Miðbær Uppbyggingin yrði norðan smábátahafnar og vestan Rauðku-svæðis. Langbygging vísar í austur-vestur en þær styttri raðast í norður-suður.
Miðbær Uppbyggingin yrði norðan smábátahafnar og vestan Rauðku-svæðis. Langbygging vísar í austur-vestur en þær styttri raðast í norður-suður. — Mynd/T. ark arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Engin sátt er um breytingartillögu á deiliskipulagi miðbæjar Siglufjarðar sem T. ark arkitektar unnu fyrir hönd Samkaupa hf. og KSK eigna ehf. en í henni er gert ráð fyrir verslunarkjarna þar sem nú er tjaldsvæði fyrir ferðavagna, við hlið Rauðku-svæðisins

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Engin sátt er um breytingartillögu á deiliskipulagi miðbæjar Siglufjarðar sem T. ark arkitektar unnu fyrir hönd Samkaupa hf. og KSK eigna ehf. en í henni er gert ráð fyrir verslunarkjarna þar sem nú er tjaldsvæði fyrir ferðavagna, við hlið Rauðku-svæðisins.

Tillagan var kynnt á opnum íbúafundi 6. nóvember og fór í kjölfarið í skipulagsgátt en frestur til athugasemda var til og með 2. janúar. Alls bárust 32 umsagnir, jafnt frá einstaklingum sem stofnunum og fyrirtækjum, og sitt sýnist hverjum.

Frestur fram í febrúar

Ásgeir Ásgeirsson arkitekt og einn eigenda T. ark arkitekta segir í samtali við Morgunblaðið lítið að frétta af málinu. Umsagnir hafi borist sem verið sé að fara yfir í rólegheitunum.

„Skipulagsmál eru þannig að menn vilja bara anda með nefinu og eru að fara yfir þetta í ró og næði – sjá hvað er hægt að koma til móts við,“ segir Ásgeir. Það sé í raun undirbúningur fyrir að svara umsögnunum því að það beri að svara hverju einasta bréfi. Til þess hefur arkitektinn tíma fram í febrúar þegar fundað verður í skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar.

Ákvörðun sveitarfélagsins

„Sveitarfélagið tekur á því hvort haldið verði áfram eða ekki. Skipulagsráð fær svörin og samþykkir ef það er til í að halda málinu áfram eða það gæti hreinlega sagt að það vilji ekki halda málinu áfram,“ lýsir Ásgeir.

Segir hann að á skipulagsstigi séu aðeins gerðar grófar tillögur að byggingu til að hægt sé að átta sig á því hvernig hún gæti litið út og að ekki eigi að horfa of mikið í útlit, efnisval eða annað.

Á skipulagsstigi snúist hlutirnir meira um staðsetningu og umfang sem og hæð bygginga, staðsetningu bílastæða og annað. T. ark arkitektar og KSK eignir gera ráð fyrir lágreistum húsum og að byggingarnar verði aldrei hærri en þær sem eru þegar í næsta nágrenni.

Opnir fyrir samtalinu

Þegar blaðamaður ber umsagnir bæjarbúa og hagaðila undir arkitektinn er snúa að staðsetningunni þetta nærri fallegu miðsvæði bæjarmyndarinnar bendir hann á að í dag sé á umræddri lóð salernisaðstaða í einum skúr og yfir mesta ferðamannatímabilið á sumrin séu þar húsbílar. „Er það svona falleg bæjarmynd?“

Segir Ásgeir alla opna fyrir samtalinu og að í samráðsgátt hafi komið fram alls kyns ábendingar sem séu bara fínar. Þá segir hann íbúafundinn í nóvember hafa verið vel heppnaðan og að þar hafi skapast góð umræða þar sem hlutirnir voru ræddir opinskátt.

Umræðan snýst mest um staðsetninguna, að sögn Ásgeirs, sem segir aðrar staðsetningar hafa komið til greina. Ein sé í útjaðri bæjarins á lóð sem gengur undir nafninu bensínstöðvarlóðin og segir hann hægt að færa rök fyrir þeirri staðsetningu.

Bendir hann þó á að tillaga hafi verið unnin með KSK eignum fyrir verslunarkjarna á Húsavík sem áformað var að byggja utan miðbæjarins. Þá vildi fólk hafa slíka uppbyggingu í miðbænum. Því spyr hann hvað gerist ef lóð yrði valin á Siglufirði í útjaðri bæjarins. Rís þá annar hópur upp sem er á móti?

Auka það líf sem fyrir er

Að lokum segir Ásgeir matvöruverslanir sem þessar svolítið miðpunktinn í minni samfélögum. Þangað venji allir komur sínar og þá sé gaman að geta haft þær miðsvæðis og aukið það líf sem fyrir er í bænum.