Landeldisfyrirtækið Laxey í Vestmannaeyjum og JBT Marel hafa skrifað undir samning um afhendingu á Marel-vinnslu- og hugbúnaði fyrir væntanlegt sláturhús Laxeyjar fyrir eldislax.
Samningurinn þykir stórt skref fyrir Laxey en fyrirtækið stefnir á að framleiða 32 þúsund tonn á ári. Laxey hefur þegar hafið starfsemi á hátæknivæddri seiðastöð sem þýðir að senn ljúki fyrsta áfanga áframeldis í Viðlagafjöru.
Í lok síðasta árs var fyrsti seiðaskammtur fluttur í áframeldið og gert er ráð fyrir að fyrsta slátrun verði næsta haust.
Samningurinn snýr að Smartline-flokkara og AXIN-hugbúnaði Marels sem er notaður í fiskvinnslum um allan heim.
Með AXIN-hugbúnaðinum getur starfsfólk Laxeyjar stýrt vinnsluferlinu á hagkvæman hátt og brugðist við vandamálum eftir upplýsingum sem kerfið aflar í rauntíma. Smartline-flokkarinn veitir möguleika á að stærðarflokka lax með mikilli nákvæmni og hraða.