Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Það er óþolandi að vakna við þetta, nánast alla daga vikunnar eins og verið hefur að undanförnu. Ég sendi tölvupóst til Brynjólfs Þorkelssonar í Eignabyggð á sunnudaginn þar sem ég lagði fram alvarlega kvörtun yfir því að verið væri að vinna á sunnudögum, með stórvirkum vinnuvélum með tilheyrandi hávaða, við húsendann hjá okkur. Þessum tölvupósti hefur aldrei verið svarað, ónæðið heldur áfram og byrjaði nú síðast klukkan 7 í morgun,“ segir Kristján Hálfdánarson, formaður húsfélagsins að Árskógum 7, vegna jarðvegsframkvæmda við Álfabakka 2 sem staðið hafa yfir síðan um helgina.
Hávaði byrjar klukkan 7
„Þeir byrja á morgnana klukkan 7 og hávaðinn glymur í tvo klukkutíma. Ég skil ekki af hverju þeir eru að þessu á morgnana því það eru ekki allir í þessu húsi sem fara svo snemma á fætur. Hávaðinn af þessu er skelfilegur því þetta eru stórar vélar sem virðast vera að skafa klöppina og þetta sker í eyrun.“
Kristján, sem er ketil- og plötusmiður og bjó í Danmörku í 14 ár, segist hafa unnið í ýmsum bæjarfélögum í tengslum við sína vinnu þar.
Það var alveg sama í hvaða krummaskuð maður kom, þarna í Danmörku, þau voru öll byggð þannig upp að annars vegar var byggðarkjarni og hins vegar var iðnaðarhverfi. Stefnan er skýr um það að blanda ekki saman iðnaðarhúsnæði og íbúabyggð. Fram að þessu hefur þetta líka verið með þessum hætti í Reykjavík og því er þessi bygging þvert á þá stefnu sem hér hefur verið tíðkuð fram að þessu, rétt eins og í Danmörku.“
Spurður hvort hann hafi fengið fundarboð frá Reykjavíkurborg um samráð, eins og borgarstjóri hefur boðað, segir Kristján að ekkert fundarboð hafi komið frá borginni.
„Ég hef ekki fengið fundarboð og það sem ég hef frá borgarstjóra er að hann myndi verða í sambandi við okkur þegar komin væru drög að breytingu á húsinu. Mér finnst að fram þurfi að koma tillaga um hvort hægt sé að finna þessu húsi annan stað,“ segir Kristján Hálfdánarson.
Eignabyggð kvartaði undan íbúa við atvinnurekanda
Einn íbúi Árskóga 7 sem ekki vildi koma fram undir nafni lýsti hávaðanum með þeim hætti að hann væri ólýsanlegur þegar gröfurnar skröpuðu klöppina fyrir framan húsið. Hann hefði tekið vélamennina tali og reynt að gera þeim grein fyrir hvers konar hávaða þeir væru að skapa. Viðbrögð Eignabyggðar voru á þann veg að komast að því hvar íbúinn vinnur og kvarta undan honum við forsvarsmenn fyrirtækisins.
Á Facebook-síðu íbúasamtakanna Betra Breiðholts kemur fram að hávaðinn frá Álfabakka 2 um helgina hafi heyrst víða um hverfið, meðal annars í Skógahverfi, Bakkahverfi og Stekkjahverfi sem er í tæplega kílómetra fjarlægð frá Árskógum 7.
Íbúafundur í Breiðholti
Sjálfstæðisflokkurinn hélt í gær íbúafund vegna skipulagsmála í Suður-Mjódd.
Frummælendur á fundinum voru Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, Kristján Hálfdánarson, formaður húsfélagsins í Árskógum 7, og Hilmar Þór Björnsson arkitekt.
Fundarstjóri var Helgi Áss Grétarsson varaborgarfulltrúi.