Friðjón R. Friðjónsson
Það er kannski til að æra óstöðugan að gera athugasemd við umsýslu kosninga hér á landi en allt bendir til þess að í sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári verði þúsundir einstaklinga ranglega á kjörskrá.
Snemma á síðasta ári leiðrétti Hagstofan tölur um hve margir búa á Íslandi, samkvæmt frétt Hagstofunnar voru reikniaðferðir um mannfjölda endurbættar og fækkaði við það íbúum hér á landi um 15.245. En þessi leiðrétting náði ekki til Þjóðskrár sem hélt áfram að telja vitlaust og telur enn að þessir rúmu 15 þúsund manns, flestir erlendir ríkisborgarar, búi hér á landi og líklega fleiri til, því villan ágerist með hverjum mánuði sem líður.
Það er bagalegt að stjórnvöld gefi tvær ólíkar tölur um hve margir búa á landinu en það sem er verra er að Þjóðskrá, stofnunin sem telur vitlaust, heldur utan um hvernig erlendir ríkisborgarar ávinna sér réttindi.
Ofmetið fólk
Af þessum ríflega 15 þúsund manns voru 4.125 Íslendingar í „ofmatinu“, eins og Hagstofan kallar það, fólk sem hefur flutt af landi brott en ekki skráð sig brottflutt, 11.143 voru erlendir ríkisborgarar. Pólverjar voru stærsti hópurinn, þá Rúmenar, svo Litáar og Lettar. Það er áhugavert í skýringum Hagstofunnar að fjórðungur allra rúmenskra ríkisborgara sem eru skráðir með lögheimili hér á landi býr ekki hér að mati Hagstofunnar. 36% allra Frakka sem eru skráðir hér búa hér ekki, að sama skapi eru 30% allra Þjóðverja og 27% Breta sem eru skráðir hér flogin á bak og burt.
Það var líka umhugsunarvert að 819 börn voru í hópi þeirra sem eru ekki búsettir hér en eru samt skráðir. Það að tæplega þúsund börn hafi verið skráð til heimilis á Íslandi en ekki mætt í skóla vekur furðu.
14 þúsund manns ranglega á kjörskrá?
En það voru 14.426 einstaklingar 18 ára og eldri sem búa ekki á Íslandi að mati Hagstofunnar ranglega skráðir sem íbúar á Íslandi. Þessir einstaklingar eru inni í tölum Þjóðskrár og verða því að öllu óbreyttu flestir á kjörskrá á næsta ári.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru ofmetnir íbúar Reykjavíkur 18 ára og eldri 6.385. Það er að segja í fjölda, Hagstofan reynir blessunarlega ekki að telja ofmetið fólk, það er víðar en í Reykjavík. En fjöldi þeirra sem búa ekki í Reykjavík en voru mögulega á kjörskrá árið 2022 er meiri en kusu Viðreisn, Flokk fólksins, Vinstri-græn og Sósíalista hvert um sig í síðustu borgarstjórnarkosningum. Lítið eitt færri en kusu Pírata, sem fengu þrjá borgarfulltrúa. Listi ofmetinna hefði fengið tvo til þrjá borgarfulltrúa.
Framlög úr Jöfnunarsjóði á röngum forsendum?
Hluti framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er á grundvelli íbúafjölda. Einir þrettán milljarðar króna á þessu ári. Ofmat Þjóðskrár veldur misræmi milli þess sem sveitarfélag á að bera úr býtum og þess sem það fær. Þannig er íbúafjöldi Akraness ofmetinn um 1,8% en Fjarðabyggðar um 4,1%. Íbúafjöldi Reykjanesbæjar, sem fær ekki bein framlög vegna íbúafjölda, er ofmetinn um tæp 6% að mati Hagstofunnar. Hluti skýringar á því að kosningaþátttaka í Reykjanesbæ í síðustu sveitarstjórnarkosningum fór undir 50% hlýtur að liggja í því að tæplega 1.400 manns sem ekki búa í bænum búa þar að mati Þjóðskrár.
Leiðréttingar er þörf
Við getum ekki unað við það að þúsundir einstaklinga sem eiga ekki að hafa rétt á að kjósa í sveitarfélagi hafi samt þann rétt. Þótt ekkert þeirra nýti kosningaréttinn skekkir það tölfræði um kosningarnar og það er ósanngjarnt gagnvart kjósendum sem sannarlega hafa kosningarétt að fólk sem fyrir löngu er flutt úr sveitarfélagi þeirra og af landi brott geti mögulega hlutast til um málefni sveitarfélagsins. Það getur ekki talist lýðræðislegt. Samkvæmt lögum er það hlutverk Þjóðskrár að annast gerð rafrænnar kjörskrár og bera ábyrgð á öryggi hennar. Það hlýtur að vera forgangsmál að tryggja að rétt kjörskrá verði gefin út að rúmu ári og öryggi og réttmæti sveitarstjórnarkosninganna verði tryggt.
Höfundur er borgarfulltrúi.