Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Það er engin þörf á því að almenningur fari í holufyllingar á vegunum. Þetta er stórt verkefni en við sjáum um okkar vegi,“ segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
Auglýsing frá Malbikunarstöðinni Höfða í Morgunblaðinu í vikunni hefur vakið athygli margra. Þar var auglýst viðgerðarefni fyrir holur í malbiki, tilbúið til notkunar. Umrætt efni er sagt vera hið mest notaða fyrir holur í malbiki á Norðurlöndunum, einfalt í notkun, endingargott og umhverfisvænt.
Vegagerðin stærsti kúnninn
Birkir Hrafn Jóakimsson, framkvæmdastjóri Malbikunarstöðvarinnar Höfða, segir að hver sem er geti keypt viðgerðarefnið og notað það. Ekki sé vanþörf á eins og ástandið sé víða þessa dagana. Morgunblaðið hefur greint frá því að nokkuð hafi borið á tilkynningum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu vegna skemmda á malbiki eftir miklar leysingar.
Birkir tekur þó undir með G. Pétri og telur ekki rétt að almenningur fari að fylla upp í holur á vegum úti. „Nei, ég held að lögreglan yrði ekki ánægð ef vegfarendur færu að stöðva umferð til að fylla upp í holur. Enda er Vegagerðin stærsti kúnninn okkar,“ segir hann. Efnið geti hins vegar nýst vel fyrir fyrirtæki, húsfélög og einstaklinga; á bílaplönum, innkeyrslum og einkalóðum.
Efnið er selt í 22 kílóa pokum og kostar hver þeirra 6.500 krónur að sögn Birkis. Innan tíðar verður einnig hægt að fá efnið í fötum sem hægt er að loka aftur.
Kalt malbik í holurnar
„Þetta er bara kalt malbik. Það harðnar þegar það kemst í snertingu við vatn. Þú hreinsar holuna af lausu efni og fyllir hana rétt upp yfir barma með efninu þannig að bungi vel. Ef þú ert ekki með þjöppu þá keyrirðu bara yfir holuna.
Svo seljum við „primer“ með í spreybrúsum, grunn sem þú sprautar á kantana til að líma við yfirborðið sem þegar er til staðar. Þetta er á allra færi. Jón og Gunna á Framnesveginum geta vel stautað sig fram úr þessu.“