Sóknarprestur Magnús Erlingsson hafði verið prestur á Ísafirði í skamman tíma þegar snjóflóðin féllu í Súðavík 16. janúar 1995.
Sóknarprestur Magnús Erlingsson hafði verið prestur á Ísafirði í skamman tíma þegar snjóflóðin féllu í Súðavík 16. janúar 1995. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er svo mikilvægt að tala um tilfinningar sínar því um leið og maður er farinn að tala um tilfinningar er eins og maður nái einhvern veginn tökum á þeim,“ segir Magnús Erlingsson prestur á Ísafirði, sem var í hópi björgunarmanna sem…

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

„Það er svo mikilvægt að tala um tilfinningar sínar því um leið og maður er farinn að tala um tilfinningar er eins og maður nái einhvern veginn tökum á þeim,“ segir Magnús Erlingsson prestur á Ísafirði, sem var í hópi björgunarmanna sem kom með djúpbátnum Fagranesi frá Ísafirði eftir snjóflóð í Súðavík árið 1995.

Þegar á staðinn var komið reyndi hann eins og hægt var að vera fólki innan handar og segir að ekkert í guðfræðináminu hefði getað búið sig undir þær aðstæður sem hann steig inn í. Bæði eftir snjóflóðin í Súðavík 16. janúar 1995 og á Flateyri hinn 26. október árið 1995.

Hann segist hefðu þurft á sálfræðiaðstoð að halda eftir upplifunina en líklega hafi hann ekki áttað sig á því almennilega fyrr en í seinni tíð.

Magnús var 35 ára árið 1995 og hafði tekið við sem prestur á Ísafirði 1991, þremur og hálfu ári fyrir flóðin í Súðavík.

Fólk ásakaði sjálft sig

Magnús kom til Súðavíkur með bátnum um klukkan tíu um morguninn ásamt björgunarfólki og dvaldi í sólarhring áður en hann fór aftur til Ísafjarðar, en þangað voru flestir Súðvíkingar færðir.

„Ég byrjaði á því að taka utan um fólk og ræða við Súðvíkinga sem höfðu verið í leit og höfðu upplifað það að horfa upp á bæinn sinn í rúst og jafnvel finna einhverja látna í þessu braki. Um kvöldið og nóttina vorum við svo með svokallaða viðrunarfundi þar sem björgunarsveitarmenn sem höfðu verið við leit gátu sagt frá því sem þeir höfðu upplifað og voru að hugsa,“ segir Magnús.

„Við prestarnir vorum líka með fólkinu þegar það fór að sjá látna ástvini sína. Það var mikilvægt fyrir fólk að halda á börnunum, jafnvel klæða þau í föt, en þetta voru mjög erfiðar stundir. Fram að þessu hafði maður alltaf hugsað með sjálfum sér að slys yrðu úti á sjó, slys yrðu úti á vegum en maður hélt alltaf að maður væri öruggur heima hjá sér. Fólk hafði jafnvel fært börnin inn í stofu á dýnu eða í eigið rúm. Sumir fóru að ásaka sig og hugsuðu: Af hverju gerði ég þetta svona? Af hverju tók ég ekki meira mark á veðrinu?“ segir Magnús.

Man ekki eftir öðru eins

Viðmælendur Morgunblaðsins vegna flóðanna í Súðavík tala allir mjög fallega um Magnús. Hann er sagður góður maður og heill og augljóslega hláturmildur. Margir minnast hans með hlýhug frá þessum erfiðu tímum. Þegar blaðamaður ber þessi orð undir Magnús vill hann sem minnst gera úr því.

„Veðrið var með algjörum ólíkindum og ég man ekki eftir öðru eins þessa daga. Þegar verið var að aka okkur frá sjúkrahúsinu á Ísafirði og heim þá fórum við á snjótroðara. Þeir rötuðu eftir einhverju gps-tæki og tilkynntu mér þegar við vorum komnir heim. Nema ég sá ekkert hús. Svo hálfdrógu þeir mig yfir einhverja snjóskafla að húsinu heima. Það var varla stætt úti, snjóbylurinn var svo mikill,“ segir Magnús en lengra viðtal við hann birtist á
mbl.is í dag.

Súðavík 1995

Snjóflóð féllu í Súðavík 16. janúar 1995.

Fjórtán létust í einu flóðinu, þar af átta börn.

Magnús var meðal þeirra fyrstu sem komu á vettvang frá Ísafirði.

Starfaði hann þar með björgunarfólki og fleiri prestum.

Minningarathöfn fór fram á Ísafirði 21. janúar.