Brynja Friðþórsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 3. september 1956. Hún lést á gjörgæsludeild LSH við Hringbraut 8. janúar 2025.
Foreldrar Brynju voru Friðþór Guðlaugsson vélvirkjameistari, f. 11. október 1926, d. 19. júní 2004, og Margrét Karlsdóttir húsmóðir, f. 8. janúar 1930, d. 2. október 2022.
Brynja var næstelst í systkinahópnum en systkini hennar eru Stefán, f. 27. mars 1954, Guðlaugur, f. 24. september 1961, og Sigurhanna, f. 25. ágúst 1972.
Eiginmaður Brynju var Þorsteinn Þorsteinsson kaupmaður, f. 13. júní 1947, d. 9. desember 2005. Börn þeirra eru: 1) Margrét, f. 15. apríl 1977, d. 3. desember 2024, gift Pétri Eyjólfssyni. Barn þeirra er Eyjólfur, f. 2016. 2) Þorsteinn Ívar, f. 20. júlí 1987, í sambúð með Mörtu Karlsdóttur. Börn þeirra eru Elísabet Jóna, f. 2019, og Brynjar Karl, f. 2022. Áður átti Þorsteinn Ívar dótturina Rakel Dís, f. 2007.
Brynja ólst upp í Vestmannaeyjum og bjó þar alla tíð. Hún vann lengstum við aðhlynningar- og afgreiðslustörf.
Útför Brynju fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 17. janúar 2025, kl. 13. Henni verður streymt á vef kirkjunnar, landakirkja.is.
Elsku hjartans Brynja systir hefur nú kvatt þetta jarðlíf.
Brynja var 16 ára þegar ég fæddist og hún þreyttist seint á að segja mér hversu glöð hún varð þegar hún eignaðist litla systur. Ég kallaði hana Diddu mína og vafði henni um fingur mér. Á útborgunardegi fórum við systurnar saman í bæinn og hún keypti gjarnan eitthvað fallegt handa mér. Svo fórum við á hótelið og fengum okkur franskar. Pabbi þurfti stundum að minna hana á að hún ætti mig ekki, eins og til dæmis þegar hún lét klippa á mig drengjakoll eða setja göt í eyrun á mér.
Ég var tæplega fimm ára þegar Margrét, dóttir þeirra Steina, fæddist. Þar sem ég óttaðist að missa athygli Diddu minnar ákvað ég að flytja til þeirra á Skólaveginn og bjó þar í góðu yfirlæti, meira og minna í nokkrar vikur.
Við Brynja áttum yndislegt systrasamband og ég var alltaf velkomin á heimili hennar. Það sama má segja um börnin okkar Jóns Atla. Brynja passaði eldri börnin oft og vinkonur mínar öfunduðu mig sumar af því að hafa pössun á Þjóðhátíð. Þegar Selma, elsta dóttir mín, fæddist flutti Brynja til okkar í Reykjavík í nokkrar vikur á meðan við foreldrarnir sinntum náminu. Hún stóð því snemma undir nafninu amma Brynja og bar þann titil hjá mörgum börnum.
Brynja fékk úthlutuð mörg og krefjandi verkefni í lífinu. Sjálf barðist hún um áratugabil við alvarleg veikindi og áföll af ýmsum toga en alltaf hafði hún meiri áhyggjur af heilsufari annarra og var umhugað um vellíðan sinna nánustu. Hún hefur nú loksins fengið langþráða hvíld.
Góða nótt elsku Brynja og Guð geymi þig.
Þín litla systir að eilífu,
Sigurhanna (Hanna).
Í dag kveðjum við elsku Brynju frænku.
Það var alltaf notalegt að koma í heimsókn eða pössun á Skólaveginn, enda var dekrað við okkur systkinin í bak og fyrir. Þar fékk ég til dæmis að dvelja í nokkra daga í góðu yfirlæti 10 ára gömul meðan ég beið eftir að eignast lítið systkini. Einhvern tímann kom hún heim í Hrauntún að passa okkur í nokkra daga og við komum heim úr skólanum í nýbakaða köku nánast á hverjum degi. Brynja var alltaf svo hlý og góð og vildi allt fyrir okkur gera.
Þegar mér, um það bil tvítugri, datt skyndilega í hug að lita hárið á mér dökkt með pakkalit sendi mamma mig til Brynju til að fá aðstoð svo það myndi ekki enda með ósköpum. Úr varð góð samverustund hjá okkur frænkum sem mér þykir afar vænt um. Það var gott að tala við Brynju, og mér fannst ég geta rætt hvað sem er við þær mæðgur Margréti og Brynju.
Brynja glímdi við mikil veikindi síðustu ár, en það var alltaf stutt í húmorinn þegar við ræddum saman. Samtölin hefðu mátt vera fleiri, en það er mér dýrmætt að hafa náð nokkrum myndsímtölum við hana með litla drengnum mínum síðastliðinn mánuð, þótt þau hafi ekki náð að hittast.
Elsku Brynja, takk fyrir allt.
Þín
Selma.
Nú er hún Brynja farin í sumarlandið. Þar hittir hún fyrir manninn sinn Steina og dóttur sína Margréti. Ekki gat nú Margrét verið lengi án mömmu sinnar, aðeins mánuður liðinn frá því að við kvöddum hana hinstu kveðju.
Það var stuttu eftir gos að Brynja kynnist Steina bróður Eika og síðan hafa þræðir okkar legið saman. Við áttum dætur okkar sama árið, hún átta mánuðum á undan mér, og leitaði ég oft til Brynju með uppeldisráð þar sem hún var orðin sérfræðingur í mínum huga þegar ég kom með mína. Man ég eftir þegar hún kenndi mér að gera blessaðan maísenagrautinn sem börnin fengu með mjólkinni í þá daga. Eitthvað vafðist hann fyrir mér nýbakaðri móðurinni.
Það var alltaf gott að leita til Brynju ef aðstoð þurfti. Við vorum svo samferða með stelpurnar í gegnum æskuna og hristum oft hausinn yfir uppátækjum þeirra sem voru ófá í gegnum árin. Auðvitað var svo hist í fjölskyldu- og jólaboðum og öðrum stórviðburðum eins og gerist hjá fjölskyldum. Þorsteinn Ívar fæddist svo tíu árum á eftir systur sinni og var hann kærkomin viðbót við fjölskylduna.
En lífið er ekki alltaf dans á rósum og fjölskyldan á Skólaveginum varð fyrir miklu áfalli þegar Steini lést úr krabbameini eftir örstutt veikindi. Brynja og börnin stóðu þétt saman og lífið hélt áfram. Fljótlega fór þó að bera á veikindum hjá Brynju og síðustu árin voru henni erfið. Þurfti hún oft að dveljast á spítölum lengri eða skemmri tíma í senn. En þótt Brynja væri líkamlega veik var þó alltaf stutt i hláturinn og kímnina og hún lét heldur engan vaða ofan í sig. Fyrir skömmu heimsóttum við Brynju á spítalann og voru þau Eiki að rifja upp tímann eftir gos þegar Brynja var að vinna á spítalanum sem sjúkraliði og Eiki var þar að vinna í pípulögnum. Það var ekki hægt annað en að brosa í kampinn yfir þeim sögum og jemundur minn, þær sögur fara ekki á prent.
Það erfiðasta sem foreldri gerir í lífinu er líklega að þurfa að jarða barnið sitt, en það þurfti Brynja að gera. Fyrir aðeins mánuði varð dóttir hennar Margrét Þorsteinsdóttir bráðkvödd öllum að óvörum. Og fjársjúk fylgdi Brynja dóttir sinni síðasta spölinn. Það voru erfið spor en Brynja harkaði af sér og ætlaði sér að ná bata og sagði mér að hún vonaðist nú til að komast fljótlega heim til sín og leggja þessi veikindi að baki. En því miður tókst það ekki. Hún fékk lungnabólgu milli jóla og nýárs sem hún náði sér ekki af. Hún lést á Landspítalanum 8. janúar.
Það er óskiljanlegt að nú skuli Þorsteinn Ívar vera einn eftir í fjölskyldunni. Hann er samt alls ekki einn því að Marta stendur þétt við hlið hans og tvö yndisleg börn og Eyjólfur, litli strákur Margrétar. Allt eru þetta litlir afleggjarar sem í framtíðinni eiga eftir að margfalda sig og halda á lofti minningu um yndislega mömmu og ömmu.
Elsku Þorsteinn Ívar, Marta, Pétur og systkini Brynju, þið eigið alla okkar samúð. Megi góður Guð gefa ykkur styrk í sorginni.
Eiríkur og Karen.
Elskuleg vinkona er fallin frá eftir erfið veikindi. Hún kvaddi þennan heim í faðmi fjölskyldu og vina og er ég þakklát fyrir að hafa verið þar á meðal. Vinskapur okkar Brynju hefur staðið yfir í um 60 ár, eða síðan við fjölskyldan fluttum á Skólaveg 26 og fjölskylda Brynju bjó að Brekastíg 3, á móti okkur.
Brynja var vinamörg, skemmtileg, heiðarleg og mjög ákveðin. Ávallt var stutt í hláturinn hjá henni. Hún var líka ótrúlega sterk kona sem stóð þétt við bakið á sínu fólki og tók á móti þeim verkefnum sem urðu á vegi hennar af einstöku æðruleysi, það var alltaf ljós fram undan.
Margar skemmtilegar minningar koma upp í hugann frá því að við vinkonurnar vorum ungar að árum. Ég man þegar við áttum þá ósk heitasta að vera „frystihúsakona“ og fórum í hvítar skyrtur og gúmmístígvél sem við brettum niður, þegar við 11 ára gamlar keyptum okkur Camel-sígarettur og ætluðum að byrja að reykja, þjóðhátíðarferðirnar 1973 og 1974, þegar Brynja kom yfir til okkar á miðvikudögum í saltað hrossakjöt sem henni þótti svo gott og svo ótal fleiri minningar.
Við vinkonurnar héldum góðu sambandi eftir að við giftum okkur og eignuðumst fjölskyldu. Við Óskar komum fyrst til Brynju og Steina 1976, þá bjuggu þau fyrir ofan mjólkurbúðina á Vestmannabrautinni, og Brynja þá ólétt að Margréti. Við sóttum þau alloft heim og síðar þegar við komum til þeirra á Skólaveginn var Þorsteinn Ívar kominn til skjalanna, „besti vinur Óskars“. Það var ávallt glatt á hjalla og matarveislurnar eftirminnilegar, sérstaklega bjórlöguðu sósurnar hans Steina.
Það var síðan dýrmæt stund sem við áttum nú í desember síðastliðnum, daginn fyrir jarðarför Margrétar. Við Óskar sóttum Brynju á spítalann og fórum með hana yfir í íbúðina hennar í Sólhlíðinni, en þangað hafði hún ekki komið í nokkra mánuði. Þar var mikið spjallað yfir kaffi, kruðeríi og pizzu fram eftir kvöldi.
Við viljum votta yndislegri fjölskyldu Brynju, systkinum og mökum, sem hafa verið henni mikill stuðningur og styrkur, okkar dýpstu samúð.
Elsku Þorsteinn Ívar, Marta, Elísabet Jóna, Brynjar Karl, Pétur og Eyjólfur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð og megi guð styrkja ykkur í sorginni.
Berglind og Óskar.