Kristján Albert Halldórsson fæddist á Blönduósi 22. maí 1932. Hann lést á LSH Landakoti 8. janúar 2025.

Foreldrar hans voru Halldór Albertsson, kaupmaður á Blönduósi, f. 15. júlí 1886, d. 18. maí 1961 og Kristjana Konkordía Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 1. september 1909, d. 4. nóvember 2005.

Systkini Kristjáns: Guðrún, f. 21.10. 1928, d. 29.11. 2020. Jón Albert, f. 2.9. 1930, d. 14.9. 1930. Haukur, f.10.7. 1938, d. 11.6. 1942. Sverrir Haukur, f. 19.3. 1943, d. 17.7. 2021. Dóra, f. 14.2. 1947. Haukur, f. 22.1. 1949.

Kristján sleit barnsskónum á Blönduósi. Ólst upp í Halldórshúsi hjá foreldrum sínum og systkinum. Gekk í barnaskólann á Blönduósi og þaðan lá svo leiðin í Héraðsskólann að Reykjum í Hrútafirði þaðan sem hann útskrifast síðan. Flytur til Reykjavíkur og kemst á samning hjá Landssmiðjunni og lærir járnsmíði. Klárar það nám svo í Iðnskólanum í Reykjavík.

1953 kynnist hann Reykjavíkurmeynni Helgu Guðríði Friðsteinsdóttur, f. 30. september 1937, d. 28. febrúar 2021. Foreldrar hennar voru Friðsteinn Helgason, bifvélavirki og verkstjóri hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, f. 16. júní 1906, d. 27. maí 1996 og Ólafía Vilborg Jónsdóttir húsmóðir, f. 21. mars 1911, d. 4. mars 1989.

Kristján og Helga hófu búskap og giftu sig 28.9 1957. Börn þeirra eru: 1) Ásdís, f. 12.4. 1957. Börn Ásdísar og fyrri eiginmanns hennar: Helga Kolbrún, f. 2.7. 1975. Börn hennar eru Heiðbjört Dís og Víkingur Snorri. Heiðbjört á eina dóttur, Talíu Björt. Þorsteinn Kristinn, f. 15.8. 1982. Börn hans eru Mjölnir Þór og Manúela Rós. Eiginmaður Ásdísar er Guðmundur Björgvinsson, þau eiga tvo syni saman: Guðmundur Arnar, f. 27.4. 1989. Sambýliskona hans er Guðbjörg Þorleifsdóttir. Stefán Freyr, f. 14.11. 1994. Sambýliskona hans er Jessica Cruddas. Börn Guðmundar frá fyrra hjónabandi. Björgvin Einar, f. 25.4. 1977, eiginkona hans er Flóra Hlín og sonur þeirra er Almar Elí. Hildur Björk, f. 13.5. 1981. Eiginmaður hennar er Tor Anders, börn þeirra Tristan og Nataly. 2) Albert, f. 13.6. 1958. Eiginkona hans er Jóna Daðey Hálfdánardóttir, f. 11.9. 1961. Börn þeirra: Kristján, f. 18.4. 1979. Eiginmaður hans er Einar Ingason, f. 12.8. 1987. Halldór, f. 23.8. 1986. Eiginkona hans er Helga Guðjónsdóttir, f. 28.11. 1986. Börn þeirra: Viktor Daði og Katrín Lilja. Daðey, f. 12.7. 1988. Eiginmaður hennar er Tómas Guðmundsson. Synir þeirra eru Benjamín Tumi og Bjartur Nói.

Kristján starfaði fyrstu árin hjá Landssmiðjunni þar sem hann lærði iðn sína. 1967 færir hann sig yfir til Strætisvagna Reykjavíkur og vann þar uns hann lét af störfum sökum aldurs.

Útför Kristjáns fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 17. janúar 2025, kl. 13.

Kynni mín af Kristjáni, eða Badda eins og hann var kallaður af fjölskyldunni, hófust þegar ég kom inn á heimili þeirra hjóna, hans og Helgu, við Elliðavatn, í fylgd sonar þeirra sem í dag er eiginmaður minn. Mér var tekið opnum örmum af þeim hjónum, 16 ára gamalli, feiminni og vandræðalegri, en það rjátlaðist nú fljótt af mér. Betri tengdaforeldra hefði ég ekki getað óskað mér. Kristján var rólegheitamaður. Ósköp ljúfur í skapi en mjög stutt í hrekkjalóminn og stríðnina og stríddi hann Helgu sinni óspart. Þessi stríðni er mjög sterk í genunum því sonur hans fékk hana í ríkum mæli sem og börnin okkar sem eru meinstríðin. Bóngóður var hann og veit ég að hann hugsaði vel til systkina sinna og ekki vantaði upp á ef aðstoðar var þörf. Ekki málið að henda upp fallegum snúrustaurum eða pússa baðherbergisveggina undir flísalögn þegar mér datt í hug að endurnýja baðherbergið árið 2006, þannig að við brettum upp ermar og tæmdum herbergið. Vitanlega varð að pússa veggina og stóð hann í rykmekkinum og gaf sig sko ekki. Svo vildi hann endilega fá að pússa fyrir mig stórt gifslistaverk og stóð úti í garði, allur þakinn hvítu gifsi og garðurinn líka. En það fór í næstu rigningu. Og statíf smíðaði hann úr málmi og þá voru hæg heimatökin.

Hann var einstaklega mikill dýravinur og elskaði hunda. Þegar þau fluttu á Vatnsendann var Albert sonur þeirra snöggur að koma sér í kynni við Vatnsendabóndann og kom þaðan með hvolp sem fékk nafnið Sámur. Síðan hefur þetta nafn fylgt þessu heimili því Sámur þriðji er í fjölskyldunni núna.

Þegar þau hjónin fluttu af Vatnsendanum, 1989, í blokkaríbúð í Breiðholti voru þau búin að fjárfesta í sumarbústað við Meðalfellsvatn. Hálfkaraður bústaður í mýri sem gjörsamlega umbreyttist í höndum þeirra í sannkallaðan sælureit.

Fyrir réttum fjórum árum lést Helga og sat hann við hlið hennar síðustu dagana og hélt í hönd hennar þar til yfir lauk. Mikið sem hann saknaði hennar og við öll. Upp frá því fór hann að koma í sunnudagsmat alla sunnudaga því sunnudagsmatur er venja á þessu heimili og allir koma. Sem og öll jól og páska. Tveir hundar fylgja fjölskyldunum og þeir voru nú snöggir að finna út hjá hverjum vænlegast væri að planta sér og ófáir voru bitarnir sem fóru í þá munna.

Síðastliðið vor fór að halla undan fæti og seint í nóvember á síðasta ári lenti ég inni á bráðamóttöku LSH. Hann kom þangað daginn eftir, ég sá hann ekki fyrstu dagana og vissi að langt var á milli okkar, ég gat illa gengið alla þá leið en grunaði að hann myndi nú koma nær. Og þriðja daginn sem ég lá þar voru hjúkrunarfræðingarnir að flytja sjúklinga á milli, og heyri ég þá kunnuglega rödd. Við lágum þarna bæði þennan síðasta sólarhring því daginn eftir fékk ég að fara heim en hann var fluttur upp á aðra deild. Hann vissi í raun í hvað stefndi og sagðist vera sáttur. Fljótlega var hann síðan fluttur yfir á Landakot þar sem hann lést þann 8. janúar.

Ég þakka viðkynninguna og samfylgdina í gegnum árin. Farðu í friði, kæri tengdapabbi.

Jóna Daðey
Hálfdánardóttir.

Vinnufélagar skipta máli. Það að eiga átakagóða og skemmtilega vinnufélaga eru verðmæti. Kristján, sem við hjá SVR, síðar Strætó bs., nefndum ætíð Stjána var frábær vinnufélagi. Einstakur verkmaður, þaulvanur járnsmiður, útsjónarsamur viðgerðamaður og skemmtilegur. Athugull og lærður í sínum fræðum, gat látið sér fátt um finnast ef svo bar undir. Hispurslaus í skoðunum er honum þótti betur mega til takast. Hann gat átt það til að leiðbeina stjórnendum, þá var mikilvægt að hafa vit til að þiggja því Stjáni var útsjónarsamur og lausnamiðaður. Hann naut virðingar hjá samstarfsmönnum og stjórnendum. Til hans var leitað með flókin sérverkefni. Það var gott að eiga samstarf við Stjána, hann leysti þau verk sem honum voru falin og sá vel um þá verkþætti sem honum var trúað fyrir.

Kristján og Helga kona hans voru framtakssöm um samverustundir vinnufélaga utan vinnu.

Við fráfall kærrar eiginkonu var Stjána brugðið, en hélt sinni reisn og sínu striki. Börnin héldu vel um sinn föður.

Megi Kristján Halldórsson í friði fara og virðing vera um minningu hans. Hafi hann þökk fyrir góð kynni.

Hörður Gíslason.