Jón Þorsteinsson fæddist 8. maí 1936 á Kálfárvöllum í Staðarsveit. Hann lést á Hrafnistu á Nesvöllum 4. janúar 2025.
Foreldrar hans voru Þorsteinn Jóhannes Marteinn Nikulásson, f. 3.10. 1909, d. 22.12. 1990, og Sigurjóna Eiríka Jónsdóttir, f. 17.8. 1908, d. 22.10. 1990.
Systkini hans eru: 1) Sigríður Margrét, f. 1.10. 1930, 2) Guðmundur Jóhann, f. 25.7. 1932, d. 21.6. 2009, 3) Hulda Bech, f. 16.11. 1939, 4) Sigrún, f. 17.7. 1942, 5) Ása Jóna, f. 13.3. 1944, d. 20.1. 1999, 6) Alda, f. 29.10. 1951.
Eftirlifandi eiginkona Jóns er Benedikta Oddný Þórðardóttir, f. 9.6. 1949. Þau gengu í hjónaband 31. október 1970. Þau hófu sambúð sína í Sörlaskjóli í Reykjavík og fluttu svo í Garðinn. Lengst af bjuggu þau að Heiðarbraut 8 í Garði sem þau byggðu og Njarðvíkurbraut 31 í Innri-Njarðvík.
Eignuðust þau 4 börn, 12 barnabörn og 3 barnabarnabörn, þau eru: 1) Eysteinn Þór Jónsson, f. 13.12. 1970, giftur Erlu Ósk Jónsdóttur, f. 1977, eiga þau 6 börn og 3 barnabörn: a) Kristín Rut Eysteinsdóttir, f. 1995, börn Lovísa Guðrún, f. 2015, og Elísa Margrét, f. 2017, b) Karen Ýr Eysteinsdóttir, f. 1997, maki Kristófer Vikar Hlynsson, f. 1995, og barn þeirra Alexander Örn, f. 2024, c) Kristófer Jósep Ágústsson, f. 1998, d) Karlotta Ísól Eysteinsdóttir, f. 2004, e) Inga Dís Bragadóttir, f. 2007, f) Sólrún Líf Eysteinsdóttir, f. 2011. 2) Þórður Már Jónsson, f. 20.9. 1976, dóttir Aníta Sól, f. 2007. 3) Eiríka Sigurjóna Jónsdóttir, f. 20.11. 1977, maki Antun Lucic, 1972, börn a) Katrín Dögg Lucic, f. 2002, b) Eva Sól Lucic, f. 2012, c) Anna Marija Lucic, f. 2014. 4) María Jóna Jónsdóttir, f. 28.11. 1979, gift Ara Hjörvari Ólafssyni, f. 1976, börn a) Sara María Aradóttir, f. 2009, og b) Ari Hjörvar Arason, f. 2014.
Fjórtán ára gamall fór Jón til sjós á Júlíu VE frá Vestmannaeyjum. Fór hann þaðan á Víði II úr Sandgerði. Hann var lengst á Gunnari Hámundarsyni í Garði hjá Valda í Vörum og einnig í landvinnslu hjá Steina á Borg. Einnig átti hann trillu í stuttan tíma. Sem ungur maður keyrði hann vörubíl hjá Jóni Loftssyni um tíma. Eftir að hann hætti á sjónum starfaði hann í véladeild Varnarliðsins og síðar í verkamannadeildinni. Um tíma starfaði hann einnig sem bílstjóri hjá Brynjólfi hf. og síðan hjá Gæðafiski. Síðustu ár sótti hann dagdvöl í Selinu og tók virkan þátt í félagsstarfinu á Nesvöllum.
Útför Jóns fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 17. janúar 2025, klukkan 12.
Elskulegur eiginmaður minn.
Það sem mér er efst í huga er þakklæti fyrir öll þessi yndislegu ár sem við áttum saman.
Hin langa þraut er liðin,
nú loksins hlauztu friðinn,
og allt er orðið rótt,
nú sæll er sigur unninn
og sólin björt upp runnin
á bak við dimma dauðans nótt.
Fyrst sigur sá er fenginn,
fyrst sorgar þraut er gengin,
hvað getur grætt oss þá?
Oss þykir þungt að skilja,
en það er Guðs að vilja,
og gott er allt, sem Guði er frá.
Nú héðan lík skal hefja,
ei hér má lengur tefja
í dauðans dimmum val.
Úr inni harms og hryggða
til helgra ljóssins byggða
far vel í Guðs þíns gleðisal.
(Valdimar Briem)
Ég skil það sem augu þín sögðu mér á þinni lokastundu.
Hvíldu í friði, elsku Nonni minn.
Þín
Benedikta (Benný).
Elsku pabbi.
Það er margs að minnast í gegnum öll þessi ár sem þú varst með okkur. Allar stundirnar sem við áttum saman í bílskúrum að gera við bíla eða hvað sem við tókum okkur fyrir hendur.
Þær stundir sem við vorum saman þegar þú varst að keyra hjá Brynjólfi hf. voru yndislegar og ég kaus frekar að fara með pabba í vinnuna en að gera eitthvað annað. Auðvitað kaus ég að fara þá leið með þig sem fyrirmynd og varð vörubílstjóri/vélamaður.
Svo varð stór viðburður þegar í ljós kom að ég ætti dóttur, sem kom til okkar 2022, þá 15 ára að aldri, og þú fékkst að kynnast Anítu.
Síðan þá hafa verið myndsímtöl og myndir og heimsóknir þegar hún kom suður.
Það var virkilega gaman að sjá brosið og gleðina sem þetta gaf þér þegar við áttum þessar stundir.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Elsku pabbi. Þótt ég skrifi þetta með miklum söknuði kemur ekkert annað í hugann en þakklæti fyrir allt.
Ég vil trúa því að þú hafir það gott og vakir yfir okkur öllum.
Sakna þín og elska þig, elsku pabbi.
Þinn sonur,
Þórður Már Jónsson.
Elsku pabbi minn.
Að sitja og skrifa minningargrein um þig er mér afskaplega erfitt en þá fór ég að velta fyrir mér hvernig ég tæki á því ef ég ætti gaur sem væri eins og ég. Ekki hef ég þessa miklu þolinmæði, þolgæði, þú sást húmorinn í því, og þó að þú hafir sagt mér til með áherslu varstu svo góður leiðbeinandi í leiðinni.
Þú lagðir línurnar í byrjun að maður yrði að vinna í framtíðinni og ég byrjaði að vinna í fiski með skólanum. Þú gafst mér leyfi 14 ára að fara á sjóinn á bátnum Binna í Gröf. Þannig að við áttum það báðir sameiginlegt að fara á sjóinn 14 ára gamlir. Þú hvattir mig alltaf að gera þá hluti sem mig langaði að gera.
Ég var alltaf með pabba í bílskúrnum og pabbi var mikið að grúska við að laga bíla.
Ég ætla nú ekki að telja upp öll prakkarastrikin hér, þau komast því miður ekki öll á þetta blað.
En þegar ég var 13 ára keypti ég mér mótorhjól sem þurfti að setja saman fyrir peningana sem ég fékk úr vinnuskólanum. Þá sagðir þú stoltur að ég fengi ekkert að fara á hjólið því þú ætlaðir ekkert að hjálpa mér að setja það saman, síðan þegar þú varst að koma úr vinnunni þá var ég búinn ásamt vinum mínum að setja það saman. Já, ég er nú þrjóskur eins og þú.
Einnig þegar þú varst búinn að kaupa nýlega VW-Bjölluna þá var ég ca. 14 ára og ég suðaði um að fá að prófa hana en þú sagðir að þú hefðir ekki tíma alveg strax til að kenna mér á hana. Þann dag þegar þú komst heim með rútunni var ég að bakka bílnum úr innkeyrslunni og þú hoppaðir út úr rútunni og kallaðir stoppaðu, stoppaðu og ég keyrði upp Heiðarbrautina og þú hoppaðir á reiðhjólið mitt og hjólaðir á fullu á eftir mér. Ég snéri við og keyrði fram hjá þér, lagði bílnum aftur í innkeyrsluna og hljóp inn í herbergið og læsti á eftir mér.
Nánast alveg sama hvað ég gerði af mér og hvenær, þá tókstu á málunum með jafnaðargeði, þolinmæði og pínu stolti. Þér fannst nú alveg gaman að rifja upp sögur af mér.
Ég er stoltur af að eiga þig sem pabba. Ég reyni að feta í fótsporin þín þegar ég hugsa um söguna þína og mína á vinnuferlinum okkar. Því við báðir fórum á sjóinn 14 ára gamlir, unnum í fiski, gerðum við bíla og þú vannst við þungavinnuvélar sem ég er enn að vinna við í dag. Alltaf þegar við hittumst töluðum við um bíla og vélar. Ég er þakklátur fyrir skóla lífsins sem þú kenndir mér mínus prakkarastrik sem ég tek alfarið á mig sjálfan.
Elsku pabbi, takk fyrir að sinna börnunum mínum sem frábær afi og gaman að sjá hvað þú varst stoltur að eiga þrjú langafabörn og stoltur af minni stóru fjölskyldu.
Takk fyrir allt, elsku pabbi minn, elska þig. Þinn pabbastrákur,
Eysteinn Þór.
Elsku besti og flottasti pabbi minn.
Vá hvað það er erfitt að setjast niður og þurfa að skrifa minningargrein um þig. Mér finnst mjög erfitt og skrítið að þú sért ekki ennþá með okkur, en það fyrsta sem ég hugsa um þegar ég hugsa um þig er þakklæti, ég er svo þakklát fyrir allt sem þú hefur gert og gefið mér og þá sérstaklega lífið sjálft.
Þú varst mjög duglegur og varst mikið að vinna en samt gastu alltaf gefið okkur tíma, þú varst mjög duglegur að fara í ferðalög með okkur og ég skil stundum ekki þolinmæðina sem þið mamma hafið þurft að hafa með fjóra krakka aftur í. Þú hafðir mjög gaman af því að spila og vá hvað við spiluðum mikið, ég á eftir að sakna að geta ekki sest niður með þér og tekið nokkur rommý.
Ég á aldrei eftir að gleyma því þegar þú varst að kenna mér að keyra, þegar þú fórst alltaf með mig upp á stapa og lést mig taka af stað í miðri brekku, ég man hvað ég þoldi það ekki en er mjög þakklát fyrir það í dag. Ég gleymi heldur aldrei hvað þú varst fljótur að koma og hjálpa mér ef ég þurfti, þó svo að það hafi verið 1. apríl. Ég veit ekki hversu oft ég keyrði fram hjá þér, flautaði og vinkaði skellihlæjandi en alltaf náði ég að láta þig hlaupa hahaha.
Einu sinni fórstu með mér í Byko þar sem ég var að kaupa mér hjól, þá ákváðum við að ég myndi hjóla á hjólinu heim og þú tækir bílinn minn. Ég skildi ekkert í því að ég var komin heim á undan þér en þegar þú komst þá bölvaðir þú gírstönginni á bílnum mínum (þar sem þú þurftir að toga gírstöngina upp og setja svo í bakkgír) og hlógum við mikið að því seinna meir.
Þú varst mjög góður afi og stelpurnar okkar eiga eftir að sakna þín mjög mikið. Ég veit ekki hvernig líf mitt hefði verið án þín því þú gerðir svo margt fyrir mig og veit ég ekki hvernig það verður nú þegar þú ert farinn en ég veit að þú verður alltaf með okkur og passar upp á okkur.
Elsku pabbi minn, ég elska þig svo mikið og á eftir að sakna þín mjög mikið.
Hvíldu í friði, elsku pabbi minn. Þín pabbastelpa,
Eiríka (Eyja).
Mjög ung varð ég mikil pabbastelpa, mamma nýtti hvert tækifæri til að senda mig út í skúr til pabba svo hún fengi frið í eldhúsinu. Þar kenndi pabbi mér mjög margt.
Pabbi var fyrirvinnan á heimilinu, þau með fjögur börn, en pössuðu alltaf upp á að okkur vantaði ekki neitt. Við fórum í tjaldferðalög og veiðiferðir. Pabbi elskaði að spila og var kani uppáhaldsspilið hans. Pabbi lagði mikið upp úr því að við systkinin kynnum margföldunartöfluna, sem hann spurði okkur endalaust út í, og það fannst mér oft pirrandi. Einu sinni svaraði ég vitlaust hvað 7x7 væri og minnti pabbi mig reglulega á það, t.d. á brúðkaupsdaginn minn rétt áður en við gengum inn kirkjugólfið spurði hann mig: Hvað er 7x7?
Pabbi var þolinmóður, kenndi okkur að keyra. Hann notaði Stapaveginn þar sem hann æfði okkur í að taka af stað í brekku, ég man hvað mér fannst það ósanngjarnt, en er þakklát í dag. Pabbi lagði ríka áherslu á að kenna okkur að vinna. Ég lærði ung að slá grasið heima, og þegar ég var 12 ára sendi hann okkur upp á þak að búa til göt fyrir nagla og negla þakið, sem var ótrúlega gaman.
Pabbi var fyndinn og elskaði að vera í kringum fólk. Ég fékk að halda partí heima þegar ég var tvítug. Mamma og pabbi fóru til Eysteins að passa. Um kvöldið var dinglað og þar stóð pabbi. Ég hefði aldrei vilja vera með partíið án hans.
„Pabbi minn er sterkari en pabbi þinn.“ Já, pabbi var kallaður Jón tröll. Pabbi var náttúrlega sterkur. Þegar ég flutti í mína fyrstu íbúð bar pabbi aleinn ísskáp upp á 2. hæð. Já, pabbi minn gat allt.
Pabbi var stoltur af Söru Maríu og Ara Hjörvari. Hann gaf sér alltaf tíma til að tala við þau og vildi vita allt um þau. Hann og Ari Hjörvar áttu einstakt samband og gátu talað um allt um fótbolta, t.d. hver staðan væri í hverjum leik og hverjir skoruðu o.s.frv. Ari reyndi allt til að fá afa sinn til að hætta að halda með Liverpool og trúir því að afi hafi nú líka haldið smá með United.
Pabbi var einstakur, kærleiksríkur, sterkur og jákvæður. Pabbi talaði aldrei illa um aðra heldur miklu frekar reyndi hann að draga fram það sem var jákvætt í fari fólks. Pabbi var líka þakklátur, raunsær og kurteis. Pabbi fékk það hlutverk í lokin að greinast með alzheimers og flutti inn á Hrafnistu á Nesvöllum. Þegar við systur útskýrðum fyrir honum stöðuna tók hann jákvætt í það og sagði að þetta væri það sem hann þyrfti að gera. Hann innréttaði herbergið sitt sjálfur, og sú búðarferð varð okkur systrum og pabba mikil skemmtun, við plötuðum pabba í hjólastól, gáfum honum bjór og sprelluðum með hann í Ikea.
Pabbi var þakklátur fyrir starfsfólkið á Hrafnistu sem hugsaði vel um hann og fékk ég oft að heyra að hann væri svo þakklátur og góður maður að því fyndist svo gaman að sinna honum. Takk, elsku starfsfólk, fyrir að hugsa svona vel um pabba minn.
Að kveðja þig, pabbi minn, er eitt af því erfiðasta sem ég hef gert. Þú þekktir okkur og barnabörnin þín alltaf og ég veit að þú hefðir ekki viljað kveðja öðruvísi. Elsku pabbi, þú kenndir mér mikið á lífið, mun meira en þig grunar, takk fyrir allt.
Þín pabbastelpa,
María Jóna.