Vargöld Taylor Kitsch og Betty Gilpin á flótta.
Vargöld Taylor Kitsch og Betty Gilpin á flótta. — Netflix
Efnið á Netflix er mjög misjafnt að gæðum, megnið B-myndir, of mikið af C-myndum, en lítið af úrvalsefni, þó auðvitað sé það til og líka gullmolar úr fortíð ef vel er að gáð. Því er enn ánægjulegra að sjá þar nýtt efni í fremstu röð, en það á við um …

Andrés Magnússon

Efnið á Netflix er mjög misjafnt að gæðum, megnið B-myndir, of mikið af C-myndum, en lítið af úrvalsefni, þó auðvitað sé það til og líka gullmolar úr fortíð ef vel er að gáð.

Því er enn ánægjulegra að sjá þar nýtt efni í fremstu röð, en það á við um þáttaröðina American Primeval.

Þar segir af „forsögulegum“ atburðum í landnámi Norður-Ameríku, sem byggðir eru á atburðum í mormónastríðinu 1857-1858, samtvinnuð við söguþráð aðalpersóna á flótta undan eigin fortíð og í (frekar vonlausri) leit að nýju og betra lífi.

Hvort tveggja er athyglisverð saga, en fyrst og fremst eru þær umgjörð um grimmd mannsins í grimmum og löglausum heimi. Kannski gott að lesa Leviathan eftir Hobbes bæði á undan og eftir.

Atburðarásin hverfist um raunveruleg fjöldamorð, skefjalausa slátrun, en ódæðin, manndráp, nauðganir, sjálfsmorð og önnur voðaverk eru ekki bundin við þau. Ofbeldi og offors bíða við hvert fótmál, en siðmenningin víðs fjarri. Og náttúran engu blíðari, þar sem tvífættu vörgunum sleppir taka hinir ferfættu við.

Þetta er svakaleg þáttaröð. Svo svakaleg að viðkvæmum skal ráðið frá því að horfa á hana. En mögnuð, ægileg og umhugsunarverð.

Höf.: Andrés Magnússon