Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins, hefur sagt af sér sem 1. varaforseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og vikið úr miðstjórn þess. Þar sat hann í umboði félagsmanna VR, þar sem hann var formaður.
Nokkur styr stóð um það þegar Ragnar boðaði framboð sitt fyrir Flokk fólksins sl. haust hvort hann héldi áfram störfum í launþegahreyfingunni. Úr varð að hann fór í tímabundið leyfi frá VR í lok október, en lét af embætti 3. desember.
Ragnar féll af launaskrá ASÍ þegar hann fór í framboð, en að kosningum loknum tók hann aftur til starfa sem 1. varaforseti og fékk laun sem slíkur, en þau nema 230.940 kr. á mánuði, að sögn Eyrúnar Bjarkar Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra ASÍ. Hann féll aftur af launaskrá við afsögn nú á mánudag.
Samkvæmt ráðningasamningi sem var gerður við Ragnar Þór Ingólfsson þegar hann var kjörinn formaður VR árið 2017 á hann rétt til biðlauna í sex mánuði eftir að hann lætur af störfum. Sá réttur fellur ekki niður nema hann ákveði sjálfur að afþakka biðlaun. Samkvæmt ársskýrslu VR fyrir árið 2023 námu árslaun hans þá 25,7 milljónum kr. eða ríflega 2,1 milljón á mánuði. Miðað við launaþróun eru þau að líkindum nær 2,3 milljónum nú.