Aðalbjörn Gröndal matreiðslumaður fæddist 2. nóvember 1961 í Reykjavík. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 26. desember 2024.
Foreldrar hans eru Kolbrún Ingólfsdóttir, f. 23.2. 1941, og Maríus Aðalbjörn Gröndal, f. 23.1. 1937, d. 21.10. 1980.
Systkini Aðalbjörns eru: María (samfeðra), f. 15.1. 1957, d. 29.9. 2023, Hólmfríður, f. 1.5. 1959, Þorsteinn, f. 11.8. 1960, Eiríkur, f. 1.5. 1969, d. 5.6. 1995, Sigrún, f. 4.5. 1973, og Berglind, f. 1.6. 1976, d. 24.5. 1994.
Fyrri barnsmóðir Aðalbjörns er Alma Sæbjörnsdóttir, f. 17.2. 1962. Þau eignuðust Maríus Aðalbjörnsson Gröndal, f. 30.9. 1980, d. 5.5. 2000. Barnsmóðir Maríusar er Margrét Erla Finnbogadóttir, f. 3.5. 1981. Þau eignuðust Arnar Orra Gröndal, f. 6.1. 1997. Barnsmóðir Arnars Orra er Helena Ýr Jónsdóttir, f. 23.3. 1995, eignuðust þau Marínó Orra Gröndal Helenuson, f. 1.6. 2021.
Seinni barnsmóðir og fyrrverandi eiginkona Aðalbjörns er Inga Dóra Jónsdóttir, f. 11.6. 1959. Börn þeirra eru Ágúst E., f. 20.8. 1984, og Sædís Hulda, f. 10.7. 1990. Börn Ingu Dóru úr fyrra hjónabandi eru Jón Hannes Guðmundsson, f. 17.8. 1977, d. 12.11. 2006, og Bjarni Þór Guðmundsson, f. 7.12. 1978. Ágúst E. giftist Guðrúnu K. Reynisdóttur, f. 5.8. 1984. Saman eiga þau Reyni Aðalbjörn, f. 11.10. 2003, Maríu Rán, f. 25.4. 2006, Emilíu Karen, f. 3.8. 2009, Rakel Ingu, f. 17.3. 2012, Ágúst Þór og Gunnar Þór, f. 15.5. 2018, d. 15.5. 2018, og Þóreyju Kristínu, f. 1.11. 2019.
Aðalbjörn starfaði alla tíð við matseld og lærði þá iðn ungur að árum á Hótel Holti. Hann vann víða yfir starfsævina, bæði til sjós og lands.
Útförin fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 17. janúar 2025, kl. 15.
Mín fyrsta minning er tengist Aðalbirni Gröndal, Bjössa, er á æskuheimili hans í Kópavogi. Móðir hans er að raða kaffiveislu á sófaborðið en öll fjölskyldan er samankomin. Börnin fá mjólk en fá að horfa á sjónvarpið – það hefur líklega verið „Stundin okkar“. Þetta var óvenjulegt fyrirkomulag í þá daga að þiggja veitingar ekki einungis í eldhúsi eða við borðstofuborð.
Nokkur ár líða og aftur er ég á heimili Bjössa – kom við á leið á bekkjarskemmtun í Þinghólsskóla. Í þá daga áttu gagnfræðanemendur að koma með sælgæti og gos sjálfir. Það er smávegis æsingur í gangi. Bjössi finnur ekki rétta plastpokann. Þá finnst pokinn kirfilega merktur frægri tískuverslun við Laugaveg. Hann vildi hafa stíl á hlutunum og tuktaði mig stundum til varðandi klæðaburð.
Þetta var á þeim árum er jafnréttismál kynjanna voru á upphafsreit og því var boðið upp á matreiðslukennslu og heimilisfræði í Þinghólsskóla – bæði fyrir stráka og stelpur. Kennarinn strangi var kona. Bjössi var eini strákurinn sem kom klæddur eins og kennarinn óskaði eftir, með stóra síða svuntu og höfuðfat – eins konar kokkahúfu. Hann hafði nefnilega fundið ævistarfið. Og hann varð snjall matreiðslumaður – meðal annars á einu frægasta og virtasta hóteli Íslands.
Þegar gagnfræðaskóla lauk tvístraðist nemandahópurinn og hitti ég Bjössa sjaldan – einkum þó þegar ég starfaði á kvöldin sem dyravörður. Þá staldraði hann við og við spjölluðum – yfirleitt um æskudaga.
Það er mér kær minning að hafa eitt sinn, fyrir áratugum, getað liðsinnt Aðalbirni vegna erfiðra mála og tók ég ekkert endurgjald fyrir. Þá varð ég fyrst var við veikindi þau er Egill Skalla-Grímsson glímdi við og lýsir í fornkvæðinu „Sonatorrek“ sem höfðu mikil áhrif á baráttulíf æskuvinar míns.
Það var þá eða nokkru áður þar sem ég starfaði sem dyravörður að Bjössi kom til mín eitt kvöld og sagði mér mikla harmsögu varðandi fjölskyldu sína. Þar kom meðal annars fram að hann kom að föður sínum látnum sem tók mikið hann. Mig skorti orð eins og Egil forðum „Mjok erum tregt / tungu at hræra …“ þannig að við féllumst í faðma og grétum saman.
Það er sameiginleg dýrðarminning margra úr Kópavogi, forðum daga, að hafa verið hluti af því samfélagi sem kennt er við Vallargerðisvöll. Þar réð ríkjum Valdi vallarvörður (Valdimar Kr. Valdimarsson, heitinn) – en hann lánaði okkur fótbolta til tækniæfinga og stundum var skipt í lið.
Þennan sumardag sem um er að ræða á að skipta í lið – aðalvöllurinn, Vallagerðisvöllur, er laus en það vantar upp á fjölda leikmanna. Þarna eru ekki bara strákar heldur nokkrar fótboltastelpur sem fá að vera með, enda góðar og verða síðar landsliðskonur. Þá birtist Bjössi skyndilega á leið inn Vallargerðið – stæltur, léttur í spori og brosandi eftir að hafa náð árangri við dagblaðasölu. Tveir fyrirliðar velja hvor í sitt liðið. Sólin brýst í gegnum skýin og varpar gylltum ljóma á völlinn og hina áhyggjulausu æsku.
Halldór Eiríkur Sigurbjörnsson Jónhildarson (Donni).