„Vigdís forseti sagði á sínum tíma: Missir eins er missir okkar allra,“ sagði Leifur Ragnar Jónsson, prestur við Guðríðarkirkju í Grafarholti, í gærkvöldi þar sem minningarstund var haldin af því tilefni að 30 ár voru liðin frá mannskæða snjóflóðinu í Súðavík.
„Við munum ekki gleyma þessum degi, né þeim sem fórust, né þeim sem áttu og eiga um sárt að binda. Við munum heldur ekki gleyma þeim sem komu til hjálpar og lögðu líf sitt undir til að bjarga,“ sagði Leifur. Auk hans þjónuðu við athöfnina María Rut Baldursdóttir, prestur við Guðríðarkirkju, og Karl V. Matthíasson, fyrrverandi sóknarprestur við kirkjuna.
Þeirra fjölmörgu björgunarsveitarmanna, viðbragðsaðila og allra þeirra sem komu að björgunar- og hjálparstarfi var einnig minnst.
Karl rifjaði stuttlega upp aðstæður á Vestfjörðum er snjóflóðið varð, en hann var á þeim tíma prestur á Tálknafirði. „En ég varð að hjálpa. Ég fór í björgunarskýli á Ísafirði þar sem allir strákarnir og ungu mennirnir voru. Ég horfði yfir hópinn og sagði: Þið eruð hetjur,“ sagði Karl.
Ómar Már Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri í Súðavík, flutti einnig ávarp en hann var á skipinu Bessanum á leið í land í Súðavík er snjóflóðið féll. Hann minnti á hversu djúpstæð áhrif flóðið hafði á íbúa Súðavíkur.
„Við megum ekki gleyma því að harmleikurinn og náin tenging við sorgina hafði djúp áhrif á marga sem tóku þátt í leit og björgun. Fyrir suma varð þetta atvik til þess að líf þeirra breyttist að eilífu – það sem þau sáu og upplifðu í þessu stóra verkefni var bæði átakanlegt og ógleymanlegt,“ sagði Ómar. gsa@mbl.is