Sigurður Kári Kristjánsson
Öll hljótum við að gera kröfu um að stjórnvöld fari vel með skattana okkar.
Við hljótum líka að gera kröfu um að á mörkuðum þar sem frjáls samkeppni er sögð ríkja milli fyrirtækja fái þau að keppa sín á milli á jafnréttisgrundvelli. Í því felst m.a. að ríkið hygli ekki sumum fyrirtækjum umfram önnur sem þau eiga í samkeppni við, til dæmis í innkaupum.
Reglur sem tryggja eiga heilbrigða samkeppni
Reglur um þetta hafa reyndar fyrir löngu verið lögfestar bæði hérlendis og erlendis. Þetta eru m.a. svokallaðar ríkisstyrkjareglur, sem leggja hömlur við því að eitt fyrirtæki fái sérstaka fyrirgreiðslu eða forskot umfram önnur á samkeppnismarkaði. Hér á landi gilda líka reglur um opinber innkaup og útboð sem ætlað er að tryggja ríkinu hagstæð kjör, auk þess sem í gildi eru samkeppnislög sem hafa það að markmiði að efla virka samkeppni.
Nýr fjármálaráðherra, Daði Már Kristófersson, benti á hið augljósa í Silfrinu sl. mánudag, að innkaup ríkisins væru með stærri útgjaldaliðunum í bókhaldi þess. Við blasir að miklir hagsmunir eru í húfi fyrir skattgreiðendur, ríkið sjálft og þau fyrirtæki sem í hlut eiga og ríkið á í viðskiptum við, að vandað sé til verka og að farið sé að gildandi reglum.
Sparnaðarráð
Nýverið lagði flugfélagið Play sparnaðarráð inn í samráðsgátt stjórnvalda eftir að ný ríkisstjórn óskaði eftir aðstoð frá almenningi við að spara í ríkisrekstri.
Sparnaðarráð Play voru einföld. Félagið ráðlagði ríkisstjórninni, annars vegar, að haga innkaupum ríkisins á flugmiðum þannig að það keypti alltaf ódýrasta flugmiðann fyrir starfsmenn sem ferðast til og frá Íslandi vegna vinnu.
Hins vegar lagði Play til að ríkið hætti að láta starfsmenn sína njóta skattfrjálsra fríðinda í formi vildarpunkta vegna flugmiða sem ríkið keypti fyrir þá, enda mætti gera ráð fyrir að ríkið greiddi hærra verð en ella svo að seljandi flugmiðanna gæti veitt farþeganum þessi fríðindi. Slík fríðindi auka auk þess hvata hjá starfsfólki til þess að ferðast meira á kostnað ríkisins og til að beina viðskiptum sínum frekar til þess flugfélags sem fríðindin veitir í stað þess að láta miðaverð ráða úrslitum.
Í frétt Vísis um þessa sparnaðartillögu var rifjað upp að í Morgunblaðinu árið 2023 hefði komið fram að á því ári hefði ein ríkisstofnun, Alþingi, keypt flugmiða af Icelandair fyrir 20,9 milljónir, en einungis fyrir 500 þúsund krónur af Play. Munurinn þar á milli er rúmlega fjörutíufaldur!
Mismunun viðgengst víða
Nú hefur komið í ljós að þessi mismunun viðgengst víðar innan ríkiskerfisins.
Upplýst hefur verið að á grundvelli rammasamnings sem ríkið gerði um innkaup á árunum 2023 og 2024, þ. á m. um kaup á flugmiðum, hafi einungis 1,4% af samanlagðri fjárhæð keyptra flugmiða runnið til Play. Það hlutfall hlýtur að teljast hreint ótrúlega lágt og er ekki í neinu samræmi við markaðshlutdeild félagsins í millilandaflugi í viðskiptum við almenning. Áætla má að þegar almenningur á Íslandi kaupi sér flugmiða séu þeir í 35-40% tilvika keyptir af Play.
Að auki hefur verið upplýst að sú stofnun innan ríkiskerfisins sem flesta flugmiða kaupir, Sjúkratryggingar Íslands, hafi fram til þessa neitað að virkja áðurnefndan rammasamning ríkisins gagnvart Play, sem þó á aðild að samningum. Það gefur auga leið að á meðan samningurinn hefur ekki verið virkjaður kemur hann ekki til framkvæmda.
Á sama tíma hafi stofnunin hins vegar beint sjúklingum til helsta samkeppnisaðila Play við kaup á flugmiðum sem Sjúkratryggingar greiða fyrir. Og það sem meira er, hjá Icelandair starfar sérstakur tengiliður félagsins við Sjúkratryggingar sem sjúklingum er bent á að hafa samband við á vefsvæði Sjúkratrygginga vegna flugmiðakaupa.
Óheilbrigðir viðskiptahættir sem raska samkeppni
Það segir sig sjálft að viðskiptahættir af þessu tagi eru í besta falli afar óheilbrigðir og ekki til þess fallnir að stuðla að ábyrgri meðferð opinbers fjár. Þeir eru auk þess í andstöðu við jafnræðissjónarmið og beinlínis til þess fallnir að raska samkeppni.
Í viðtölum við fjölmiðla hefur forstjóri Play, Einar Örn Ólafsson, upplýst að hann hafi í gegnum tíðina óskað skýringa á þessum viðskiptaháttum ríkisins hjá ýmsum stjórnmála- og embættismönnum, en fá svör fengið. Kollgátuna átti forstjórinn kannski í niðurlagi viðtals sem Vísir átti við hann sl. mánudag, þar sem hann sagði:
„Ég veit ekki hvað það er en það gerir allavega enginn neitt. Kannski vilja alþingismenn, og starfsmenn Ríkisskattstjóra og Samkeppniseftirlitsins, og allir sem ættu að gera eitthvað í málinu, fá punktana. Svo þeir gera bara ekki neitt.“
Allir hljóta að sjá að það er kominn tími til þess að innkaupum ríkisins á þessu sviði verði komið í farveg sem telst sanngjarn og eðlilegur gagnvart þeim sem starfa á samkeppnismarkaði.
Með því myndi ríkið að minnsta kosti sýna viðleitni til þess að fylgja lögum og reglum sem stofnanir þess hafa sjálfar sett og krefjast þess að aðrir fylgi í viðskiptum, jafnvel að viðlögðum sektum eða refsingu.
Höfundur er stjórnarformaður Play.