Svavar Þór Jóhannesson fæddist 23. júlí 1959. Hann lést 19. desember 2024.
Foreldrar: Jóhannes Ágústsson, f. 26.1. 1935, d. 20.2. 2007, og Sigurbjörg Guðmundsdóttir, f. 11.1. 1934, d. 23.10. 2009. Systkini: Sigrún Jóhannesdóttir, f. 7.5. 1962, Styrkár Jóhannesson, f. 30.11. 1966, maki: Erla Júlía Viðarsdóttir, f. 12.6. 1972. Frændsystkini: Erna Ýr Styrkársdóttir, f. 12.2. 1989, Írena Styrkársdóttir, f. 20.10. 1991, Heiðar Atli Styrkársson, f. 1.11. 1995 og Brynjar Elí Styrkársson, f. 25.10. 2006.
Útförin fer fram frá Áskirkju í Reykjavík í dag, 17. janúar 2025, klukkan 13.
Genginn er góður vinur og ferðafélagi. Allt of snemma að okkar mati. Hann var ekki byrjaður að njóta forréttinda heldriborgaratímabilsins. Við vorum að vísu hætt að stunda fjallgöngur en hittumst reglulega og nutum þess að rifja upp liðna tíma.
Gönguhópur okkar, Grautargengið, var stofnaður af 12 einstaklingum í sumarbústað í Grímsnesinu haustið 1996. Lítil skyldleikatengsl voru innan hópsins en við höfðum kynnst í ferðum með Útivist og Ferðafélagi Íslands. Markmið hópsins var einfaldlega að njóta saman líðandi stundar. Nafnið er þannig tilkomið að Bryndís, ein af hópnum, hafði það fyrir sið á ferðalögum að elda hafragraut fyrir sig í morgunmat. Í fyrstu var hún ein um grautinn en smátt og smátt fjölgaði þeim sem grautarins nutu.
Svavar var ljúfur í umgengni en hafði ákveðnar skoðanir og það var ekki fyrir hvern sem er að breyta þeim. Segja má að hann hafi verið tæknimaður hópsins. Á ferðalögum var gott að vita af því að í bakpoka hans leyndust ýmsir þarfahlutir. Hann gat lagað allt frá biluðum göngustöfum upp í flókin rafeindatæki. Hann átti það til að spyrja á sinn hógværa hátt hvort viðkomandi væri búinn að lesa leiðarvísinn. Leiðarvísar væru til þess gerðir.
Ferðirnar eru orðnar ansi margar bæði hér innanlands og erlendis. Í nokkur ár höfðu nokkur okkar það fyrir fastan viðburð að sofa í svefnpokum úti undir berum himni. Einstakt að liggja í svefnpokunum, rabba saman og skoða stjörnurnar á himninum. Svavar naut þessara ferða og var eins og endranær sjálfskipaður grillmeistari.
Saman höfum við vaðið margar árnar og lækina og stundum var gott að grípa í útrétta hönd Svavars þegar stiklað var á sleipum steinum eða vaðið yfir mórauða jökulá. Svavar hafði þann sið í öllum gönguferðum að vera síðastur. Það gerði hann ekki vegna þess að hann réði ekki við hraðann heldur til að vera öruggur um að enginn týndist úr hópnum eða yrði aleinn síðastur.
Svavar er sá sjötti í Grautargenginu sem leysir lífsins landfestar. Við kveðjum hann með söknuði en fyrst og fremst þakklæti fyrir frábæra samveru. Það voru forréttindi að fá að kynnast honum. Fjölskyldu Svavars sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Minning um góðan dreng lifir.
Grautargengið,
Bryndís, Erla, Kristbjörg, Sigrún og Sigurbjörg.