Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Óvissa ríkti í gærmorgun um framtíð fyrirhugaðs vopnahlés á Gasasvæðinu eftir að ríkisstjórn Ísraels sakaði hryðjuverkasamtökin Hamas um að vilja endursemja um nokkra þætti vopnahléssamkomulagsins og ganga þar með á bak orða sinna. Ísraelsher hélt áfram loftárásum á Gasasvæðið í gær, og sögðu talsmenn hersins að þeir hefðu gert um fimmtíu loftárásir á undangengnum sólarhring.
Sagði í yfirlýsingu frá ísraelska forsætisráðuneytinu að ríkisstjórnin yrði ekki kölluð saman til að samþykkja samkomulagið fyrr en milligönguþjóðirnar þrjár, Katar, Egyptaland og Bandaríkin, gætu fullvissað Ísraelsmenn um að Hamas-samtökin myndu samþykkja alla þætti þess.
Ekki var sérstaklega tilgreint í yfirlýsingu ísraelska forsætisráðuneytisins hvaða þætti samkomulagsins væri um að ræða, en ísraelskir fjölmiðlar sögðu þá snúa að tilhögun þess hvernig gíslum Hamas-samtakanna yrði sleppt úr haldi.
Sami Abu Zuhri, einn af leiðtogum Hamas-samtakanna, sagði að ásakanir Ísraelsstjórnar væru algjörlega tilhæfulausar og sögðu talsmenn samtakanna að þau stæðu á bak við samkomulagið sem greint hefði verið frá í fyrrakvöld. Þeir vöruðu hins vegar einnig við því að loftárásir Ísraelshers tefldu vopnahléinu í tvísýnu, en samtökin segja að minnst 75 manns hafi farist í loftárásum Ísraelsmanna frá því að tilkynnt var um vopnahléið í fyrrakvöld.
Vopnahlé í þremur áföngum
Samkomulagið sem kynnt var í fyrrakvöld á að komast til framkvæmda í þremur áföngum. Samið hefur verið um að í fyrsta áfanganum, sem á að hefjast nú á sunnudaginn og standa yfir í sex vikur, muni Hamas-samtökin sleppa 33 af þeim gíslum sem samtökin tóku í hryðjuverkunum 7. október 2023, gegn því að Ísraelsmenn láti lausa um þúsund manns, sem nú dvelja í ísraelskum fangelsum.
Opinberlega eru enn 94 gíslar í haldi Hamas-samtakanna af þeim 251 sem þau rændu 7. október, en Ísraelsmenn hafa sagt að einungis um sextíu þeirra séu enn taldir á lífi. Konur, börn, aldraðir og veikir verða á meðal þeirra 33 sem sleppt verður, en talsmaður Ísraelsstjórnar sagði að flestir, en ekki allir, af gíslunum 33 væru taldir á lífi. Munu Hamas-samtökin sleppa þremur á sunnudaginn, en hinir þrjátíu fá lausn á næstu sex vikum.
Samhliða fangaskiptunum mun Ísraelsher draga sig frá öllum byggðum svæðum á Gasasvæðinu, á sama tíma og tryggt verður að íbúar svæðisins geti snúið aftur til síns heima. Þá verður neyðaraðstoð til svæðisins stóraukin, og er gert ráð fyrir að hundruð vörubíla fái að fara inn á svæðið á degi hverjum.
Viðræður um framkvæmd annars og þriðja áfanga samkomulagsins munu hefjast á 16. degi vopnahlésins. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði þegar hann kynnti samkomulagið að í öðrum áfanga yrði samið um varanlegan frið í átökum Ísraels og Hamas. Jafnframt yrði öllum þeim gíslum sem enn væru á lífi sleppt í skiptum fyrir fleiri palestínska fanga úr ísraelskum fangelsum.
Þá er einnig gert ráð fyrir að í öðrum áfanga myndi Ísraelsher draga sig algjörlega frá Gasasvæðinu, þar á meðal hinum svonefnda Filippí-gangi, sem liggur á milli Gasasvæðisins og Egyptalands.
Þriðji áfangi samkomulagsins mun svo fela í sér endurreisn Gasasvæðisins eftir átökin, en talið er að það gæti tekið nokkur ár. Þá yrði líkum þeirra gísla sem enn væru undir höndum Hamas-samtakanna skilað.
Leggjast gegn samkomulaginu
Fagnaðarlæti brutust út bæði í Ísrael og á Gasasvæðinu þegar tilkynnt var um samkomulagið í fyrrakvöld. Skiptar skoðanir eru þó innan Ísraels um það, og stóðu ísraelskir harðlínumenn fyrir mótmælum við þinghúsið í Jerúsalem í gær. Skoruðu þeir á fjármálaráðherrann Bezalel Smotrich og þjóðaröryggisráðherrann Itamar Ben Gvir að segja af sér frekar en að leyfa ríkisstjórninni að samþykkja samkomulagið, en báðir hafa þeir verið mjög gagnrýnir á það.
Sérfræðingar í ísraelskum stjórnmálum sögðu við AFP-fréttastofuna í gær að ólíklegt væri að andstaða hægri jaðarflokkanna myndi koma í veg fyrir samkomulagið, þar sem stjórnarandstaðan hefði lýst yfir vilja sínum til þess að styðja hvert það samkomulag sem færði ísraelsku gíslana aftur heim.
Fregnum af vopnahléinu var fagnað af stjórnvöldum víða um veröld. Stjórnvöld í Íran, sem eru helstu bakhjarlar Hamas-samtakanna, sögðu samkomulagið sigur fyrir Palestínumenn og ósigur fyrir Ísrael og Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði að fagna bæri hvers kyns samkomulagi sem gæti bundið enda á þjáningar Palestínumanna og tryggt öryggi Ísraelsríkis.
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, fagnaði einnig samkomulaginu mjög á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, en fulltrúi Trumps var viðstaddur síðustu viðræðuloturnar ásamt fulltrúa fráfarandi Bandaríkjastjórnar. Mun samstarf fulltrúanna tveggja hafa skipt sköpum við að tryggja að samkomulag gæti náðst. Sagði Trump brýnt að tryggja að Gasasvæðið gæti ekki aftur orðið að athvarfi hryðjuverkamanna.
Abdel Fattah al-Sisi Egyptalandsforseti lagði í viðbrögðum sínum áherslu á þörf Gasasvæðisins á neyðaraðstoð. Tóku meðal annars leiðtogar Íraks og Jórdaníu undir það ákall.