Hörður Adolphsson fæddist í Reykjavík 4. september 1933. Hann lést á Hrafnistu á nýársdag 2025.

Foreldrar hans voru Adolph Rósinkrans Bergsson, f. 1. október 1900, d. 29. október 1948 og Ingveldur Guðrún Elísdóttir, f. 2. janúar 1905, d. 12. október 1988.

Systkini Harðar eru: Vilhelmína, f. 1928, d. 2024, Ingi, f. 1930, d. 2006, Konráð Rósinkrans, f. 1931, Bergur, f. 1937, Elís, f. 1938, d. 2006, Ólafur, f. 1939, d. 1977 og Guðlaug, f. 1945.

Hörður kvæntist Halldóru Pálsdóttur á nýársdag árið 1958. Foreldrar hennar voru Sigríður Halldórsdóttir, f. 1914, d. 1956, og Páll S. Þorkelsson, f. 1906, d. 1987.

Börn þeirra eru: 1) Sigríður Þórhalla, f. 1956, maki Stefán Örn Ingvarsson. 2) Erna, f. 1959, maki Jón Magnús Sigurðsson. 3) Ívar, f. 1962, maki Valgerður Jónsdóttir. 4) Einar Páll, f. 1963, maki Gyða Steinsdóttir. 5) Hörður, f. 1969, maki Vaka Þórisdóttir. 6) Svava Björg, f. 1972, maki Skarphéðinn Eiríksson.

Barnabörnin eru 19 og langafabörnin 17.

Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 17. janúar 2025, kl. 13.

Elsku pabbi minn fór yfir móðuna miklu til mömmu á brúðkaupsdegi þeirra 1. janúar 2025. Ég sakna hans sárt, en kveð hann með miklu þakklæti í huga. Mér þótti afar vænt um pabba minn.

Hann var sannur baráttumaður. Einkunnarorð hans voru: við gefumst aldrei upp þó á móti blási. Hann fylgdi því út lífið sitt, stóð uppréttur á lífsins hálu braut. Pabbi var jákvæður í hugsun og hafði gaman af ýmsum góðum spakmælum, sem hann notaði óspart. Hann hafði ákveðnar skoðanir, var hörkuduglegur og útsjónarsamur. Pabbi var húsasmíðameistari að mennt, byggði húsið sitt sjálfur og grunninn að fyrsta húsi okkar Stebba. Hann var sjálflærður bifvélavirki, bílasprautari, rafvirki og bjargaði sér með flest.

Já, þið ættuð bara að vita

hvað hann pabbi var klár.

Þúsundþjalasmiðurinn

af allri Guðs náð.

Mamma var krúttið hans í lífinu og kallaði hann hana alltaf „krúttí“ sína. Það fannst mér svo skemmtilegt. Pabbi var söngelskur og kunni ógrynni af textum. Af honum lærði ég og við skemmtum okkur oft við að syngja saman. Bestur var hann þegar hann söng til mömmu íslensku ástarlögin.

Nú eru þau bæði farin okkur frá. Brauðstritinu er lokið. Stór hópur situr eftir með ógrynni af góðum minningum um pabba, tengdapabba, afa og langafa.

Hvíl í friði elsku pabbi minn.

Þín

Sigríður (Sigga).

Elsku pabbi, traustur vinur og fyrirmynd. Okkar líf saman í tæp 56 ár er tími sem ég þakka fyrir. Þú varst mikill sprelligosi og til í alls konar fíflagang. Eitt sinn eftir langan bíltúr út á land komum við of seint inn á spítalann. Þá fengum við grallarahugmynd. Ég hjálpaði þér úr hjólastólnum og settist svo sjálfur í hann. Þannig keyrðir þú mig inn á deildina, öllum sem varð á vegi okkar til mikillar furðu. Þú áttir erfitt með gang en það stoppaði þig ekki neitt. Við skemmtum okkur mikið og fengum fullt af brosum frá starfsfólkinu. Eins fannst okkur gaman að fara í íþróttabuxur, hettupeysu og setja upp sixpensara. Já, fólk glápti og glotti við tönn.

Þú varst snillingur í fjármálum en á yngri árum vantaði þig skilning á skattamálum. Þá réðir þú þig inn til RSK og lærðir það sem upp á vantaði. Ef lífsins brekka er of brött, skaltu horfa upp á hæðina og minna þig á að þú ert að komast í betra form. Við áttum báðir „kafbát“. En það er lítill plastbátur sem rigndi í kaf bundinn í höfninni. Það var svo gaman að fara með þér og kaupa nýja bílinn þinn. Já, fullur af tökkum sem þú kunnir ekkert á. Götukort af Reykjavík í bílnum? Til hvers? Þú varst leigubílstjóri og þekktir flestallar göturnar. Þú þurftir ekkert alla þessa takka og bakkmyndavél. En gleðin sem skein af þér, og sigurvalhoppið lét sig ekki vanta.

Stolt þitt var húsið sem þú byggðir fyrir okkur fjölskylduna. Þú vildir ekki kveðja lífið nema laga múrinn utan á húsinu. Þar með hófst mikil vinna þar sem Hörður, Hörður og Hörður Ingi börðust eins og ljón við að klára þetta verk. Enn og aftur valhoppaðir þú af gleði. Þetta verk var mikil brekka en við H.H.H. komumst sterkir og glaðir upp hólinn. Þegar ég var 12 ára pantaði elsta systir mín flug til Ibisa. Nú varstu bara með tvo unga á framfæri. Þú seldir draumabílinn þinn og atvinnutæki til að fara með til Ibisa. Iss, ég braska mig bara upp í nýjan bíl og það gerðir þú! Þú komst loks að á Hrafnistu í Hafnarfirðinum. Þar lifnaði yfir þér. Andinn þarna inni. Starfsfólkið, maður lifandi. Maturinn og bara allt til fyrirmyndar. Þarna er stjórnandi og starfsfólk að gera rétta hluti.

Í öllum þessum breytingum, veikindum, að missa konuna þína og skorti á sjúkraþjálfun, var alltaf sama svarið hjá þér: Ég reyni bara alltaf að vera jákvæður, og það varst þú. Alltaf jákvæður að berjast upp brekkuna.

Þú kynntist mömmu á æskuárum. Hún var ekki alveg til í gaurinn fyrst. Henni fannst þú vera hrekkjusvín. Þú kastaðir að henni snjóboltum til að vekja á þér athygli sem dæmi. En vegir ykkar áttu að liggja saman. Sex börn, takk fyrir, og gift í 67 ár.

Þú skildir eftir mikið tóm er þú hoppaðir yfir í endalokin. Þú trúðir að það tæki ekkert við. En þegar minn tími kemur, skal ég finna þig og knúsa. Minna þig á að tilgangur tilveru okkar er að þroskast og færast á annað tilverustig. Þú sterki, duglegi og einstaki maður. Hvíl þú í friði og knúsaðu mömmu frá mér. Ég elska þig og mun varðveita vel minningarnar okkar.

Þinn sonur,

Hörður Harðarson.

Níutíu og eins árs aldur er löng ævi. Undir lokin varstu orðinn mjög veikur pabbi minn og tilbúinn að kveðja þennan heim. Veit að þú ert hvíldinni feginn og ég er sáttur við það.

Þú hefur náð að framkvæma svo ótrúlega mikið. Það er ekki auðvelt að ala upp sex börn og allt sem því fylgir. Það hefur þú gert með sóma og prýði. Þú reistir þitt eigið einbýlishús. Þú ert sá eini sem ég þekki sem hefur handmokað fyrir grunninum, reist upp, járnabundið og steypt, ásamt öllu því sem gera þurfti til að flytja í húsið. Þetta gerðir þú allt einn. Allt á sama tíma með fullri vinnu sem húsasmiður og leigubílstjóri, þú þurftir nánast að vinna allan sólarhringinn. Það mætti halda að þú væri úr stáli, sem ekki er hægt að beygja,en ég veit betur – það var mikil ást og kærleikur sem bjó í þínu brjósti. Þvílíkur kraftur og dugnaður sem voru þínir eiginleikar og þinn drifkraftur.

Ég man þegar ég ætlaði að gera þig að golfspilara hérna í Noregi og við drifum okkur út á höggæfingasvæði til að æfa, með því hugarfari að spila einn hring. Þetta var frábær stund og skemmtum við okkur mikið, en þú lést þér nægja þessa einu æfingu, golf var ekki fyrir þig. Niðurstaðan var að vinnan gaf þér meiri ánægju og var skemmtilegri, enda hefur þú verið vinnuharðjaxl alla ævi.

Ég er einstaklega þakklátur fyrir að hafa átt þig sem föður. Þú hefur skilið eftir þig fjársjóð af minningum sem enginn getur tekið frá mér. Þín er sárt saknað, hvíl þú í friði. Ég elska þig.

Þinn sonur,

Einar Páll.

Elsku pabbi minn, enn er þungt högg lagt á fjölskylduna er þú kvaddir okkur systkinin á sjálfan nýársdag, en þið mamma giftuð ykkur þá fyrir 67 árum. Mamma okkar kvaddi okkur 2. september 2023.

Pabbi var sex barna faðir sem kom okkur öllum til manns. Þrjár stelpur og þrír strákar (ríkidæmi). Pabbi lærði húsasmíðameistarann sem kom sér vel þegar þið byggðuð ykkar einbýlishús með fimm börn. Allt lék í höndunum þínum en yngsta systirin kom þegar við fluttum í voginn. Við Jón byggðum okkar einbýlishús 1984, þá mættir þú dag eftir dag að hreinsa og skafa timbur, alltaf hjálpsamur. Söngelskur varstu pabbi minn, einkunnarorð þín voru til lífsins: Við gefumst aldrei upp þótt móti blási, á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint, og látum engan yfir okkur ráða, þó ýmsir vilji stjórna okkur bæði ljóst og leynt.

Við sátum saman og sungum, þú kunnir alla texta. Það voru ófáar stundirnar sem við gátum setið og spilað á spil og hornaskák tekin. Alltaf varst það þú sem vannst, sama við hvern þú spilaðir, varst algerlega ósigrandi. Á ég eftir að sakna þessara stunda með þér. En það fallegasta eru minningarnar sem ég geymi í hjarta mínu sem við áttum saman. Farðu í friði elsku pabbi minn, mamma er með útbreiddan faðminn að taka á móti þér og þið sameinuð á ný.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín dóttir,

Erna.

Elsku pabbi minn.

Árið byrjar tómlega án þín, minningarnar góðu lifa og verð ég endalaust þakklát fyrir þær. Hláturinn, dansinn, matarboðin, ferðalögin, sögurnar, æskuheimilið, fjölskylduna stóru og síðast enn ekki síst taflið og spilamennskuna, já, ég veit þú vannst alltaf.

Dugnaður þinn og jákvæðni eru mér efst í huga, aldrei var til í þínum orðum að gefast upp enda söngstu lagið: „Við gefumst aldrei upp þótt móti blási.“ Jákvæðni þína tek ég mér til fyrirmyndar.

Ég veit að þér líður vel í sumarlandinu hjá mömmu elsku pabbi, þar vildir þú vera. Ég mun varðveita minningu ykkar beggja og sendi þér ljóð sem kom til mín.

Fallegi pabbi þú farinn ert mér frá.

Aldrei ég mun aftur í þig ná.

Það særir og blæðir af sorg og sút.

Maginn minn herpist í stóran hnút.

Fallegu augun þín minna hafið á.

Alltaf ég vildi vera þeim hjá.

Fallegar stundir ég rifja nú upp.

Upp með hausinn og ekkert rugl.

Áfram veginn þú ganga skalt.

Þau voru ráðin þar lærði ég margt.

Far þú í friði pabbi minn sæll.

Skellurinn er kominn,

eitthvað sem ég fæ aldrei bætt.

Þín elskandi dóttir,

Svava Björg

Elsku tengdapabbi og afi okkar er látinn 91 árs að aldri, hann var góður maður og er sárt saknað. Hann og elsku tengdamamma og amma komu oft í heimsókn til okkar í Noregi og það var allaf jafn yndislegt að hitta þau.

Hörður afi var duglegur, hann var mjög laghentur og góður smiður. Síðustu árin var það hans aðaláhugamál að gera upp húsgögn og amma Halldóra aðstoðaði hann við að sauma sessur í stóla sem hann gerði upp. Þau voru mjög samheldin hjón og það var alltaf gaman að heimsækja þau í Eikjuvoginn. Við eigum góðar minningar frá því við heimsóttum hann á Landspítalann síðasta sumar og spiluðum manna við hann. Honum fannst gaman að spila og var mjög góður og kappsamur spilamaður.

Takk fyrir allt, elsku Hörður tengdapabbi og afi, við minnumst þín með mikilli hlýju og kærleik.

Gyða Steinsdóttir, Aníta og Íris Einarsdætur.

Við Hörður höfum unnið mikið saman gegnum árin við smíðar, bílaréttingar og málun. Seinni árin voru það húsgögn og stólar sem við endurnýjuðum. Það kom mikið af brotnum eldhússtólum sem ég sauð saman fyrir hann. Hörður pússaði og setti nýjar sessur og bök og amma saumaði áklæði á suma hókus pókus-stólana. Síðan seldi Hörður og söng: við gefumst aldrei upp þó móti blási.

Kveðja, þinn tengdasonur,

Jón Sigurðsson.