Kænugarður Vel fór á með Starmer og Selenskí í heimsókn Starmers.
Kænugarður Vel fór á með Starmer og Selenskí í heimsókn Starmers. — AFP/Roman Pilipey
Forsætisráðherra Breta, Keir Starmer, og Volodimír Selenskí Úkraínuforseti undirrituðu í gær nýtt samkomulag um varnarsamstarf til næstu hundrað ára, en Starmer heimsótti Kænugarð í gær. Starmer sagði að samkomulagið væri sögulegt og hið fyrsta sinnar tegundar

Forsætisráðherra Breta, Keir Starmer, og Volodimír Selenskí Úkraínuforseti undirrituðu í gær nýtt samkomulag um varnarsamstarf til næstu hundrað ára, en Starmer heimsótti Kænugarð í gær.

Starmer sagði að samkomulagið væri sögulegt og hið fyrsta sinnar tegundar. Þá undirstrikaði það þann mikla samhug sem ríkti á milli ríkjanna tveggja. Ríkin tvö skuldbinda sig samkvæmt samkomulaginu til þess að auka varnarsamstarf sitt á sama tíma og Bretar heita því að styðja við hergagnaiðnað Úkraínu. Þá er tekið fram í samkomulaginu að Bretar líti á Úkraínu sem bandalagsþjóð sem verði aðili að Atlantshafsbandalaginu í framtíðinni.

Selenskí sagði að tengsl Úkraínu og Bretlands væru nú nánari en nokkru sinni fyrr og sagði að samkomulagið væri mjög ítarlegt.

Bretar hafa nú þegar heitið Úkraínumönnum þremur milljörðum punda, eða sem nemur tæpum 517 milljörðum íslenskra króna, í hernaðaraðstoð á hverju ári svo lengi sem þurfa þykir til þess að verjast innrás Rússa.

Selenskí sagði fyrir fund sinn með Starmer að þeir myndu einnig ræða þann möguleika að vesturveldin sendu hermenn til Úkraínu til þess að tryggja vopnahlé, en Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur lagt slíkt til.

Starmer svaraði ekki hvort Bretar væru tilbúnir til þess að senda hermenn til Úkraínu en sagði að Úkraínumenn yrðu að vera í eins sterkri stöðu og mögulegt væri ef vopnahlé ætti að halda.

Starmer og Selenskí heimsóttu einnig minnismerki um fallna hermenn og lögðu þar kransa áður en þeir fóru á sjúkrahús þar sem særðir hermenn voru. Rússar sendu einn dróna til árásar á Kænugarð meðan á heimsókn Starmers stóð, og var hann skotinn niður.