Bjarni Hafsteinn Geirson fæddist í Hafnarfirði 15. mars 1944. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 31. desember 2024.
Bjarni Hafsteinn, oft kallaður Haddi Geirs, var sonur þeirra hjóna Geirs Gestssonar og Huldu Sigrúnar Pétursdóttur úr Hafnarfirði. Bróðir Bjarna Hafsteins er Svavar, húsasmiður í Hafnarfirði.
Bjarni Hafsteinn lærði til smiðs og starfaði við það á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og í kjölfarið sem tollvörður á Keflavíkurflugvelli. Með þessari vinnu vann hann fyrir Knattspyrnufélagið Hauka, m.a. sem forstöðumaður, framkvæmdastjóri og bókari alla tíð.
Bjarni Hafsteinn giftist Helgu Garðarsdóttur árið 1964 og áttu þau þrjú börn; Hildigunni, f. 1964, Geir, f. 1966, og Dag, f. 1968. Þau skildu 1984.
Útför Bjarna Hafsteins fer fram í Fríkirkjunni Hafnarfirði í dag, 17. janúar 2025, kl. 13.00.
Mig langar með fáum orðum að minnast elsku Bjarna.
Við kynntumst þegar ég var bara ungur gutti, hann og Guðrún móðir mín unnu bæði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, hann starfaði í tollinum og mamma í Landsbankanum. Urðu þau miklir vinir og síðar par og kært var á milli þeirra alla tíð þó svo að parasambandi þeirra lyki.
Bjarni var ávallt búsettur í Hafnarfirði og keyrði á milli alla daga til vinnu meðan við mamma og Emil bróðir bjuggum í Keflavík. Bjarni var ekki á þeim buxunum að flytja til Keflavíkur þótt mamma hafi reynt að fá hann til þess. Hann var mikill Haukamaður og var markmið hans að fá mig til að halda með sínu liði. Enn í dag hef ég eingöngu farið á einn handboltaleik og það var með Bjarna á Haukaleik í gamla húsinu á Strandgötunni. Alltaf var hann gjafmildur á Haukavarning og alltaf þáði ég hann þótt ég væri harður Keflvíkingur, hann gekk svo langt í viðleitni sinni að hann réð mig í vinnu til að sinna húsvörslu í litla íþróttahúsinu í Flatahrauni.
Bjarni eyddi miklum gæðatíma með okkur, eru þar minnisstæðastar utanlandsferðirnar sem hann tók okkur með í. Tvisvar fórum við til Danmerkur, einnig allar sumarbústaða- og veiðiferðirnar, alltaf var eitthvað nýtt að prófa, skoða og upplifa þegar maður var með honum og mömmu.
Bjarni var alveg einstakur maður, þegar hann var ekki í heimsókn hjá okkur hringdi hann daglega til að heyra í mömmu og alltaf þegar ég eða Emil bróðir svöruðum í símann þá vildi hann vita hvernig við hefðum það og spurði út í daginn okkar, alltaf svo blíður og áhugasamur. Frábær var hann, svo góður og elskulegur við okkur bræðurna og fram á síðasta dag spurði hann alltaf hvernig við hefðum það þegar þau mamma hittust eða töluðust við.
Takk fyrir allt elsku Bjarni, þú munt ávallt eiga sérstakt pláss í hjarta okkar allra.
Guðmundur
Valtýr Valsson.
Þegar daginn var loks tekið að lengja á ný brá skugga fyrir sólu þegar kær vinur og félagi, Bjarni Hafsteinn Geirsson, kvaddi okkur. Það var líkt öðru í stíl Hadda að kveðja á lokadegi ársins. Þetta voru hans ferðalok, mannsins sem naut þess öðru fremur að ferðast um landið sitt í góðra vina hópi.
Þær eru margar og eftirminnilegar ferðirnar um landið vítt og breitt og heiminn, í okkar ágæta félagsskap „Hauki á stöng“. Þar var Haddi við stjórnvölinn og valdi leiðina að áfangastað. Sjaldan þá stystu og greiðfærustu. Hann vildi njóta ferðarinnar. Fá að skoða landið sitt, gefa sér góðan tíma í ferðalagið, styrkja vináttuna og efla félagsandann. Veiðin var ekki aðalatriðið heldur ferðalagið sjálft.
Félagsskapurinn var virkur og lifandi. Það fækkaði í hópnum þegar góðir vinir kvöddu og Haddi var farinn að eiga erfiðara um gang síðari árin. Hann lét það ekki aftra sér, heldur lagði ríka áherslu á að halda hópnum saman og halda ferðalaginu áfram. Í okkar síðustu ferð áttum við eftirminnilega daga á fáförnum slóðum á Hrunamannaafrétti, í nánast einu sumarblíðunni sem sýndi sig á nýliðnu ári. Þar var umhverfi og fjallasýn eins og fegurst getur orðið á björtum degi og íslenskri sumarnótt.
Á þessum ferðalögum var Haddi ofar en ekki hrókur alls fagnaðar, kátastur allra þegar gleðin var við völd, en líka íhugull og alvörugefinn. Hann hafði sterkar skoðanir og gaf lítið fyrir prjál og sýndarmennsku. Var stoltur af íslenskri náttúru og þjóð – einn af lýðveldisbörnunum sem fæddust 1944 og fann til sterkrar nálægðar við landið sitt.
Fyrst og fremst var Bjarni Hafsteinn gegnheill Haukamaður. Félagið var honum eitt það kærasta í lífinu. Hann var svo miklu meira en venjulegur Haukafélagi eða stuðningsmaður. Hann var bæði hjartað og sálin í félaginu okkar.
Nær allt sitt líf sinnti hann starfi og þjónustu fyrir Hauka. Hann var einn af strákunum hans Guðsveins sem endurreistu handknattleikinn hjá Haukum á síðari hluta sjötta áratugar síðustu aldar. Sá öflugi kjarni sem þá tók upp merkin leiddi félagið áfram inn í nýja tíma og á sigurbraut komandi áratuga. Haddi keppti lengi með liðinu sínu og tók jafnframt virkan þátt í að leiða félagsstarfið. Var þar í forystusveit og síðar fjárgæslumaður og rekstrarstjóri um áratugaskeið.
Í nær 70 ár, heilan mannsaldur, var Bjarni Hafsteinn allt í öllu hjá Knattspyrnufélaginu Haukum. Fáir ef nokkur annar einstaklingur hefur komið með jafn öflugum og ötulum hætti að starfi og uppbyggingu félagsins. Kominn á níræðisaldur var Haddi enn við störf á Ásvöllum fyrir félagið sitt. Samfélag Haukanna var hans annað heimili, þar voru hans félagar og vinir og þar var hans lífssaga skráð að stórum hluta.
Að leiðarlokum sendum við félagar í Hauki á stöng börnum og ástvinum Hadda okkar innilegustu samúðarkveðjur um leið og við þökkum góðum félaga fyrir vináttuna, ferðalögin, eftirminnilegar stundir og ekki síst hans einstaka Haukahjarta.
Eiríkur Skarphéðinsson, Lúðvík Geirsson,
Olav Ballisager,
Steinþór Einarsson.
Heiðursfélagi er fallinn frá. Félagi og vinur. Haddi Geirs. Sómamaður. Mikill missir. Tilveran getur aldeilis verið skrítin stundum. Ekki óraði mig fyrir því þegar ég heimsótti hann ökklabrotinn á Borgarspítalann rétt fyrir hátíðar að það yrði okkar síðasta samvera. Eins og svo oft áður: Við ræddum um félagið okkar og húsfélagið. Ársskýrsluna fram undan hjá félaginu og framkvæmdirnar fram undan hjá húsfélaginu. Handboltann og körfuna. Strákana og stelpurnar. Og líka aðgerðina hans sem yrði framkvæmd á næstu dögum. Hann var bæði jákvæður og bjartsýnn. Ég spurði því karlinn hvort ég ætti ekki örugglega að skrá hann í Reykjavíkurmaraþonið næsta sumar. Hann tók ekkert sérstaklega illa í þá hugmynd; skellihlæjandi. En himnafaðirinn hefur greinilega haft einhver önnur áform. Því miður. Stundum er það bara þannig. Því miður.
Ég votta börnum hans, fjölskyldum þeirra og ástvinum öllum mína innilegustu samúð. Guð blessi minninguna um Hadda Geirs. Hann var flottur og hans verður sárt saknað.
Áfram Haukar!
Þorsteinn G. Aðalsteinsson
(Steini Aðalsteins).