og hélt til að mynda samviskusamlega utan um ferðasjóðinn okkar alla tíð. Við höfðum nefnilega þann háttinn á, eftir að við höfðum lokið við barnauppeldi, að við greiddum í sameiginlegan sjóð þegar við hittumst til að klúbburinn gæti öðru hverju ferðast eitthvað saman. Utanlandsferðirnar okkar urðu alls átta á þessum árum og alltaf var það Kristín sem var potturinn og pannan í þessu öllu. Hún var fararstjórinn sem gerði og græjaði og taldi það ekki eftir sér því hún elskaði ferðalög. Nú er Kristín lögð af stað í þessa óvissuferð sem við öll sem eftir lifum eigum fyrir höndum.
Kristín Sjöfn var mikil athafnakona og var lengi starfandi með Soroptimistum en hún var m.a. í forsvari þeirrar hreyfingar á Íslandi. Einnig var hún í félagi kvenna í atvinnurekstri FKA um tíma og lengi vel starfaði hún einnig með félagi Fóstbræðrakvenna. Þar var hún örugglega í leiðtogastarfi eins og svo víða annars staðar. Hún var afskaplega lífsglöð og félagslynd og við munum sakna hennar sárlega. Þökkum samfylgdina í rúm 60 ár. Skúla og allri fjölskyldunni sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Saumaklúbburinn,
Anna, Þórdís (Didda), Guðný og Guðbjörg (Gurrý).