Guðni Ágústsson
Það er pólitísk upplausn sem ríkir um víða veröld. Hún hóf innreið sína hér með nýrri öld. Ísland stendur í miðri þessari hringiðu og flest þau grunngildi sem við studdumst við og trúðum á eru gleymd og grafin. Það er því ekki að undra að stjórnmálaflokkarnir standi valtir og eigi erfitt með að fóta sig. Allir með sama merki á enni og brjósti. Milljarðahugsun.
Hvenær yfirtóku tröllin pólitíkina? Enginn nennir lengur að tala fyrir því sem er smátt og fagurt. EES-samningurinn opnaði landið út og inn og allir gammarnir vilja nú komast í íslensku náttúruna, hið hreina og óspjallaða land, auðlindirnar okkar. Nú er ég glaður var haft eftir athafnaskáldinu Einari Benediktssyni: „Ég á milljón.“ „Þeir seldu fiskinn í sjónum og gáfu gullin mín,“ syngja Fjallabræður í laginu Freyja mín. Tröllaukin tækni og milljarðar eru aðalsmerki sjávarútvegsins. Og milljarður er eitthvað sem skiptir máli. Bóndinn sem erjar landið og framleiðir kjötið, mjólkina og grænmetið er ekki milljarðamaður, það tekur ekki að nefna hann í boðskapnum eða kosningaræðum. Einhverjar laxveiðiár og vötn sem hafa verið náttúruperlurnar í þúsund ár eru ekki milljarðavon, og svo er þessi auðlind í höndum bænda.
Miklu stórkostlegra er að fá erlenda milljarða eða billjónir og fylla firðina af eldisfiski. Það er gróði og skapar atvinnu segir þingmaðurinn í kosningabaráttunni. Að virkja bæjarfossinn er einskis virði, en að fá tröllin með milljarðana til að setja upp vindmyllugarða og græða milljarða og leggja sæstreng til Evrópu. Að fá bóndann til að hætta að hokra og taka við milljörðum til að planta skógi yfir tún, holt og hæðir gefur milljarða, og bjargar heiminum. Loftslagsvandinn verður leystur á Íslandi.
Burt með kýrnar, sauðkindina og hestinn okkar, þessi gömlu húsdýr þau menga. Flytjum inn landbúnaðarvörurnar sem nú er gert í vaxandi mæli með frekjuna að vopni. Innflutt matvæli njóta forréttinda í búðinni. Auðmenn munu eignast bújarðirnar, vatnið þitt Freyja mín, fjöllin og auðnirnar. Að taka við ógnvænlegri mengun frá ESB, koltvísýringi og dæla ofan í hraunið í Hafnarfirði er milljarðamál. Milljarður er merkið á enni og brjósti nánast hvers manns í pólitík. Það þarf engan að undra þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi minnkað, hinir flokkarnir eru á sömu línu, eins og hálfgerð útibú eða systurflokkar svo fínna orð sé notað. Hér er bara eftirspurn eftir vinnuafli svo að dansinn kringum gullkálfinn verði áfram í hæstu hæðum.
Öllum er sama um þig, Freyja mín
Utanríkispólitíkin er efnislega sú sama í öllum flokkum, taka þátt í stríði, láta milljarða í vopnakaup. Kyssa stríðsherrana sem ganga fremstir og loka sendiráðum t.d. Rússlands og reka sendiherrann heim.
Reka efnahagsstefnu sem byggir á hagvexti og látlausri aukinni þjóðarframleiðslu sem hefur fjölgað erlendum ríkisborgurum um 30 þúsund manns á síðustu fimm árum. Ef við horfum til næstu 25 ára og spyrjum mun þessi þróun halda áfram með sama krafti næstu 25 árin? Þá verða erlendir ríkisborgarar á Íslandi um helmingur mannaflans á vinnumarkaði. Eða eru líkur á að veröldin breytist og það verði hægt á þróuninni?
Auðvitað er megnið af hinum nýju Íslendingum duglegt fólk, sem nennir að vinna og líkar vel við landið okkar. Engin Lilja á Alþingi til að berjast fyrir íslenskunni. En allt þetta reynir á innviði sveitarfélaganna og kallar á að byggð séu íbúðarhús yfir þetta fólk. Svo halda áfram að koma hælisleitendur og flóttafólk. Efnahagskerfið er þanið og hagvöxturinn greiðir skuldirnar niður.
Hefur þjóðin verið spurð um þessa stefnubreytingu nýrrar aldar? Hvorki í alþingiskosningum né í umræðu um Ísland græðginnar. Þjóðin er örugglega jákvæð að taka við duglegu fólki að utan. En það er ekki víst að hún sé til í að skipta um þjóð á næstu 25 árum. Hvers vegna koma allir þessir milljarðar til Íslands í laxeldið, í firðina, í vindmyllur á hólana, í hótel um allar Íslandsbyggðir? Hvers vegna eru bújarðir orðnar erlendum mönnum gullnáma? Hverjir eiga svo Ísland og ráða því árið 2050? Öllum er víst sama um þig, Freyja mín.
Höfundur er fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.