Lárus Arnþór Brown fæddist 2. febrúar 1944 á Akureyri. Hann lést 3. janúar 2025 á Landspítalanum við Hringbraut.

Móðir Lárusar var Anna Lárusdóttir, f. 1913, d. 1983.

Lárus var annar af þremur systkinum. Systkini Lárusar eru Jenný Oddsdóttir, f. 1935, d. 2005, og Hjalti Már Hjaltason, f. 1949, kona hans er Hjördís Jóna Sigvaldadóttir, f. 1952.

Lárus giftist Karítas Skarphéðinsdóttur Neff 1981 og skildu þau 1995. Þau eignuðust saman þrjár dætur.

Dætur Lárusar eru Pálína Ósk Lárusdóttir Brown, f. 1982, Rebekka Rut Lárusdóttir, f. 1988 og Anna Rós Lárusdóttir, f. 1985; tengdasonur: Bernard Lipscomb Jr., f. 1981, dóttir: Móey Bernardsdóttir Lipscomb.

Barnabörn Lárusar eru Bjarki Freyr Blomsterberg, f. 2002, Íris María Vilhjálmsdóttir Brown, f. 2002, Adam Breki Birgisson Brown, f. 2006 og Orri Freyr Guðmundsson Brown, f. 2009.

Lárus starfaði við ýmis störf á sinni ævi. Þar má nefna sjómennsku, köfun, kjötvinnslu og leigubílaakstur.

Útför fer fram frá Digraneskirkju í dag, 17. janúar 2025, klukkan 15.

Að missa elsku pabba okkar svona skyndilega úr lífi okkar hefur verið mikið áfall. Pabbi var sá sem var alltaf til staðar fyrir okkur, hann var kletturinn okkar og öryggið.

Þótt hann hafi ekki verið maður margra orða þegar kom að tilfinningum, þá fundum við alltaf hversu mikið við vorum elskaðar. Pabbi sýndi ást í verki, hann gerði allt fyrir okkur sem hann gat. Hann vildi að stelpurnar sínar væru öruggar, sjálfstæðar og ættu bjarta framtíð.

Fjölskyldan var alltaf það mikilvægasta fyrir pabba og naut hann mikið samverustunda með okkur og barnabörnunum. Það var ávallt stutt í gleði, grín og hlátur hjá honum. Hann var alltaf tilbúinn í alla þá vitleysu og sprell sem okkur dætrum hans datt í hug.

Pabbi var líka mikill sögumaður og sagði svo skemmtilega frá. Hann hafði gaman af að segja frá liðnum atburðum úr lífi sínu, öllum prakkarastrikunum, sögunum úr sveitinni og furðulegum uppákomum úr leigubílnum. Oft hló hann manna mest sjálfur, þar sem hann lifði sig svo vel inn í atburðina sem smitaði út frá sér og fékk alla í kringum sig til að veltast um af hlátri.

Hjartahlýja og góðmennska eru orð sem lýsa pabba okkar vel. Hann sýndi náungakærleik í verki, var umhugað um fólkið í kringum sig, var mikill dýravinur og alltaf tilbúinn að aðstoða þá sem þurftu.

Það eru eðlilega alls kyns tilfinningar sem berjast um á svona stundu og hugurinn reikar fram og aftur um liðinn tíma. Það sem við tökum með okkur eru allar yndislegu minningarnar sem við eigum um pabba, allar samverustundirnar, hversu mikið ljúfmenni pabbi var og hversu lánsamar við vorum að eiga svona góðhjartaðan pabba, pabba sem elskaði stelpurnar sínar meira en allt.

Við vildum að við hefðum getað kvatt þig betur elsku pabbi, það er svo margt sem við hefðum viljað segja þér. Við viljum að þú vitir hversu dýrmætur þú varst okkur og hversu mikið við elskum þig. Þú verður ávallt í hjarta okkar.

Pálína Ósk Lárusdóttir
Brown, Anna Rós
Lárusdóttir, Rebekka
Rut Lárusdóttir.

Afi Lalli var ein besta manneskja sem ég veit um.

Hann var sá sem mætti alltaf ef maður þurfti á honum að halda, hvort sem það var bara að skutla á æfingar eða sækja í skólann ef það var vont veður. Hann sagði alltaf já hvort sem hann nennti eða ekki, hann kom alltaf.

Ég mun aldrei gleyma öllum veiðiferðunum, bíóferðunum, skíðaferðunum upp í fjall og utanlandsferðum og öllu sem við gerðum saman.

Afi hafði alltaf mikinn áhuga að vita hvernig okkur gengi í skólanum eða á æfingum og ég man hvað mér fannst gaman að segja honum frá skíðaæfingunum eða hvort það var nógu mikill snjór til að fara á skíði eða ekki.

Það var alltaf svo gott að vera í kringum afa, þótt hann kannski talaði ekki alltaf mikið eða tæki þátt í samræðum þá var hann samt alltaf með.

Hann var alltaf að hjálpa fólkinu í kringum sig, skipti ekki máli hvað það var, ef afi gat hjálpað á einhvern hátt þá gerði hann það.

Afi var manneskjan sem maður gat alltaf stólað á.

Ég sakna þín ótrúlega mikið, það er svo óraunverulegt að ég geti aldrei séð þig aftur eða talað við þig, en ég veit að þú munt vera þarna hjá okkur alla daga brosandi.

Ég vona að þér líði vel og hafir það gott hvar sem þú ert.

Ég elska þig og sjáumst seinna.

Íris María
Vilhjálmsdóttir Brown.

Kæri bróðir.

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt, það er svo örstutt síðan við lékum okkur saman í fjörunni á Akureyri, veiddum fisk á Höepfnersbryggju eða nöppuðum káli og gulrótum í Gróðrarstöðinni. En nú er komið að leiðarlokum, þú kvaddir þennan heim þann 3. janúar sl. Allt of fljótt að mínu mati. Friður sá er ríkti við dánarbeð þinn og hversu blítt dauðinn, sá mikli riddari, strauk um hjarta þitt og kallaði þig til sín á æðra tilverustig. Það var róleg og blíð stund, með engin langvinn veikindi eða þjáningu fyrir þig, bróðir minn, og fyrir það ber að þakka.

Nú eigum við sem eftir sitjum aðeins góðar og ljúfar minningar um kraftmikinn mann sem var alltaf hreinn og beinn, öruggur og undi hag sínum vel meðal fjölskyldu sinnar, um mann sem var ávallt reiðubúinn að gera öðrum gott þegar þess þurfti, um mann sem fylgdist vel með hvernig aðrir höfðu það, um mann sem var ávallt trúr skoðunum sínum. Börnin voru alltaf númer 1 og var hann þeim mikil stoð og stytta alla tíð. Þú ræktaðir garðinn þinn vel, bróðir! Hann hugsaði vel um litla bróður sinn á yngri árum. Við bræður nutum vinskapar hvor annars alla tíð, vorum saman á sjó, unnum í Búrfellsvirkjun, fórum þaðan til Svíþjóðar, og unnum síðar hjá flugfélaginu o.fl.

Ég kveð þig nú, bróðir sæll, ég þakka fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, og ég veit að við munum hittast aftur síðar. Kæru bróðurdætur, Pálína Ósk, Anna Rós og Rebekka Rut, og fjölskyldur, við Hjördís sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur og biðjum algóðan guð að styrkja ykkur á þessum erfiða tíma.

Hjalti bróðir.

Það er enginn viðbúinn sorgarfrétt, líkt og „mamma, pabbi dó fyrr í kvöld“. Þetta var dóttir mín, ásamt systrum sínum að segja mér að pabbi þeirra hefði látist skyndilega í faðmi dætra sinna. Við Lalli skildum fyrir alllöngu en við höfum verið í góðu sambandi í næstum hálfa öld, með börnum okkar og barnabörnum yfir jólin og stundum páska eða á öðrum tímum. Lalli kom með dætrum okkar og barnabörnum til að mynda til Horsham til að heimsækja mig.

Jólin 2023 voru okkar síðustu jól saman. Við keyptum saman hangikjötið og meðlætið og elduðum heima hjá Lalla, áður en við fórum til barnanna sem borðuðu kalkún. Lalli og ég kynntumst 1978 og áttum margt sameiginlegt, þrátt fyrir nokkurn aldursmun. Við áttum bæði erlenda feður og einstæðar mæður sem ólu okkur upp. Við deildum einnig því að vilja eignast fallegt heimili og börn.

Lalli hefur verið kletturinn í fjölskyldunni, alltaf til staðar fyrir dætur sínar og barnabörnin, ef huga þurfti að bílum, passa hunda eða keyra barnabörnin á æfingar. Hann var líka sá sem hugsaði mest um sameignina í Engjaseli, sló grasið og málaði það sem þurfti, ásamt mörgu öðru, enda vildi hann hafa fallegt í kringum sig. Lalli var alinn upp við að vera sjálfstæður, óháður öðrum og kvarta ekki, sama hvað á dundi. Hann var mikið ljúfmenni, hjálpsamur og tryggur. Mér er efst í huga þakklæti fyrir að hafa kynnst Lalla og átt með honum dýrmætan tíma saman, eignast með honum yndislegu dætur okkar, Pálínu Ósk, Önnu Rós og Rebekku Rut og barnabörnin Bjarka Frey, Írisi Maríu, Adam Breka og Orra Frey.

Nú er hans tími kominn og það er sárt að skilja við svo góðan mann sem hefur verið svo mikilvægur í lífi fjölskyldunnar. Elsku dætur og barnabörn, ég votta ykkur innilega samúð mína. Pabbi ykkar mun ávallt eiga stóran sess í hjarta mínu. Hvíl í friði elsku Lalli.

Karítas Skarphéðinsdóttir Neff.

Elsku Lalli.

Mikið þykir okkur sárt að þurfa að kveðja þig. Þú hefur alltaf verið okkur systrum svo kær og stór partur af lífi okkar.

Við minnumst allra þeirra góðu stunda sem við höfum átt með þér. Þar sem þú varst var alltaf gaman að vera, húmorinn, hláturinn, sögurnar og leikþættirnir sem þeim fylgdu, sérstaklega þegar þið bræður komuð saman.

Minningarnar með þér lifa, líkt og tjald- og bústaðarferðir, fara í berjamó, veiðiferðir eins og t.d. veiðiferðirnar upp á Ljósavatn þar sem okkur systrum fannst við þurfa að kljúfa Everest til að komast að vatninu með þér og pabba, þetta er ein af mörgum minningum sem við eigum um þig.

Við munum alltaf muna hversu hjartahlýr þú varst, hláturinn þinn og allar góðu sögurnar.

Með sorg í hjarta kveðjum við þig. Hvíldu í friði, elsku Lalli okkar.

Farðu í friði vinur minn kær,

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær,

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Þínar frænkur,

Anna, Kristbjörg og Jenný Lind.