Steinunn Stefánsdóttir fæddist 2. júní 1938 í Reykjavík. Hún lést á Droplaugarstöðum 21. desember 2024.

Foreldrar hennar voru Stefán Ögmundsson prentari, f. 22. júlí 1909, d. 3. apríl 1989, og Elín Guðmundsdóttir, f. 16. júlí 1912, d. 12. júní 2003.

Systur hennar eru: Ingibjörg, f. 18. október 1934; Bergljót, f. 13. nóvember 1940, og Sigríður, f. 18. apríl 1951, d. 31. desember 2023.

Steinunn gekk í Menntaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá máladeild 1959.

Hún hóf nám við Karl-Marx-Universität Leipzig árið 1959, tók próf í þýsku fyrir erlenda stúdenta 1963 og lauk þar lokaprófi í listasögu 1965.

Eftir heimkomuna til Íslands tók hún próf í uppeldis- og kennslufræði við Háskóla Íslands árið 1967 og hlaut réttindi sem löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi í þýsku árið 1969. Frá 1981 til 1982 tók hún orlof frá störfum og stundaði viðbótarnám í þýsku við Oslóarháskóla og lauk þaðan prófi árið 1982. Einnig lærði hún um málakennslu við Háskóla Íslands frá 1986 til 1987 og sótti ýmis kennaranámskeið hérlendis og erlendis. Steinunn kenndi við Gagnfræðaskóla Austurbæjar frá 1966 til 1977, Laugalækjarskóla í Reykjavík árin 1977 til 1979 og við Fjölbrautaskólann við Ármúla frá 1979 til starfsloka.

Eiginmaður Steinunnar var Jón Thor Haraldsson, sagnfræðingur og kennari, f. 13. apríl 1933, d. 14. september 1998. Þau giftust 26. október 1973 og eignuðust saman einn son, Stefán, f. 2. júlí 1975.

Minningarathöfn um Steinunni verður haldin í Fossvogskapellu í dag, 16. janúar 2025, klukkan 13.

Steinunn móðursystir mín var næstelst í fjögurra systra hópi en hún lést eftir margra ára veikindi á vetrarsólstöðum. Systurnar fjórar voru samrýmdar og stóðu þétt saman í veikindum Steinunnar og Sigríðar móður minnar sem lést fyrir ári. Þær voru aldar upp í pólitísku umhverfi en líka við það að njóta lista og menningar, bókmennta og þess fagra í heiminum. Afi og amma, Stefán Ögmundsson og Elín Guðmundsdóttir, voru ekki hámenntuð í prófgráðum talið en vel lesin og lögðu áherslu á að dæturnar nytu menntunar. Steinunn nýtti sér það veganesti vel.

Steinunn var skarpgreind og vel menntuð í listasögu þó hún hafi ekki fengið að njóta menntunarinnar á vinnumarkaði, sennilega af því að hún var menntuð „röngum“ megin járntjaldsins. Hún bar gott skynbragð á tilgerðarlausa fegurð hluta, listar og umhverfis og bar heimili þeirra Steinunnar, Jóns Thors og Stefáns þess merki. Hún kenndi mér meðal annars að góð eftirlíking er betri en léleg frummynd og að myndir eiga að flútta að neðan ef þær eru hengdar upp í röð. Sem sagt bæði praktískar og smart leiðbeiningar. En hún kenndi mér fleira og ég verð henni til dæmis ævinlega þakklát fyrir að hafa komið mér í gegnum einn þýskuáfangann í fjölbraut eftir heillar annar slugs með því að sitja með mér heila helgi. Hún gekk skipulega til verks og allt í einu urðu fornöfnin og beygingarnar rökréttar og einfaldar viðfangs. Hún var sem sagt afbragðskennari enda varð það hennar starf að kenna þýsku og listasögu lengst af við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Hún var til taks þegar í harðbakkann sló, kastaði aldrei til höndunum, var ekki yfirlýsingaglöð en gat komið með meinfyndnar og kjarnyrtar setningar sem voru gulls ígildi inn í samtöl. Börnum jafnt sem fullorðnum sýndi hún virðingu og talaði við dóttur mína alla tíð eins og jafningja enda áttu þær fallegt samband. Það var engin ástæða til í hennar huga að líta á börn sem skyni skroppnar verur.

Steinunn sagði ekki mikið af eigin högum eða fortíð en þeim mun verðmætari voru stundirnar þegar hún veitti innsýn í árin í Austur-Þýskalandi á sjöunda áratug síðustu aldar. Það hlýtur að hafa mótað hana mjög að eignast annað land að heimili á þessum tímum og kynnast ekki bara Þjóðverjum heldur fólki frá ýmsum löndum sem nutu góðrar menntunar í Þýskalandi. Það var heldur ekkert verið að þvælast á milli landa og á þeim sex árum sem hún dvaldi í Leipzig kom hún aðeins í eitt skipti heim til Íslands. Það átti þó eftir að breytast og systurnar nutu þess að ferðast saman á framandi slóðir. Þær fóru allar fjórar, Imba (Ingibjörg), Steinunn, Góa (Bergljót) og móðir mín Sigga (Sigríður), til Suður-Afríku og Namibíu á sínum tíma og seinna ferðuðust Imba og Steinunn til Kína svo eitthvað sé nefnt. Þá eru ótaldar allar ferðirnar til meginlands Evrópu.

Hún var sjálfstæð, fór ekki auðveldustu leiðina til að afla sér menntunar og tók verkefnum lífsins með seiglu en líka húmor og nauðsynlegri kaldhæðni. Ég mun minnast Steinunnar með þakklæti og sem einnar af fyrirmyndum lífs míns.

Drífa Snædal.