Fagna má lausn gísla, en friður kemst ekki á fyrr en Hamas er sigrað

Fregnum um að samningar hafi tekist um vopnahlé á Gasasvæðinu hefur víða verið fagnað; bæði því að hernaðinum linni, en einnig hinu að Hamas hyggist láta gísla lausa.

Af biturri reynslu er þó rétt að taka slíkum fregnum af varfærni. Ísraelska þingið Knesset hafði ekki einu sinni tekið samkomulagið til umfjöllunar þegar það sem eftir lifir af hryðjuverkasamtökum Hamas reyndi að ganga á lagið og vopnahléið var í uppnámi, þó enn bindi menn vonir við að það taki gildi á sunnudag.

Bandaríkjastjórn hefur mánuðum saman reynt að koma á slíku vopnahléi án árangurs, en Hamas hafnaði því hvað eftir annað. Það er því skiljanlegt að Biden Bandaríkjaforseti hafi reynt að eigna sér heiðurinn af því, en staðreyndin er sú að það var íhlutun Donalds Trumps, sem tekur við forsetaembætti á mánudag, sem öllu breytti.

Trump hét „helvíti á jörðu“ ef gíslum yrði ekki sleppt fyrir embættistökuna 20. janúar og það virðist hafa orðið til þess að Hamas lét loks undan. Það hefur ekki farið jafnhátt, en Trump beitti Ísraelsstjórn líka mjög hörðu um að ganga að samkomulaginu, þrátt fyrir víðtækar og rökstuddar efasemdir hennar.

Því að í sannleika sagt eru þetta ekki góðir samningar.

Samkvæmt þeim á Hamas að leysa úr haldi aðeins 33 af þeim 94 gíslum, sem eftir eru í haldi Hamas, lifandi eða dauðir. Og fá sex vikur til þess. Svo er eftir að semja um lausn hinna. Þar á meðal eru börn, en fregnir af svívirðilegri meðferð þeirra, þar á meðal með kynferðisofbeldi og pyntingum, eru handan alls.

Fyrst og síðast er það þó herkostnaðurinn við vopnahléssamninginn, sem er illþolanlegur.

Í fyrsta lagi á Ísrael að leysa úr haldi um 1.200 dæmda palestínska hryðjuverkamenn, þar á meðal yfir hundrað sem afplána lífstíðardóma. Þar vekur ekki aðeins ójafnvægið í fjölda hinna frelsuðu áhyggjur. Morðingjunum verður fagnað sem hetjum og þeir munu án vafa taka til við að endurreisa Hamas. Bandaríkjastjórn telur að þúsundir nýrra sjálfboðaliða hafi fyllt í öll skörð vígamanna ­Hamas, en nú á Ísrael að senda þúsund þaulvana hryðjuverkamenn til þess að þjálfa nýliðana í frekari illvirkjum.

Í öðru lagi á Ísraelsher að fara af nær öllu Gasasvæðinu og eftirláta það Hamas-liðum, sem þegar skríða úr skúmaskotum sínum og sýna Gasabúum hefðbundinn yfirgang. Sú hernaðar­lega eftirgjöf landsvæða er langt umfram það sem tíðkast í gíslasamningum.

Með því eru Hamas færð fyrri völd, en í því felst óbein viðurkenning á fasistahreyfingunni sem réttmætum stjórnvöldum á Gasa. Um leið er áfram grafið undan tveggja-ríkja-lausninni, sem alþjóðasamfélagið segist aðhyllast, en má heita steindauð úr þessu. En það má binda vonir við að Trump blási nýju lífi í Abrahams-samningana með aðkomu helstu Arabaríkja.

Ekki er von þó hríð sé gerð að Netanjahú í Ísrael fyrir að hafa látið undan þrýstingi Trumps. Allur hernaðarlegur ávinningur gefinn eftir, gíslarnir ekki í hendi og Hamas fær frítt spil til þess að endurreisa sig, en stríðið óútkljáð og endalaust, bæði Ísraelsmönnum og Palestínumönnum til frekari bölvunar. Einu gildir hve Ísrael þyrstir í frið meðan Hamas heldur völdum í Gasa, áfjáð í að útrýma Ísrael.

Eitt gaf Hamas þó eftir: þá kröfu að Ísrael samþykkti varanleg stríðslok. Það þýðir að fari frekari samningar út um þúfur getur Ísrael hafið hernað á ný til þess að gera endanlega út um Hamas og frelsa þá gísla sem eftir eru. Enginn skyldi vanmeta vilja og viljastyrk Netanjahús til þess að ljúka stríðinu með sigri.

Því jafnvel þó svo samningar takist um stríðslok eins og Hamas vill, þá yrði það falskur friður og svikalogn, sem aðeins myndi leggja grunninn að næstu hryðjuverkaárás, næsta stríði.

Það kann því fyrr en seinna að reyna á staðfestu Trumps forseta og stuðning við Ísrael ef Hamas neitar að skila hinum gíslunum, afvopnast og samþykkja stjórn án hryðjuverka í Gasa. Það gæti gerst svo skjótt sem í lok febrúar.

Verður Trump tilbúinn að standa við stóru orðin? Enginn á stærri orð en hann, en í húfi er ekki aðeins friður og öryggi í Ísrael og Gasa, heldur verður grannt fylgst með því í Moskvu og Kænu­garði, Teheran og Ríad, Peking og Taipei, London og Brussel, jafnvel Reykjavík og Nuuk, hvort hugur fylgi máli; staðfesta stórum orðum.