María Margrét Jóhannsdóttir
mariamargret@mbl.is
Myndlist
María Margrét Jóhannsdóttir
mariamargret@mbl.is
Ný sýning á vídeóverkum Ragnars Kjartanssonar verður opnuð á morgun í i8 Granda undir yfirskriftinni Brúna tímabilið. Sýningin varir í heilt ár eða til 18. desember og mun taka ýmsum breytingum yfir árið. Í raun ríkir fullkomin óvissa um hverju fólk megi eiga von á.
„Það að vera með sýningu sem stendur í heilt ár er mjög spennandi áskorun því maður hugsar sýninguna með allt öðrum hætti. Formið er lifandi. Hér er ég að leika mér með rýmið sem framlengingu á vinnustofu minni sem er rétt hjá. Þetta er kjörið tækifæri til að prófa sig áfram með hugmyndir og rugl. Maður er með mörg járn í eldinum sem og áður ósýnd verk. Þetta verða aðallega vídeóverk en svo veit maður aldrei því frelsið er jú móðir sköpunar. Á þessu brúna tímabili verður vonandi nóg af mistökum og tækifærum til að mistakast.“
Af hverju brúni liturinn?
„Allir litir sullast saman í brúnt. Þetta er mjög opinn titill og getur þýtt svo margt. Þetta hefur til dæmis ákveðna skírskotun í æskuna. Ég er fæddur 1976 inn í einhvern brúnan heim og mínar bernskuminningar eru einhvern veginn brúnar. Svo getur brúnn líka staðið fyrir „shit show“. Þetta er bara mjög opið hugtak rétt eins og sýningin.“
Fyrsta vídeóverkið sem verður sýnt er samstarfsverkefni Ragnars og Davíðs Þórs Jónssonar tónlistarmanns og heitir „A Boy and a Girl and a Bush and a Bird“ og hefur aldrei verið sýnt áður.
Bananahús sem tökustaður
„Þetta er tveggja rása vídeóverk sem tekið var upp í Bananahúsinu á Reykjum í Hveragerði og fangar ákveðið ljóðrænt ástand sem erfitt er að setja fingur á og er í rauninni málverk. Verkið varð til á tilviljanakenndan hátt en bandaríski tónlistarmaðurinn Aaron Dessner hafði sent mér texta sem ég dró svo upp þegar við Davíð Þór vorum fyrir austan að gera við ónýtt þak og tókum okkur pásu til þess að semja tónlist. Við notuðum bút úr þeim texta sem og tilvitnanir sem Anne Carson hafði sent mér. Nokkurs konar ljóðbréf. Þetta er dæmi um hvernig verkin geta orðið til úr samvinnu við vini. Ég kynntist síðan tökustaðnum í gegnum mágkonu mína Eddu Kristínu sem var við nám í garðyrkjuskólanum en Bananahúsið er mjög áhugaverður staður. Það var byggt 1951 og var stolt lýðveldisins. Ísland var nýkomið undan Dönum og farið að gera tilraunir með að beisla náttúruna og rækta ávexti. Þangað komu fyrirmenni og veislur haldnar. Hugmyndin var sú að nýja Ísland væri einhvers konar bananaland í algerri andstöðu við hokrið sem áður ríkti.
Þá stendur líka t.d. til að sýna tvö vídeóverk sem ég vann með Sögu Garðarsdóttur. Annað á þýsku en hitt á dönsku. Þetta eru ólík verk sem voru ætluð hvort í sínum tilgangi en leikið er með sama mótívið.“
Risastór smalamálverk
Aðspurður um vinnuferlið segir Ragnar það yfirleitt eiga sér stað í einhverju hangsi. „Sumir listamenn vinna einir við skrifborðið en hjá mér hafa hlutirnir oftast orðið til í samtölum við vini, hangsi eða bara lífinu sjálfu. Mér finnst til dæmis það að slæpast og drekka kaffi með einhverjum alveg jafnmikilvægt og að sitja við strigann. Nú er ég að vinna í skissum að risastórum smalamálverkum sem ég mun sýna í Tallinn en ég er mikill áhugamaður um smalamennsku og smala í Skaftártungu á haustin. Það er fáránlega gaman. Þá er skissubókin með í för auk þess sem ég tek ljósmyndir sem ég styðst við. Þarna má greina 19. aldar ofurrómantík en þegar maður er að smala þá er maður í ákveðinni ofurrómantík. Verkin eru þess eðlis að þau gætu allt eins prýtt fundarherbergi á KEA en ég hef gaman af klisjum og hef alltaf heillast af þessum íslensku landslagsmálverkum eftir listamenn á borð við Sigurð Sigurðsson, Freymóð Jóhannesson og fleiri.“
Finnst pólitík skemmtileg
Ragnar hefur ekki verið hræddur við að blanda sér í pólitíska umræðu með beinum hætti. Nú síðast fyrir forsetakosningar með greinaskrifum og svo í nýafstöðnum alþingiskosningum þar sem hann birtist í auglýsingum fyrir Vinstri-græna. Ertu ekki hræddur við að fæla fólk frá list þinni?
„Nei, Guði sé lof þá búum við í landi þar sem fólk getur haft sínar stjórnmálaskoðanir og það er ekkert verið að djöflast í fólki út af því. Munum að pólitísk þátttaka eru forréttindi og mér þykir leitt hvað fólk talar niður stjórnmál. Ég hef verið í löndum þar sem ekki má tala um stjórnmál og það er ömurlegt. Þegar fólk á kaffistofum talar um „helvítis ríkisstjórnina“ þá er það merki um heilbrigt samfélag. Ég hugsa aldrei um að ég sé að fæla einhverja áhorfendur frá mér með einhverju masi og reyni eftir fremsta megni að stunda ekki sjálfsritskoðun, hvorki til hægri né vinstri. Mér finnst pólitík bara skemmtileg og það að vera kverúlant.“
En er listin þín pólitísk?
„Sem listamaður er ég háll sem áll. Öll list er alltaf pólitísk en mig langar ekki að gera list til þess að þjóna ákveðinni hugmyndafræði. Áhugaverðast er þegar listaverk hafa margrætt eðli og mér finnst yfirleitt að listin þurfi að vera frá djöflinum en maður daflar bara í pólitík sem borgari.“
Aftur víkur talinu að hinni árslöngu sýningu og blaðamaður reynir að forvitnast um hversu oft þurfi að heimsækja hana til þess að missa ekki af neinu. „Sem sjaldnast! Ekkert að vera að eyða tímanum í þetta,“ segir Ragnar og hlær. „En í fullri alvöru þá veit ég það ekki, sýningin breytist nokkrum sinnum yfir tímabilið en það er samt alltaf þess virði að koma í Marshallhúsið enda alltaf spennandi sýningar þar í gangi.“