Eyðilegging Stórt svæði í miðhluta Súðavíkur var rústir einar eftir snjóflóðið sem rann að fjölbýlishúsinu sem sést á myndinni. Brak úr húsunum var dreift yfir svæðið.
Eyðilegging Stórt svæði í miðhluta Súðavíkur var rústir einar eftir snjóflóðið sem rann að fjölbýlishúsinu sem sést á myndinni. Brak úr húsunum var dreift yfir svæðið. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rétt 30 ár eru í dag, 16. janúar, frá því að snjóflóð féll á Súðavík við Ísafjarðardjúp með þeim afleiðingum að fjórtán létu lífið, þar af átta börn en tólf komust lífs af. Snjóflóðið, sem var um tvö hundruð metra breitt, hreif með sér fimmtán hús í …

Baksvið

Guðmundur Sv. Hermannss.

gummi@mbl.is

Rétt 30 ár eru í dag, 16. janúar, frá því að snjóflóð féll á Súðavík við Ísafjarðardjúp með þeim afleiðingum að fjórtán létu lífið, þar af átta börn en tólf komust lífs af. Snjóflóðið, sem var um tvö hundruð metra breitt, hreif með sér fimmtán hús í miðju þorpinu við Túngötu, Nesveg og Njarðarbraut en húsin voru flest utan þeirra marka sem skilgreind voru sem hættusvæði vegna snjóflóða.

Að kvöldi sama dags féll annað snjóflóð úr Traðargili sunnar í bænum sem olli eignatjóni en engu manntjóni. Þriðja flóðið féll 19. janúar úr Traðargili og skemmdi eitt hús. Alls eyðilögðust 22 hús í flóðunum.

Fyrsta flóðið féll klukkan 6.25 mánudagsmorguninn 16. janúar 1995. Í Morgunblaðinu næstu daga var rætt við marga íbúa um reynslu þeirra og einn þeirra sagðist hafa vaknað við sprengingu og séð snjóinn koma á móti sér á 100 km hraða. Annar sagðist hafa vaknað við mikinn hvell og talið fyrst að gaskútur hefði sprungið.

Kvöldið áður en snjóflóðið féll, 15. janúar, höfðu Almannavarnir ríkisins verið í sambandi við Súðvíkinga vegna þess að hætta var talin á snjóflóðum. Í Morgunblaðinu 17. janúar er rætt við Sigríði Hrönn Elíasdóttur, sem var sveitarstjóri í Súðavík þegar þessir atburðir gerðust. Hún sagðist hafa verið í sambandi við lögreglustjóra og Magnús Má Magnússon snjóflóðasérfræðing á sunnudagskvöld. Klukkan að ganga tvö um nóttina hefði Magnús Már sagt henni að nú væri að koma sú átt sem væri alverst upp á snjóflóðahættu í Súðavík. Hún hefði þá látið rýma svæðið við Traðargil þar sem talin hefði verið hætta á snjóflóðum.

„Ég var rétt búin að koma fólkinu í hús, mörgum heim til mín, og rétt komin upp í rúm þegar formaður björgunarsveitarinnar hringdi og sagði mér að snjóflóð væri fallið og eitthvað mikið að,“ sagði Sigríður við Morgunblaðið. Hún sagðist hafa hringt strax í lögregluna á Ísafirði og beðið um að allt tiltækt lið yrði haft tilbúið til aðstoðar, bæði læknar og björgunarlið. Björgunarsveitarmenn í Súðavík hefðu farið strax af stað til leitar. Hún sagðist hafa kallað almannavarnanefndina saman en á leiðinni á fundinn hefði hún frétt að skrifstofa Súðavíkurhrepps, sem jafnframt var stjórnstöð almannavarna, hefði lent í flóðinu. Því var sett upp stjórnstöð og bækistöð fyrir björgunarfólk í frystihúsi Frosta hf.

Sigríður lýsti aðkomunni að snjóflóðasvæðinu eins og eftir kjarnorkusprengju. Brak úr húsunum hefði verið niður alla götuna, einnig bílar og slasað fólk. Sést hefði í hendur fólks upp úr snjónum. Slösuð kona hafði komið sér fyrir í bíl sem hafði oltið og gat notað bílflautuna til að láta vita af sér. „Þetta var hreinasta hörmung,“ sagði Sigríður. Flestir hefðu verið sofandi í rúmum sínum þegar flóðið kom og var fólkið því illa klætt, á náttfötum eða nærklæðum einum fata.

Sigríður lét rýma öll hús í Súðavík, kom flestum í frystihúsið en sumir fóru í Eyrardal sem er sveitabær innan við þorpið. Fólkið var síðan flutt út á Ísafjörð og aðeins ungir karlmenn og nokkrar konur urðu eftir vegna leitarstarfanna. Grunnskólinn var tekinn undir björgunarsveitarmenn þegar liðsauki fór að berast og þeir unnu á vöktum við leitina.

Fram kom í viðtali Morgunblaðsins 17. janúar við Guðjón Petersen, þáverandi framkvæmdastjóra Almannavarna ríkisins, að ætlunin hefði verið að huga að því að rýma fleiri svæði í bænum og skoða hvort efstu húsin við Túngötu gætu verið í hættu. En menn hefðu ekkert haft fyrir sér í því að snjóflóð gætu, samkvæmt hættumatinu, fallið svo langt þarna, ekkert hefði sést til svæðisins í fjallinu og þetta hefði ekki verið komið lengra þegar flóðið féll.

Gífurlega erfiðar aðstæður

Strax um morguninn tókst að bjarga tíu manns en sumir þeirra höfðu þá verið grafnir í snjónum í 4-5 klukkustundir. Fjórtán ára gömul stúlka, Elma Dögg Frostadóttir, fannst á lífi um kvöldið og morguninn eftir fannst tíu ára gamall pólskur drengur lifandi í fönninni, 23 klukkustundum eftir að flóðið féll. Fram kom í Morgunblaðinu að drengurinn, Tomasz Lupinski, var vafinn innan í sængina í rúmi sínu, en milliveggur og annað brak hafði lagst ofan á rúmið. Flóðið hafði borið drenginn út í garð í rúminu.

Björgunar- og leitarstörf eftir að snjóflóðið féll voru unnin við gífurlega erfiðar aðstæður vegna ofsaveðurs sem geisaði á þessum slóðum. Björgunarmenn frá Ísafirði og annars staðar af Vestfjörðum fóru sjóveg til Súðavíkur til að vinna að leitarstörfum. Þá fór varðskipið Týr frá Reykjavík síðdegis á mánudeginum með sérþjálfaða björgunarsveitarmenn, sem voru þjálfaðir í að fást við björgun úr snjóflóðum. Einnig var í skipinu fjölmennt lækna- og hjúkrunarlið, átta manna áfallahópur til að veita áfallahjálp og tíu sérþjálfaðir sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði Reykjavíkur. Þá voru blaðamenn, ljósmyndarar og kvikmyndatökumenn með í för.

Siglingin var afar erfið, og einnig tafði að skipið þurfti að koma við á Patreksfirði til að sækja veikt barn, sem flutt var til Ísafjarðar. Varðskipið kom þangað á ellefta tímanum á þriðjudagsmorgun eftir um tuttugu klukkustunda siglingu frá Reykjavík og hélt síðan til Súðavíkur en gat ekki lagst að bryggju vegna þess að það risti of djúpt. Lá Týr því fyrir akkerum fyrir utan og voru björgunarsveitarmenn fluttir í land með gúmmíbátum.

Leit á svæðinu stóð yfir fram á kvöld daginn eftir að flóðið féll. Hátt á fjórða hundrað manns komu að leitinni og björguninni. Unnið var við mjög erfiðar aðstæður og komu sérþjálfaðir leitarhundar mjög við sögu. Vinnulagið við leitina var þannig að hundarnir fór yfir svæðið og gáfu vísbendingar um hvar ætti að leita. Sögðu björgunarmenn við Morgunblaðið að í langflestum tilfellum hefðu vísbendingar hundanna reynst réttar. Hættuástandi var ekki aflýst í Súðavík fyrr en fjórum dögum eftir flóðin en Súðvíkingar dvöldu á Ísafirði fyrst um sinn.

Snerting sagði meira en þúsund orð

Í Morgunblaðinu dagana eftir að snjóflóðin féllu er fjallað ýtarlega um björgunarstörfin. Þar segir að björgunarsveitarfólk, hjúkrunarfólk og heimamenn hafi staðið sem einn maður að hjálparstarfinu í Súðavík þegar ástandið var hvað verst á mánudag. Björgunarsveitarmenn sinntu störfum sínum í smáum hópum og ávallt var eitt boðtæki í hverjum hóp. Eftir þriggja til fjögurra stunda útiveru var skipt um hópa og við tók fjögurra tíma hvíld. Hjúkrunarfólkið var að störfum á efri hæð Frosta. Álagið var mikið og hvíldir stuttar. Á hvíldartíma fleygði mannskapurinn sér yfirleitt niður og var fljótur að festa svefn vegna líkamlegrar þreytu.

„Eftir að yfir 90 Súðvíkingar höfðu verið fluttir til Ísafjarðar minnkaði spennan í frystihúsinu og hjálparfólkið reyndi að ýta umhugsuninni um harmleikinn frá sér með því að slá á léttari strengi. Hver hughreysti annan í orði og snerting gat sagt meira en þúsund orð að sögn eins úr hópnum. Ekki veitti heldur af því að skipa fólki til hvíldar því annars var haldið áfram og ekki hægt að skipta út liði þegar á þurfti að halda. Því var heldur ekki að leyna að eftir því sem leið á nóttina minnkaði vonin um að fleiri fyndust á lífí. Því var eins og vítamínssprauta þegar 10 ára drengur fannst í rústunum snemma á þriðjudagsmorgun. Björgunarmennirnir gengu út tvíefldir. Þeir höfðu fengið fullvissu um að enn var von.

Heimamenn þykja hafa staðið sig frábærlega í hjálparstarfinu og margir borið harm í hljóði. Konurnar gengu snöfurmannlega til verks innan húss og hópur karla tók þátt í björgunarstarfinu utan dyra. Oft var leitað að ættingja eða vini. Fatnaður og matföng voru í húsinu. Matartilbúningur stóð yfir allan sólarhringinn og gripið var til þvottavélar og þurrkara þegar á þurfti að halda. Þannig starfaði björgunar- og hjúkrunarfólk við gífurlegt andlegt og líkamlegt álag. Margir voru við störf með litlum hvíldum í meira en sólarhring. Þeir eru enn örþreyttir og ljóst að margir þurfa andlega hjálp,“ segir í Morgunblaðinu.

Almannavarnanefnd Ísafjarðar gaf fjölmiðlum kost á að skoða afleiðingar snjóflóðanna í Súðavík fimmtudaginn 19. janúar og lýstu blaðamenn Morgunblaðsins, þeir Egill Ólafsson og Pétur Gunnarsson, því sem fyrir augu bar:

„Eyðileggingin sem við blasti er gífurleg. Á stóru svæði í miðhluta bæjarins eru öll hús annaðhvort gjörónýt eða stórskemmd. Í útjaðri bæjarins eru einnig skemmd hús, en fjögur hús eyðilögðust í snjóflóði sem féll að kvöldi mánudags. Snjóflóðið hefur leikið nokkur hús þannig að það hefur fallið þvert á húsin, farið í gegnum þau og brotið niður þak, útveggi og allt sem fyrir varð. Aðeins gaflarnir standa uppi. Út um allt er brak úr húsunum, stólar, föt, húsgögn, sængur, leikföng, reiðhjól, bílar. Öllu ægir saman. Nokkur hús standa uppi þrátt fyrir að snjóflóðið hafi fallið á þau. Flest eru þau stórskemmd. Í einu húsi eru herbergi full eða hálffull af snjó. Dyr og gluggar eru brotnir og skafrenningur á greiða leið inn. Í húsinu ýldi brunaboði, fjórum dögum eftir að snjóflóðið féll.“

Fórst í flóði í Reykhólasveit

Víða á Vestfjörðum ríkti hættuástand vegna snjóflóðahættu þessa daga og sagði Morgunblaðið að um 800 manns hefðu þurft að yfirgefa heimili sín tímabundið af þeim sökum, flestir á Patreksfirði eða um 300 manns. Snjóflóð féll á útihús við bæinn Grund í Reykhólasveit miðvikudagskvöldið 18. janúar þar sem feðgarnir Ólafur Sveinsson og Unnsteinn Hjálmar Ólafsson voru við gegningar. Ólafur fórst en Unnsteinn Hjálmar fannst á lífi tólf tímum eftir að flóðið féll.

Þá hrundi mannlaust íbúðarhús á Núpi í Dýrafirði í snjóflóði sem féll aðfaranótt mánudagsins.

Veðurfræðingar sögðu ljóst að fjöldi snjóflóða sem féllu þessa daga hefði verið með þeim mestu sem vitað væri um. Trausti Jónsson veðurfræðingur sagði við Morgunblaðið að tíu mínútna vindhraði á Vestfjörðum aðfaranótt mánudags hefði mælst 90-100 hnútar, sem svarar til 46-51 metra á sekúndu og vindáttin, sem var að hánorðan eða jafnvel norðvestan á Vestfjörðum, væri mjög óvenjuleg.

Sagði Trausti að margt benti til þess að snjósöfnun á Vestfjörðum hefði verið mjög hröð í fárviðrinu. „Versta veðrið stóð í 6-8 tíma og það á sér stað jafnmikil snjósöfnun á fjórum tímum og venjulega gerist á sólarhring. Þannig að um margra daga uppsöfnun á snjó er að ræða á skömmum tíma sem þýðir að hann loðir ekki eins vel saman, er lausari í sér og meiri hætta á að hann falli fram.“

Samhugur í verki

Íslenska þjóðin reyndi af fremsta megni að styðja við Súðvíkinga og aðra sem áttu um sárt að binda í kjölfar snjóflóðanna. Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, ávarpaði landsmenn í sjónvarpi og útvarpi á mánudeginum og bænastund var í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þá var sérstök minningarathöfn um þá sem fórust í snjóflóðunum haldin á Ísafirði helgina á eftir og voru Vigdís og Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra meðal viðstaddra.

Þjóðin efndi til landssöfnunar undir yfirskriftinni Samhugur í verki strax í kjölfar flóðanna og söfnuðust um 290 milljónir króna sem meta má til rúmlega milljarðs króna á núgildandi verðlagi. Þá veitti ríkisstjórnin framlag til uppbyggingar á staðnum.

Fáum dögum eftir snjóflóðið var farið að huga að nýrri framtíð í Súðavík. Á útmánuðum voru smáhýsi eða sumarhús flutt vestur og síðar á árinu 1995 hófust framkvæmdir við nýja íbúðabyggð á svokölluðu Eyrardalssvæði innar við Álftafjörð utan snjóflóðahættu. Fólki sem átti hús á skilgreindu hættusvæði bauðst að fá þau greidd út.

Ragnar Axelsson sigldi með Tý til Súðavíkur

Hjartað sló með allri þjóðinni

Ragnar Axelsson ljósmyndari fór fyrir Morgunblaðið með varðskipinu Tý til Súðavíkur eftir að snjóflóðið féll og segir að sú sigling hafi verið mikil þolraun fyrir alla sem þar voru um borð enda aftakaveður og margir þjáðust mjög af sjóveiki. Ísing settist á skipið á leiðinni og Ragnar segist hafa ásamt fleirum verið sendur út á dekk til að berja af því klaka. Skipið kom til Súðavíkur sólarhring eftir að það lagði af stað frá Reykjavík.

Fram hefur komið að fréttamenn voru litnir hornauga þegar þeir komu til Súðavíkur og þeir fengu ekki að fara inn á leitarsvæðið á meðan leitin stóð yfir til að fylgjast með henni. En Ragnar fékk björgunarsveitarmann sem hann þekkti til að fara með myndavél eftir vaktaskipti inn á svæðið og hann tók myndina hér að ofan.

Ragnar fór um kvöldið með filmuna með báti til Ísafjarðar þar sem Ingibjörg Ólafsdóttir, starfsmaður ljósmyndadeildar Morgunblaðsins, framkallaði hana og sendi myndina til blaðsins. „Þetta er eina ljósmyndin sem er til af leitinni,“ segir Ragnar.

Ragnar segir að það hafi verið erfið reynsla að fylgjast með þessum atburðum og sinna því hlutverki að skrá þessa sögu.

„Það var erfitt að koma þarna og við fundum jafn mikið til og aðrir í þjóðfélaginu. Hjartað sló með allri þjóðinni,“ segir hann.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannss.