Barátta ÍR-ingurinn Hákon Örn Hjálmarsson reynir að stöðva Stjörnumanninn Hilmar Smára Henningsson í Skógarseli í gærkvöld.
Barátta ÍR-ingurinn Hákon Örn Hjálmarsson reynir að stöðva Stjörnumanninn Hilmar Smára Henningsson í Skógarseli í gærkvöld. — Morgunblaðið/Eggert
ÍR-ingar halda áfram að safna stigum í úrvalsdeild karla í körfubolta og þeir komu sér fjórum stigum frá fallsæti í gærkvöld þegar þeir skelltu toppliði Stjörnunnar í spennuleik í Skógarseli, 103:101, eftir framlengingu

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

ÍR-ingar halda áfram að safna stigum í úrvalsdeild karla í körfubolta og þeir komu sér fjórum stigum frá fallsæti í gærkvöld þegar þeir skelltu toppliði Stjörnunnar í spennuleik í Skógarseli, 103:101, eftir framlengingu.

Eftir slæma byrjun á tímabilinu þar sem þeir virtust stefna beint niður í 1. deild á ný hafa ÍR-ingar nú innbyrt sex sigra og eru komnir fjórum stigum frá fallsæti.

Jacob Falko átti stórleik með þeim og skoraði 35 stig en Jase Febres skoraði 22 stig fyrir Stjörnuna og Kristján Fannar Ingólfsson 18.

Tindastóll getur nú náð toppsætinu af Stjörnunni í kvöld en Skagfirðingarnir heimsækja þá botnlið Hauka á Ásvelli.

Njarðvíkingar lögðu Keflvíkinga, 107:98, í grannaslagnum í Reykjanesbæ og eru fyrir vikið einir í þriðja sæti deildarinar. Evans Ganapamo átti frábæran leik með Njarðvíkingum og skoraði 44 stig og þá tók Dominykas Milka 13 fráköst fyrir liðið.

Ty-Shon Alexander skoraði 22 stig fyrir Keflavík.

Grindavík vann Hött í miklum spennuleik á Egilsstöðum, 64:63, og það voru enn tæpar þrjár mínútur eftir af leiknum þegar Deandre Kane skoraði sigurkörfu leiksins.

Ólafur Ólafsson skoraði 14 stig fyrir Grindavík, Daniel Mortensen 11 og Kane 10 en Justin Roberts skoraði 20 stig fyrir Hött og Obadiah Trotter 14.

KR vann Þór frá Þorlákshöfn, 102:99, á Meistaravöllum þar sem Þorvaldur Orri Árnason tryggði sigurinn með tveimur vítaskotum undir lokin.

Vlatko Granic skoraði 20 stig fyrir KR, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 18 og Þorvaldur 15.

Jordan Semple skoraði 25 stig fyrir Þór, Mustapha Heron 23 og Nikolas Tomsick 16.

Loks vann Valur sigur á Álftanesi, 87:81, í spennuleik á Hlíðarenda en þar skoruðu Valsmenn síðustu átta stig leiksins, Kristinn Pálsson og Adam Ramstedt skiptu þeim á milli sín. Taiwo Badmus skoraði 20 stig fyrir Val, Ramstedt 19 og Kristinn 18 en Justin James skoraði 21 stig fyrir Álftanes og David Okeke 20.

Höf.: Víðir Sigurðsson