Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Fjöllistamaðurinn Sigtryggur Baldursson vinnur að þriðju bók sinni og ráðgerir að hún komi út síðar á árinu. „Hún verður framhald af bókinni Haugalygi, sem kom út fyrir jólin 2023 og var metsölubók hjá Króníku, og mun væntanlega heita Dagsatt,“ segir hann, en fyrir nýliðin jól sendi hann frá sér barnabókina Iðu kindastjörnu.
Tónlistin hefur haldið Sigtryggi sem Bogomil Font uppteknum að undanförnu. „Ég spila ekki golf en tíminn er fugl og spurningin er bara hvernig maður raðar honum niður,“ segir hann um lausar stundir til að huga að næstu bók.
Bækur Sigtryggs eru ólíkar og ætlaðar mismunandi markhópum. „Iða kindastjarna er byggð á ritinu Kiðu kindastjörnu, bók sem við frændsystkinin, ég og Arndís Gísladóttir, gerðum fyrir mörgum árum og var hugmynd hennar, og er hugsuð fyrir leikskólabörn en Haugalygi fyrir eldri og reyndari lesendur. Arndís myndskreytti barnabókina en í Haugalygi eru sögur sem höfundur og aðrir hafa upplifað og eru hvorki alsannar né upplognar.
Iða kindastjarna fjallar um að geta gert hlutina á eigin forsendum,“ segir Sigtryggur, en sagt er frá Iðu, sem er ofvirk og ekki eins og hin lömbin og kindurnar. Hún fellur ekki í kramið, er lögð í einelti, fer sína leið og nær aftur vopnum sínum.
Svið smásagnanna 17 í Haugalygi er heima og erlendis. Þær eru bráðskemmtilegar og fyndnar og sumar lýsa ótrúlegu hugmyndaflugi. Sigtryggur segir að þegar bókin var gefin út hafi eigendur bókaútgáfunnar Króníku, Heiða Björk Þórbergsdóttir framkvæmdastjóri og Harpa Rún Kristjánsdóttir ritstjóri, spurt hvort hann ætti ekki annað handrit í skúffunni. Þá hafi hann munað eftir Kiðu kindastjörnu. „Þetta var dæmigerður íslenskur heimilisiðnaður, fjölrituð bók fyrir börnin í fjölskyldunni.“
Ástæða þessa framtaks var að þau vildu skrá sagðar sögur. „Pabbi var mikill og góður sögumaður, sagði börnum sínum og barnabörnum ótal sögur en skrifaði þær aldrei niður. Ekki frekar en nokkur annar í fjölskyldunni.“
Rykið var dustað af gömlu bókinni, myndirnar endurgerðar og textinn lagaður eftir að útgefendurnir höfðu lesið bókina og komið með hugmyndir að breytingum. „Sagan heldur sér í grunninn, en nýja bókin er aðeins öðruvísi og til dæmis eru fleiri orð yfir íslensku kindina en voru í upprunalegu bókinni, allt frá orðinu gimbur yfir í orðið ær og svo framvegis,“ segir Sigtryggur. „Harpa Rún er náttúrlega fjárbóndi, við ákváðum að kynna fjölbreytt orðaval fyrir íslenskum ungmennum og nafn bókarinnar tengir betur við ofvirku börnin en Kiða.“
Sigtryggur er þekktur sögumaður. Hann kynntist Hörpu Rún og Heiðu Björk skömmu eftir að þær stofnuðu Króníku og þær skoruðu á hann að skrá sögur úr sagnabrunni sínum. „Upphaflega held ég að þær hafi viljað að ég skrifaði ævisögu eða sögu Sykurmolanna, en úr urðu smásögur, sem margar hverjar hafa ævisögulegt gildi fyrir mig fyrir utan sögur sem aðrir hafa sagt mér og ég hef stolið og stílfært. Þessar sögur hafa orðið hluti af sagnaforða mínum, sem ég hef sagt frá á tyllidögum, ferðalögum og síðkvöldum, og næsta bók verður úr sama brunni.“