Jón Albert Sigurbjörnsson fæddist 17. janúar 1955 í Reykjavík. Hann ólst upp í Hlíðunum og stundaði íþróttir þar á æskuárunum og er því mikill Valsari.
Amma Jóns, Kristín Gunnlaugsdóttir, var honum afar kær og tók hún virkan þátt í uppeldi hans. Hann fór ungur með ömmu sinni til systkina hennar í sveit að Kolugili í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar kynntist hann hestum og hefur verið viðloðandi hestamennsku síðan. „Það var rosalega góður tími og þarna lærði maður allt sem hægt er að kenna í lífinu, heiðarleika, dugnað og vinnusemi.“
Jón er lærður húsasmiður frá Iðnskólanum í Reykjavík. „Ég vann síðan hjá sjálfum mér og öðrum eins og gengur, og síðustu árin var ég verkstjóri hjá byggingafyrirtækinu JÁVERK.“
Jón hefur unnið við félagsstörf nær alla sína tíð. Hann starfaði fyrir hestamannafélagið Fák 1985-1990. Þá var hann framkvæmdastjóri reiðhallarinnar í Víðidal á árunum 1990-1992. Hann var formaður Hestaíþróttasambands Íslands 1993-1998 en það ár sameinuðust Hestaíþróttasamband Íslands og Landssamband hestamannafélaga. Jón gegndi starfi formanns Landssambands hestamannafélaga frá 1998 til ársins 2006.
Jón var varaforseti FEIF (International Federation of Icelandic Horse Associations) 2005-2008 og var gerður að heiðursfélaga árið 2004. „Hestamennskan er stór partur af mér, ég fór að vinna við hana fljótlega og svo vatt þetta upp á sig. Það fór rosalega mikill tími í þetta og ég var launaður starfsmaður að hluta til þegar upp komu vandamál í rekstrinum, en almennt var ég bara formaður meðfram minni vinnu í smíðunum.
Erlendu samskiptin koma efst upp í hugann þegar maður lítur til baka og allt þetta fólk sem maður kynntist á þessum 30 árum sem ég starfaði í hestmennskunni,“ segir Jón aðspurður. „Ég held að menn átti sig ekki á því hvað Íslandshestamennskan er stór úti í heimi.“
Jón hlaut gullmerki ÍSÍ árið 2005, gullmerki Landssambands hestamannafélaga árið 2006, gullmerki hestamannafélagsins Fáks árið 2012 og var gerður að heiðursfélaga Landssambands hestamannafélaga 2017.
Jón fylgist vel með pólitíkinni, flestöllum íþróttum og málefnum líðandi stundar.
Afmælisbarnið og eiginkona hans verða að heiman á afmælisdaginn.
Fjölskylda
Eiginkona Jóns er Lára Guðmundsdóttir, f. 2.10. 1955, húsmóðir. Þau eru búsett í Kópavogi. Foreldrar Láru voru hjónin Guðmundur Vernharður Lárusson, f. 12.7. 1926, d. 5.8. 1985, rafsuðumaður, og Guðbjörg Rósa Guðjónsdóttir, f. 28.12. 1928, d. 3.5. 1999, ræstitæknir. Þau voru búsett í Reykjavík.
Börn Jóns og Láru eru: 1) Daníel, f. 30.7. 1976, sambýliskona hans er Bertha María Waagfjörð, búsett í Koltursey í Austur-Landeyjum og vinna þar við hestamennsku. Börn Daníels eru Jónína, f. 28.3. 2006, Kristín Birta, f. 20.3. 2010, Dagmar, f. 11.2. 2016, og sonur Daníels og Berthu Maríu er Dagur Nói, f. 6.4. 2022; tvíburasysturnar 2) Hulda, f. 8.3. 1979, gift Axel Davíðssyni byggingafræðingi, búsett á Selfossi. Börn þeirra eru Ísak Gústafsson, f. 14.2. 2003, Selma, f. 17.12. 2007, og Bryndís, f. 30.10. 2012; 3) Lilja, f. 8.3. 1979, forstöðumaður verslunarsviðs hjá Nespresso, gift Ívari Einarssyni málarameistara, búsett í Mosfellsbæ. Dætur þeirra eru Lára, f. 3.7. 2003, Nanna Björt, f. 14.1. 2005, og Katla, f. 23.9. 2011. Barnabörnin eru samtals tíu og von er á langafabarni í sumar.
Systkini Jóns sammæðra eru fjögur: Ómar Jóhannesson, f. 11.12. 1958, búsettur í Kópavogi, tvíburasysturnar Guðrún og Kristín Jóhannesdætur, f. 31.8. 1961; Guðrún er búsett á Akureyri en Kristín í Reykjavík. Yngstur er Gunnlaugur Jóhannesson, f. 30.1. 1965, búsettur í Reykjavík. Systkini Jóns samfeðra eru þrjú: Kristín Sigurbjörnsdóttir, f. 7.6. 1960, búsett í Garðabæ; Bjarni Sigurbjörnsson, f. 2.12. 1962, búsettur á Eiði í Eyrarsveit, og yngst er Sigríður Dagný Sigurbjörnsdóttir, f. 5.4. 1982, búsett í Hafnarfirði.
Foreldrar Jóns eru Hulda S. Þórðardóttir, f. 29.6. 1935, d. 18.9. 2011, húsmóðir í Reykjavík, og Sigurbjörn Hreiðar Sigurbjarnarson, f. 25.4. 1935, fv. leigubílstjóri, búsettur í Kópavogi. Stjúpfaðir Jóns var Jóhannes Gunnarsson, f. 15.12. 1929, d. 21.11. 2015, vélstjóri.