[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Erik Sigurðsson, landsliðsmaður í alpagreinum, hélt áfram að gera það gott á mótum Alþjóðaskíðasambandsins á Ítalíu í fyrradag. Hann fékk þá silfurverðlaun á stórsvigsmóti í Pozza di Fassa og komst þar með á verðlaunapall í þriðja skipti á tæpri viku

Jón Erik Sigurðsson, landsliðsmaður í alpagreinum, hélt áfram að gera það gott á mótum Alþjóðaskíðasambandsins á Ítalíu í fyrradag. Hann fékk þá silfurverðlaun á stórsvigsmóti í Pozza di Fassa og komst þar með á verðlaunapall í þriðja skipti á tæpri viku. Hann fékk sína bestu FIS-punkta í stórsvigi, 43,16. Bjarni Þór Hauksson hafnaði í tíunda sæti á mótinu.

Knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson hefur samið við enska C-deildarfélagið Burton Albion og leikur með því út þetta tímabil en samningur hans við Wrexham í sömu deild var að renna út. Burton er neðst í deildinni en sex Íslendingar eru á meðal eigenda félagsins.

Jón Breki Guðmundsson, 16 ára knattspyrnumaður frá Neskaupstað, er á leið til ítalska félagsins Empoli og mun leika með unglingaliði þess. Jón Breki lék með KFA í 2. deild á síðasta ári og síðan með 2. flokki ÍA á lokaspretti tímabilsins. Þá spilaði hann fimm leiki með U17-ára landsliðinu á síðasta ári.

Hafsteinn Óli Ramos leikmaður Gróttu þreytti frumraun sína á heimsmeistaramóti í handbolta í gærkvöld. Hann var í leikmannahópi Grænhöfðaeyja og kom inn á undir lok leiksins gegn Íslandi í Zagreb en náði ekki að skora mark.

Einar Þorsteinn Ólafsson var ekki í 16 manna hópi Íslands gegn Grænhöfðaeyjum í fyrsta leik liðsins á heimsmeistaramótinu í handbolta í gærkvöld. 17 leikmenn skipa HM-hópinn sem stendur, þar til Aron Pálmarsson bætist við, en aðeins 16 mega vera á skýrslu hverju sinni. Auk þess að bæta Aroni við þegar hann verður orðinn heill heilsu má gera fimm breytingar á heildarhópnum á meðan mótið stendur yfir.

Hlynur Bæringsson jafnaði leikjametið í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í gærkvöld þegar hann lék með Stjörnunni gegn ÍR í Skógarseli. Þetta var 416. leikur Hlyns í deildinni og hann jafnaði met Marels Guðlaugssonar sem lék með Grindavík, Haukum og KR. Hlynur lék fyrst í deildinni 15 ára gamall árið 1997 en var í níu ár atvinnumaður erlendis áður en hann fór í Stjörnuna árið 2016.