Guðmundur Magnús Agnarsson fæddist á Sauðárkróki 20. maí 1942. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 31. desember 2024.
Foreldrar hans voru Agnar Ásbjörn Jónsson, f. 1907 á Akureyri, d. 1974, og Þuríður Vilborg Rósantsdóttir, f. 1904 í Strandasýslu, d. 1989. Guðmundur átti tvær systur, þær Ólafíu Elísabetu, f. 1932, d. 2016, og Róslaugu Jónínu, f. 1940, d. 2015.
Fjölskyldan flutti til Ísafjarðar 1946 þegar Agnar faðir hans tók við bústjórastarfi á Seljalandsbúinu á Ísafirði.
Guðmundur giftist Kristrúnu Sigfríði Guðfinnsdóttur frá Bolungarvík 7. apríl 1964. Kristrún og Guðmundur leigðu fyrstu árin í Bolungarvík. Árið 1967 flutti þau inn í nýtt hús að Höfðastíg 20 í Bolungarvík. Þar bjuggu þau til 1982 er þau fluttu til Ísafjarðar og síðan til Grindavíkur þar sem þau bjuggu frá lokum árs 1999.
Eftir andlát Kristrúnar bjó Guðmundur áfram í Grindavík. Hann kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni Jónínu S. Einarsdóttur, Ninnu, árið 2008. Hún á þrjú börn og átta barnabörn. Guðmundur og Ninna gengu í hjónaband árið 2012. Þau fluttust til Kópavogs og bjuggu þar saman þar til Guðmundur flutti á hjúkrunarheimilið í Skógarbæ í desember 2023.
Börn Guðmundar og Kristrúnar eru: 1) Sigríður Jóna, f. 1962, eiginmaður Jóhann Kristjánsson. Börn Sigríðar og fyrrverandi sambýlismanns, Hallgríms Óla, eru: a) Ingólfur Ívar, giftur Írisi Ingvarsdóttur og eiga þau tvær dætur. b) Sigurbjörg, gift Halldóri Guðjónssyni og eiga þau þrjá syni. 2) Þuríður, f. 1963, hennar börn og Alberts, fyrrverandi sambýlismanns, eru: a) Vigdís Haralds, hún á eina dóttur. b) Haraldur Olgeir. c) Magnús Áki. 3) Sigurbjörg, f. 1966, eiginmaður Hafþór Halldórsson. Þeirra börn eru: a) Hermann Freyr, hann á eina dóttur. b) Rúnar Freyr, sambýliskona Anna María Björnsdóttir, þau eiga þrjú börn. c) Sigurlaug Margrét, gift Daníel Ara Jóhannssyni og eiga þau þrjú börn. d) Þórður Gunnar, sambýliskona Ásthildur Jakobsdóttir. Sigurbjörg á soninn Guðmund Magnús með Pétri Hlíðari. Guðmundur er giftur Valgerði Dröfn Ólafsdóttur og eiga þau tvo syni. 4) Agnar Ásbjörn, f. 1974, synir hans eru: a) Guðmundur Lárus. b) Magnús Húni. Núverandi sambýliskona Agnars er Karen Sóley Jóhannsdóttir. 5) Friðrik Böðvar, f. 1977, sambýliskona Karen Ragnarsdóttir. Börn þeirra eru: a) Ragnar Kristinn. b) Guðmundur Leó. c) Kristrún Ebba.
Í barnæsku var Guðmundur liðtækur skíðamaður og var alla tíð áhugasamur um skíðagöngu. Hann fór í Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan árið 1962, sama ár og elsta dóttir þeirra hjóna fæddist. Eftir útskrift frá MA flutti Guðmundur til Bolungarvíkur og hóf störf hjá Einari Guðfinnssyni. Í gegnum árin vann hann á fleiri stöðum og var lengi vel framkvæmdastjóri Rækjustöðvarinnar og síðar Rits á Ísafirði. Síðustu árin í vinnu vann Guðmundur hjá Þorbirni í Grindavík.
Útför Guðmundar fer fram í Lindakirkju í dag, 17. janúar 2025, kl. 13. Hann verður síðan lagður til hinstu hvílu á Ísafirði í sumar.
Elsku afi okkar.
Nú ert þú farinn frá okkur og eigum við eftir að sakna þín mikið. Þú varst kærleiksríkur, hlýr, stríðinn og mikill húmoristi. Það verður erfitt að geta ekki kíkt til þín í kaffi og hvað þá mætt þér á göngu hér í hverfinu. Þú varst okkur mikil fyrirmynd. Við systkinin settumst niður saman og það koma svo margar góðar minningar úr æsku upp í hugann. Skíðaferðirnar og keppnirnar uppi á Seljalandsdal. Þú kenndir okkur margt, eins og t.d. að tefla og að hjóla. Útivistin var þér alltaf mikilvæg og fórstu oft með okkur í gönguferðir og búðarferðir til að kaupa ís og margt fleira. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur. Við erum svo þakklát fyrir allar góðu minningarnar með þér ásamt góðu stundunum og tímanum sem þú áttir með börnunum okkar. Þeim fannst alltaf gaman að kíkja til þín og fá Sæmund í sparifötunum.
Elsku besti afi minn,
nú kvaddur er í hinsta sinn.
Komin er sú stóra stund,
þín ljúfa sál, er leidd á drottins æðsta fund.
Við ávallt munum minnast þín,
minning sem að aldrei dvín.
Lífshlaup þitt er þakka vert.
Þú hefur okkar hjörtu snert.
Guð þig geymi afi minn
og leiði þig í himin inn.
(Guðrún Dagbjört
Guðmundsdóttir)
Takk fyrir allt, elsku afi. Blessuð sé minning þín.
Guðmundur Magnús,
Rúnar Freyr,
Hermann Freyr, Sigurlaug Margrét og Þórður Gunnar Hafþórsbörn.