Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Komur skemmtiferðaskipa/farþegaskipa til Reykjavíkur í sumar eru áætlaðar 238 en sumarið 2024 voru þær 259.
Hins vegar er farþegafjöldinn svipaður og í fyrra en skiptifarþegaum fjölgar verulega.
Fækkun í komum farþegaskipa má fyrst og fremst rekja til þess að færri svokölluð leiðangursskip eru bókuð í sumar en í fyrra. Þá voru komur þeirra 127 en í sumar eru 107 komur bókaðar, samkvæmt upplýsingum Sigurðar Jökuls Ólafssonar markaðsstjóra Faxaflóahafna.
Enn eru rúmir tveir mánuðir þar til vertíð skemmtiferðaskipanna hefst og tölurnar geta breyst á næstu vikum.
Leiðangursskipin taka við nýjum gestum í Reykjavík og sigla svo hringinn í kringum Ísland og til Grænlands, Svalbarða og Færeyja. Í einhverjum tilvikum lýkur ferðinni í Noregi eða annars staðar, en mjög oft snúa skipin aftur til Reykjavíkur og ferðinni lýkur þar. Þessi skip koma flest margoft til Reykjavíkur yfir sumarið.
Leiðangursskipin koma við í mörgum höfnum á Íslandi og fylgja þessum heimsóknum mikil viðskipti fyrir heimamenn. Stundum eru mörg skip í höfn samtímis, t.d. á Ísafirði og Akureyri.
Innviðagjald hefur áhrif
Nokkrar útgerðir hafa afbókað komur til íslenskra hafna í sumar og næsta sumar. Er það m.a. rakið til innviðagjalds á skemmtiferðaskip, sem tók gildi um síðustu áramót. Þetta mun hafa áhrif á tekjur hafnanna og þar með tekjur viðkomandi sveitarfélaga.
Komur stórra skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur í sumar verða nánast jafn margar og í fyrra. Bókuð er koma 131 skips en þær voru 132 í fyrra.
Farþegar með skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur í fyrra voru samtals 321.966. Það var algert met. Í sumar eru 320.595 farþegar bókaðir en sem fyrr segir kunna tölurnar að breytast þegar líður á árið.
Af þessum fjölda eru rúmlega 168 þúsund svokallaðir skiptifarþegar. Er þá átt við farþega sem koma til Keflavíkurflugvallar með flugi og fara um borð í skipin í Reykjavík.
Þeir stíga svo frá borði í Reykjavík að siglingu lokinni og halda til síns heima með flugi. Farþegarnir eru tékkaðir inn eða út í Sundahöfn eða á Miðbakka í Gömlu höfninni.
Er þetta fjölgun skiptifarþega um tæplega 16 þúsund milli ára. Hlutfall skiptifarþega af heildarfjöldanum er áætlað 52,4% og hefur aldrei verið hærra. Í fyrra var hlutfallið 48,6%
Þessi tegund ferðaþjónustunnar er því mikilvæg fyrir flugfélögin og sömuleiðis hótelin, því farþegarnir gista á hótelum fyrir og eftir að hafa siglt við landið.
Það sem skýrir mikla aukningu í farþegaskiptum á undanförnum árum er að stærri skipaútgerðir eins og Norwegian Cruise Lines, Royal Caribbean og Holland America Line nýta sér staðsetningu Íslands og geysiöflugar flugsamgöngur til Bandaríkjanna til að láta sína farþega annaðhvort hefja eða ljúka siglingu sinni í Reykjavík.
Nefna má sem dæmi risaskipið Norwegian Prima sem hóf siglingar árið 2022 og var þá gefið nafn við hátíðlega athöfn í Reykjavík. Það kom margoft til Reykjavíkur í fyrrasumar og er skráð með átta komur sumarið 2025.
Norwegian Prima er með stærri skipum sem hingað koma, rúmlega 143 þúsund brúttótonn og 300 metra langt.
Farþegafjöldi Norwegian er 3.348 og í áhöfn eru 1.500 manns. Því má reikna með allt að 6.600 manns í farþegaskiptum í hvert sinn sem skipið kemur til Reykjavíkur.
Mikil öryggisgæsla er í skemmtiferðaskipum og engum hleypt um borð nema hafa farið í gegnum viðamikla öryggisskoðun. Það sama gildir um farangur farþeganna.
Hjá Faxaflóahöfnum koma allt að 50 manns að afgreiðslu og umsýslu skemmtiferðaskipa.
Margir koma að verki
Við þessa tölu má svo bæta umboðsmönnum og þjónustuaðilum skipanna sem og starfsmönnum þeirra, sem þjónusta farþega og sjá skipunum fyrir vistum og búnaði. Allt í allt eru um 100 manns sem koma hér að verki. Þá eru ótaldir leiðsögumenn og bílstjórar sem fara með farþega skemmtiferðaskipanna í skoðunarferðir.
Rúturnar skipta tugum þegar stærstu skipin koma. Þá fara margir í ferðir með leigubílum. Fjöldi skiptifarþega nálgaðist 8.000 á annasömustu dögunum í fyrrasumar og því var handagangur í öskjunni í Sundahöfn líkt og í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli.
Á Skarfabakka í Sundahöfn verður útbúin aðstaða til bráðabirgða eins og undanfarin sumur. Bygging 5.500 fermetra fjölnota farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna á Skarfabakka á Sundahöfn er í fullum gangi. Stefnt er að því að farþegamiðstöðin verði komin í gagnið áður en vertíð farþegaskipanna hefst vorið 2026.
Vertíð skemmtiferðaskipanna hefst 21. mars næstkomandi. Þá er fyrsta farþegaskipið væntanlegt til Reykjavíkur. Það heitir Le Commandant Charcot og leggst að Skarfabakka. Skipið tekur 250 farþega.
Síðasta skipið er skráð í höfn 27. október. Það heitir Vasco da Gama og tekur 1.260 farþega.