María Kristjánsdóttir fæddist 19. mars 1944 á Landspítalanum í Reykjavík. Hún lést á Borgarspítalanum 27. desember 2024.

Hún var dóttir hjónanna Kristjáns Andréssonar, f. 1914, d. 1980, og Salbjargar Magnúsdóttur, f. 1919, d. 1987, fulltrúa, sem bjuggu á Vörðustíg 7 í Hafnarfirði. María var næstelst sex systkina, Loga, Jóhanns sem lést 1979, Bergljótar, Andrésar og Katrínar.

María útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1964 og lauk námi í leikstjórn og leikhúsfræðum 1970 frá Theaterhochschule „Hans Otto“ í Leipzig og praktísku námi við Deutsches Theater, Berlin og Gerhard-Hauptmann Theater í Görlitz. 2009-2011 var hún við meistaranám í almennum bókmenntum við Háskóla Íslands.

Hún starfaði sem sjálfstæður leikstjóri frá 1970 hjá Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur, Leikfélagi Akureyrar, Ríkisútvarpi – hljóðvarpi og sjónvarpi – og ýmsum leikfélögum og áhugaleikfélögum. Verkefnin skipta tugum.

Hún leikstýrði einnig tveimur stuttmyndum, „Ferðalagi Fríðu“ 1988 og „Þá yrði líklega farin af mér feimnin“ 2000.

Hún starfaði sem leiklistarráðunautur hjá leiklistardeild Ríkisútvarpsins – hljóðvarps frá 1988-1990 og var ráðin leiklistarstjóri Ríkisútvarpsins – hljóðvarps frá 1991-2000. Sem leiklistarstjóri kom hún að öflugu kynningarstarfi á íslenskum leikritahöfundum ásamt því að skrifa fjölda fræðilegra og alþýðlegra innganga og þátta um leikritun og leiklist. Eftir aldamót vann María áfram ýmis verk fyrir útvarpið, bæði tengd leiklist og bókmenntum.

María vann einnig við þýðingar, leikhús- og bókmenntagagnrýni og ýmis ritstörf. Hún sinnti líka ýmsum félagsstörfum og var m.a. stofnfélagi í Sósíalistaflokknum 2017 og Hinu íslenska glæpafélagi 1999. Hún tók þátt í starfi Félags eldri borgara, sinnti starfi formanns leikstjórafélagsins og framkvæmdastjóra Æskulýðsfylkingarinnar.

María var gift Jóni Aðalsteinssyni lækni sem lést 2017. Bjuggu þau hluta ævinnar á Húsavík vegna vinnu hans þar, en annars í Reykjavík og Garðabæ, með stuttri viðveru á Fáskrúðsfirði, Akureyri og í Svíþjóð. Jón var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Kolbrún Inga Sæmundsdóttir. Börn þeirra: Aðalbjörg sem lést 2023; Guðrún, maki hennar Guðmundur Reykjalín; Aðalsteinn, maki hans Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir sem lést 2024, og Kolbrún. Jón og María eignuðust eina dóttur saman, Salbjörgu Ritu, maki hennar er Pétur Máni Björgvinsson. Barnabörn og barnabarnabörn eru komin á þriðja tug.

María verður kvödd í Neskirkju í dag, 17. janúar 2025, klukkan 13.

Á svarthvítri mynd sem tekin var fyrir að verða hálfri öld má sjá Maríu móðursystur mína halla sér upp að kerti, sem er fyrir miðri mynd, og kveikja sér í sígarettu. Dalla dóttir hennar, sennilega á þriðja eða fjórða aldursári, hinum megin við kertið, horfir opinmynnt á. Myndina tók Jón Aðalsteinsson, maðurinn hennar Maju, pabbi hennar Döllu og fóstri minn. Í einfaldleika sínum nær myndin að fanga allt það sem Maja var í mínum huga: Skarpgreindur uppreisnarseggur, smekkvís anarkisti, brosmild baráttukona, fyndnari en andskotinn og einstaklega hlýr töffari.

Og þannig var Maja sennilega alla tíð. „Flensborgarskólinn hefur ekki verið góður skóli því þaðan man ég fátt nema hvað auðvelt var að hleypa upp sumum kennurunum og þó man ég Jónas Árnason,“ sagði Maja þegar hún rifjaði upp skólagöngu sína í viðtali við Morgunblaðið árið 1996.

Ég var ekki nema rétt átta ára að verða níu þegar ég fór til Húsavíkur og dvaldist hluta úr vetri hjá fjölskyldunni í Árholti 8 á meðan móðir mín fór til náms til Austur-Þýskalands. Í lok árs 1984 dró Maja mig og Döllu, sem er tveimur árum eldri en ég, niður á höfn til að taka þátt í verkfallsvörslu í allsherjarverkfalli BSRB. Það var þá sem ég áttaði mig fyrst á því hversu mikill töffari móðursystir mín var. Í minningunni stóð hún í nístingskulda á bryggjunni, lá ekki á skoðunum sínum og sagði mönnum til syndanna ef því var að skipta. Ljómaði af ánægju yfir því að fá tækifæri til að fræða okkur frændsystkinin um það sem máli skiptir.

Og Maja hitti oftar en aðrir naglann á höfuðið. „Ég hef aldrei trúað því að fólk vilji einhverja lágkúru. Flestir vilja lifa fallegu lífi, hlæja, fræðast, láta koma sér á óvart og víkka sjóndeildarhringinn,“ er haft eftir henni í áðurnefndu viðtali. Þannig var sýn Maju frænku á lífið. Og þannig ætla ég að halda í minninguna um hana – hlýja, fyndna og klára töffarann sem hún svo sannarlega var.

Kristján Hjálmarsson.

Maja kvödd.

Leiklistin, Hafnarfjörður, pólitíkin, réttlætið, góðra vina fundur og grallarinn. Allt sameinast þetta í Maju sem við nú kveðjum með trega.

Fyrir allmörgum árum fór María ásamt Jóni eiginmanni sínum til Grænlands þar sem hann var við afleysingar sem læknir. María heillaðist af landi og þjóð og ekki síst tímaleysinu. Nei, það liggur ekkert á, gat hún sagt þó svo að vélin væri að fara.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera Maju samferða í áraraðir. Ekki aðeins úr og í vinnu heldur einnig í ýmsar ævintýralegar ferðir. Merkust er nú líklega ferðin kringum landið, þar sem þau Jón buðu okkur Þorvaldi í mikla menningarreisu. Um þetta leyti var verið að böðlast við Kárahnjúka og virkjunin að vaxa fram. Það voru ekki húrrahróp sem heyrðust í jeppanum góða þann daginn. Næstu dagar voru sönnun þess að Austfirðir eru með sérsamning við veðurguðina. Við gistum hjá Siggu frænku Jóns á Fáskrúðsfirði þar sem götunöfnin eru bæði íslensk og frönsk. Ferðinni var síðan heitið að landnámsjörðinni Kristnesi, sem er ættaróðal Jóns. Þegar við renndum í hlað sé ég lamadýr stökkva upp að glæsilegri stúlku í síðum kjól. Þetta var járnsmíðadrottningin Beate og lamadýrið var risavaxin geit sem greinilega kunni að dansa. Helgi Þórsson fjöllistamaður, bróðursonur Jóns, er eiginmaður Beate. Seinna fórum við Maja svo oft saman norður þá er báðar fengust við leiklistargagnrýni.

Leiklistardeild Ríkisútvarpsins blómstraði undir styrkri stjórn Maríu og þetta var líka tímabil í lífi hennar þar sem hún sjálf blómstraði. Að ráða fólk og skipuleggja fórst henni vel úr hendi og eins sló hún í gegn er hún stjórnaði norrænni ráðstefnu útvarpsleikhúsa sem haldin var í Norræna húsinu með aðalveislu úti í Viðey.

Maja var vinsæl meðal norrænu kolleganna. Við fórum saman á slíka ráðstefnu til Stokkhólms. Við vorum með miða á sýningu í konunglega leikhúsinu Dramaten. Sýningin byrjaði klukkan tvö síðdegis. Með öndina í hálsinum beið ég við styttuna af Margretu Krook. Á mínútunni tvö steyptist hún út úr leigubíl við tröppurnar og spurði hvort ég væri nokkuð farin að bíða.

Við upp margar tröppur, men icke sa nicke, það var búið að loka og ekkert að gera annað en að bíða eftir hálfleik. Inni á baði var hár marmarabekkur með vöskum, við settumst þar upp og hundaheppni var það að við skyldum ekki skella okkur í fótabað, það var nú aðallega vegna þess að María var í sokkabuxum.

Fjölskyldan er stór og hæst ber þó gullmolann hennar, dótturina Döllu, sem hún naut samvista við fram undir lokin. Það er tómlegt að líta inn í stofuna í Mosgerðinu. Þar sat María og horfði og hlustaði á Gunnar Smára.

Elsku Pétur, Glói, Unnar og Dalla, ykkar er missirinn mestur en augnablikin og minningar óendanlegar til að ylja sér við. Við Þorvaldur sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Elísabet Brekkan.

Mér finnst ég sitja í hárri víðri rólu, það er mikil birta, samt mildur úði í lofti, gott ef ekki dalalæða að nálgast, heyri í jaðröku og spóa en einhvers staðar samt æsandi suðuramerískur taktur – og það er endalaust pláss. Og ég þen róluna í löngum bunum gegn um loftið, kalla eitthvað skemmtilega skáldlegt og dónalegt til ykkar hinna og öll erum við berfætt.

Og ég veit ósköp vel að ég er á sviði, og finn að það er Mæja sem er að leikstýra þessu og höfundur gæti bara vel verið hún amma mín eða Steinar Sigurjónsson eða einhver annar af okkar fjölmörgu hæfileikaríku kverúlöntum.

Ég veit vel að þið sáuð aldrei þessa sýningu, því hún náði aldrei á fjalirnar, frekar en svo margt annað sem ég hefði viljað sjá eftir hana Mæju, og Krissa hefði þá mátt sitja í rólunni eða Jói eða Lilja Nótt, nú eða Brandauer, sem okkur dreymdi alltaf um að vinna með. Þetta voru allt margupphugsaðar sýningar og hellingur af bíómyndum að auki.

En nú er engin Mæja lengur í bakhöndinni, Mæja sem alltaf var sín eigin manneskja, með sinn eigin takt og ekki endilega menntuð til að flissa.

En það sem ég er þakklát fyrir það sem þó varð úr okkur, leiksýningar og útvarpsþætti, útvarpsleikrit, uppákomur alls konar, stuttmyndir, útilegur og ferðalög, fermingar og skírnir, rifrildi og hlátur, dónaskap og blíðuhót, hrós og hrakfarir, bölsýni og brallaragang, öll skemmtilegheitin, og ekki síst alla yndislegu óþekktina.

Ég læt hér fylgja með heilræði sem ég sé að Mæja hefur sent mér einhvern tíma, greinilega hugsað á sænsku og ég veit ekkert af hverjum:

„Það má vel vera að það sé alveg djúpt og mannlegt að vera trúaður. En maðurinn er án efa eina dýrið sem getur efast. Að þola efann er hin raunverulega áskorun, það er það sem gerir okkur að ábyrgum manneskjum.“

Ég þakka þér samfylgdina elsku vinkona og votta fólkinu þínu innilegustu samúð.

Guðrún Snæfríður Gísladóttir.

Ég kynntist Mæju þegar hún kom heim frá námi um 1968. Ég var rétt um tvítugt, óttalegur auli í pólitík, en hún glæsileg, menntuð og eldróttæk. Hún lét mig aldrei finna fyrir þessum mun heldur var mér ævinlega hvatning og stuðningur í öllu því brölti sem ég tók upp á. Baráttan gegn veru Bandaríkjahers hér á landi og framferði sama hers í Víetnam og víðar var efst á baugi á þessum tíma.

Mæja hafði djúpan skilning á þessum málum, hún var alin upp í þannig jarðvegi. Hún tengdist líka róttæku fólki á námsárunum. Ein þeirra var suðuramerísk byltingarkona sem var Mæju einkar kær, en dóttirin Salbjörg (Dalla) heitir líka Rita í höfuðið á þessum kæra félaga.

Ég notaði tækifærið vorið 1970 sem miðasölustjóri fyrstu Listahátíðar í Reykjavík til að raða í kringum mig öllum þeim félögum sem voru mér kærastir og voru á lausu. Ég komst upp með þetta því hér var einungis um skammtímaráðningu að ræða. Þar var Mæja náttúrlega fremst í flokki.

Eftir að hún fór að leikstýra eltist ég við hana til að sjá sýningarnar og jafnvel æfingar, hvort sem var í Reykjavík eða Akureyri. Og svo var það Húsavík.

Þar vorum við samtíða um þriggja vetra skeið og þá kynntist ég betur manni hennar, listamanninum Jón Aðalsteinssyni yfirlækni og samstarfsmanni mínum. Ég var ekki alltaf viss um að honum litist vel á mig en var fullur aðdáunar, og þá er ég ekki bara að tala um hversu traustur skurðlæknir hann var heldur hvernig tónlist lék í höndum hans, á hvaða hljóðfæri sem var.

Ég verð að láta eftir mér að rifja upp þegar okkur Mæju lenti saman. Það breytti enda engu um okkar samband.

Ég hafði notið mín mjög á Húsavík, ekki bara í starfi heldur í öllum mögulegum áhugamálum, ekki síst í leiklistinni.

Ég hafði verið með í nokkrum sýningum í Leikfélagi Húsavíkur þegar vinkona mín leit við á Fossvöllunum, hvort ég væri ekki til í að taka að mér Arnald í Sölku Völku. Ég hélt það nú, fæddur í hlutverkið.

Það fór hins vegar svo að viku fyrir frumsýningu lenti okkur hastarlega saman. Ég hafði komið fimm mínútum of seint, Sveinn Seinn, raunar hlaupandi úr vinnunni með góða afsökun þessu sinni. Hún ávítaði mig en í stað þess að biðjast afsökunar hellti ég mér yfir hana með sögum af hennar óstundvísi fyrr og síðar. Þetta hefði nú ekki gerst nema af því að ég var kominn í vorgírinn, léttmanískur. Mæja rak mig úr sýningunni og reddaði staðgengli sem kláraði undirbúninginn á viku. Það fannst mér grunsamlegt. En þannig lauk mínum glæsta leiklistarferli. Þetta breytti þó engu um ást mína á Mæju. Hún var og verður ævinlega stjarna í lífi mínu.

Blessuð sé minning Maríu Kristjánsdóttur.

Sveinn Rúnar Hauksson.