Sólarströnd Þéttsetin strönd í València á Spáni í júlí í fyrra. Metfjöldi ferðamanna sótti Spán heim á síðasta ári að sögn þarlendra stjórnvalda.
Sólarströnd Þéttsetin strönd í València á Spáni í júlí í fyrra. Metfjöldi ferðamanna sótti Spán heim á síðasta ári að sögn þarlendra stjórnvalda. — AFP/Jose Jordan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alls komu um 94 milljónir erlendra ferðamanna til Spánar á síðasta ári Er þetta mesti fjöldi ferðamanna sem komið hefur til landsins frá því slík skráning hófst. Fyrra metið var sett árið 2019 áður en kórónuveirufaraldurinn reið yfir, landinu var að mestu lokað og ferðaþjónustan hrundi

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Alls komu um 94 milljónir erlendra ferðamanna til Spánar á síðasta ári Er þetta mesti fjöldi ferðamanna sem komið hefur til landsins frá því slík skráning hófst. Fyrra metið var sett árið 2019 áður en kórónuveirufaraldurinn reið yfir, landinu var að mestu lokað og ferðaþjónustan hrundi.

Jordi Hereu iðnaðar- og ferðamálaráðherra Spánar sagði á blaðamannafundi í Madrid í vikunni að erlendum ferðamönnum hefði fjölgað í fyrra um 10% frá árinu 2023 en þá komu 83,5 milljónir ferðamanna til landsins. „Spánn er enn að setja met,“ sagði hann.

Spánn er í öðru sæti á eftir Frakklandi á lista yfir þau lönd sem flestir ferðamenn heimsækja, samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin segir raunar í nýrri skýrslu að alþjóðleg ferðaþjónusta hafi á síðasta ári vaxið um 11% frá árinu á undan og sé orðin svipuð og árið 2019.

Eyddu 16% meira

Ferðaþjónusta leggur til um 13% af landsframleiðslu Spánar og er vöxtur hennar ein helsta ástæða þess að hagvöxtur í landinu er talinn hafa verið um 3,1% á síðasta ári, borið saman við 0,8% vöxt á evrusvæðinu í heild.

Þá er talið að erlendir ferðamenn hafi eytt þar um 126 milljörðum evra, jafnvirði rúmlega 18 þúsund milljarða króna, á síðasta ári sem er 16% aukning frá árinu á undan.

Í skýrslu sem spænsku ferðamálasamtökin birtu í desember kemur fram að flestir ferðamenn sem koma til Spánar séu frá Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Ferðamönnum frá Bandaríkjunum, Suður-Ameríku og Asíu hafi einnig fjölgað umtalsvert.

Í yfirlýsingu frá spænska ferðamálaráðuneytinu segir að ferðamönnum sem sækja Spán heim hafi einkum fjölgað á þeim tíma ársins sem ekki er skilgreindur sem aðalferðamannatíminn.

Flestir erlendir ferðamenn segjast fara til Spánar til að njóta sólar og strandlífs en ráðuneytið segir að æ fleiri nefni einnig menningu og mat sem ástæður þess að þeir sæki Spán heim. Þá hefur ferðamönnum sömuleiðis mikið fjölgað á Kanaríeyjum og eyjunum í Miðjarðarhafi.

Húsnæðiskreppa

En þessum kröftuga vexti ferðaþjónustunnar á Spáni hafa fylgt aukaverkanir. Mikill húsnæðisskortur er á Spáni og er það meðal annars rakið til þess að húsnæði er í vaxandi mæli nýtt í ferðaþjónustu. Hefur þetta valdið ólgu meðal heimamanna sem hafa meðal annars staðið fyrir skipulögðum mótmælum í Barcelona, Andalúsíu og á spænsku eyjunum gegn þessari þróun.

Borgaryfirvöld í Barcelona í Katalóníu og Málaga í Andalúsíu hafa brugðist við með því að boða aðgerðir sem eiga að sporna við því að húsnæði sé nýtt til skammtímaútleigu fyrir ferðamenn.

Þá boðaði Pedro Sánchez forsætisráðherra Spánar í vikunni að reglur um leigu á íbúðum til ferðamanna yrðu hertar, skattar á slíka starfsemi yrðu hækkaðir og einnig yrði lagður allt að 100% skattur á fasteignir fyrir kaupendur utan Evrópusambandsins.

„Það er ekki réttlátt að þeir sem eiga þrjár, fjórar, fimm íbúðir og leigja þær út í skamman tíma greiði lægri skatta en hótel,“ sagði Sánchez og viðurkenndi að á Spáni væru of margar Airbnb-íbúðir en ekki nægilega margar íbúðir fyrir heimamenn.

Spánn og Ísland

Spánverjar í níunda sæti

Spánn hefur lengi verið einn helsti áfangastaður Íslendinga sem ferðast til útlanda en tölulegar upplýsingar um fjölda Íslendinga sem þangað ferðast voru ekki fáanlegar. Íslenskar ferðaskrifstofur bjóða upp á ferðir til margra áfangastaða á Spáni og Kanaríeyjum árið um kring.

Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu sóttu tæplega 72 þúsund Spánverjar Ísland heim á síðasta ári og voru í níunda sæti á lista yfir erlenda ferðamenn sem þá komu hingað til lands.