Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra þurfti ekki að svara miklu þegar hann mætti í Silfrið á Ríkisútvarpinu á mánudag, nema því allra einfaldasta. Um annað sagði hann ýmist að mál væru í vinnslu, of snemmt væri að svara eða eitthvað ámóta, sem spyrillinn tók sem vísbendingu um að fara strax í næsta mál en skildi áhorfandann eftir án sjálfsagðra upplýsinga.
Ekki er víst að allir stjórnmálamenn eða -flokkar fengju slíka silkihanskameðferð hjá Ríkisútvarpinu en nú er auðvitað komin ný ríkisstjórn og notalegheitin í fyrirrúmi. Eitt af því sem fjármálaráðherrann slapp alveg við að svara var hvort útgerðarfyrirtæki landsins mættu búast við hækkuðum sköttum, eða veiðigjöldum eins og sérstakir skattar á þau eru kallaðir. Þessu „svaraði“ fjármálaráðherrann á þá leið að hann gæti ekkert sagt til um skattinn, því að hann réðist af hvernig gengi. Þetta lét stjórnandinn gott heita, en þetta er auðvitað ekkert svar. Þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á þessu skattkerfi eiga að auka tekjur ríkissjóðs, þannig að við blasir að skattarnir eiga að hækka. Hvers vegna lætur Ríkisútvarpið slík svör nægja? Og hvers vegna býður ráðherrann landsmönnum upp á þau?
Þá var ráðherrann spurður um strandveiðikerfið og fyrirhugaða aukningu veiðidaganna og hvort sú breyting yrði til að skerða aflann í aflamarkskerfinu. Ráðherrann sagði að ekki væri búið að útfæra þetta, það væri í vinnslu og þetta væri ekki á sínu borði heldur atvinnuvegaráðherra. Aftur var þetta ekki-svar látið duga og ráðherrann ekki einu sinni spurður út í það sjónarmið sem hann hefur sjálfur sett fram og rökstutt í hagfræðilegri grein að strandveiðarnar valdi sóun. Viðskiptablaðið skrifaði um það á dögunum að kostnaðurinn fyrir þjóðarbúið við að flytja aflann úr aflamarkskerfinu í dagakerfið í þeim mæli sem til stendur „gæti numið á bilinu þremur til fjórum milljörðum“. Hvernig má það vera að Ríkisútvarpið spyrji ekki út í þetta?
Í sömu skrifum Viðskiptablaðsins var rifjað upp að Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi, hefði skrifað um þá ákvörðun matvælaráðherra síðustu ríkisstjórnar að bæta tvö þúsund tonnum af þorski við strandveiðipottinn, sem væntanlega er mun minna en hefst upp úr fjölgun daganna sem boðuð hefur verið. Ingvar benti á að samfélagið allt tapaði þegar aflaheimildir væru teknar út úr arðbærum hluta kerfisins og færðar annað. Og hann lét ekki þar við sitja heldur sagði að þar sem þessi styrkur til strandveiðanna væri greiddur af öðrum útgerðarformum en ekki beint úr ríkissjóði fengju „stjórnmálamenn þetta prýðisfína tækifæri til að skora ódýr stig með því að hygla háværum sérhagsmunahópum á kostnað annarra skattgreiðenda“.
Hefði ekki verið sjálfsagt að spyrja fjármálaráðherra hvers vegna ríkisstjórnin nýja hefði ákveðið að fara þá leið að skora þessi ódýru stig sem þingmaður flokksins talar um með þeirri sóun sem hann sjálfur hefur skrifað um?!