Tilnefndur Leikarinn Ralph Fiennes er í aðalhlutverki í Conclave.
Tilnefndur Leikarinn Ralph Fiennes er í aðalhlutverki í Conclave. — AFP/John Nacion
Kvikmyndin Conclave hlýtur flestar tilnefningar til Bafta-verðlaunanna í ár, tólf talsins, en Emilia Pérez fylgir fast á hæla hennar með 11 tilnefningar

Kvikmyndin Conclave hlýtur flestar tilnefningar til Bafta-verðlaunanna í ár, tólf talsins, en Emilia Pérez fylgir fast á hæla hennar með 11 tilnefningar. Þá hlýtur The Brutalist níu en Anora, Dune: Part Two og Wicked sjö hver. Tilnefningarnar voru kynntar í gær. Tilnefndar sem besta kvikmyndin eru Anora, The Brutalist, A Complete Unknown, Conclave og Emilia Pérez.

Meðal tilnefndra leikara eru bæði kunnugleg andlit og leikarar sem ekki hafa hlotið tilnefningu áður. Tilnefningar fyrir bestan leik í aðalhlutverki hlutu leikkonurnar Cynthia Erivo fyrir Wicked, Karla Sofía Gascón fyrir Emilia Pérez, Marianne Jean-Baptiste fyrir Hard Truths, Mikey Madison fyrir Anora, Demi Moore fyrir The Substance og Saoirse Ronan fyrir The Outrun og leikararnir Adrien Brody fyrir The Brutalist, Timothée Chalamet fyrir A Complete Unknown, Colman Domingo fyrir Sing Sing, Ralph Fiennes fyrir Conclave, Hugh Grant fyrir Heretic og Sebastian Stan fyrir The Apprentice.

Í frétt Variety er vakin athygli á því að Denzel Washington hafi enn á ný ekki hlotið tilnefningu á Bafta-verðlaununum en hann leikur að þessu sinni í Gladiator II sem hlaut þrjár tilnefningar. Þá þykir einnig athyglisvert að myndirnar Babygirl og Challengers hafi ekki hlotið neina tilnefningu.

Verðlaunahátíðin fer fram hinn 16. febrúar.