Bestur Janus Daði Smárason var valinn maður leiksins gegn Grænhöfðaeyjum.
Bestur Janus Daði Smárason var valinn maður leiksins gegn Grænhöfðaeyjum. — Morgunblaðið/Eyþór
Frammistaða Íslands var heilt yfir góð. Slæmur 10-15 mínútna kafli í seinni hálfleik breytir því ekki. Íslensku leikmennirnir vildu ekki aðeins vinna fyrsta leik heldur sýna frammistöðu sem lofar góðu fyrir framhaldið og það tókst

Frammistaða Íslands var heilt yfir góð. Slæmur 10-15 mínútna kafli í seinni hálfleik breytir því ekki. Íslensku leikmennirnir vildu ekki aðeins vinna fyrsta leik heldur sýna frammistöðu sem lofar góðu fyrir framhaldið og það tókst.

Vörnin stóð mjög vel framan af og Viktor Gísli varði vel fyrir aftan. Orri Freyr Þorkelsson og Óðinn Þór Ríkharðsson keyrðu yfir vörnina hinum megin á meðan og þannig varð til gott forskot sem Grænhöfðaeyjar voru aldrei líklegar til að saxa almennilega á.

Íslenska liðið slakaði verulega á um tíma í seinni hálfleik og Grænhöfðaeyjar skoruðu fimm mörk í röð. Það á ekki að sjást gegn liði eins og Grænhöfðaeyjum. Íslenska liðið reif sig aftur í gang, hornamennirnir byrjuðu að skora og komust 11 leikmenn á blað, sem er styrkleikamerki.

Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði tvö fyrstu mörkin á stórmóti með neglum utan af velli, sem hefur stundum vantað í íslenska liðið.

Ísland vinnur annan sannfærandi sigur gegn Kúbu annað kvöld með svipaðri frammistöðu og í gær en ekki er víst að hún dugi gegn sterkari andstæðingi. Þá má ekki slaka á og fá á sig fimm mörk í röð og fyrirliðinn má ekki fá rautt spjald í fyrri hálfleik.

Elliði Snær Viðarsson fékk sitt annað rauða spjald í síðustu þremur leikjum og það þarf Eyjamaðurinn, sem er með fyrirliðabandið í fjarveru Arons Pálmarssonar, að laga strax.