Jafnréttismál Kærumálum hefur fjölgað verulega undanfarin ár.
Jafnréttismál Kærumálum hefur fjölgað verulega undanfarin ár. — Morgunblaðið/Arnþór
„Svörin sem ég fæ er að málið verði afgreitt í þessum mánuði eða þeim næsta og svo gerist aldrei neitt. Nú er kominn miður janúar,“ segir Erna Guðmundsdóttir lögmaður í samtali við Morgunblaðið, en hún rekur fyrir kærunefnd jafnréttismála mál dr

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Svörin sem ég fæ er að málið verði afgreitt í þessum mánuði eða þeim næsta og svo gerist aldrei neitt. Nú er kominn miður janúar,“ segir Erna Guðmundsdóttir lögmaður í samtali við Morgunblaðið, en hún rekur fyrir kærunefnd jafnréttismála mál dr. Aldísar G. Sigurðardóttur sem lýtur að skipun karls í embætti ríkissáttasemjara, en þar var Aldís meðal umsækjenda.

Segir Erna að gagnaöflun í málinu hafi lokið í byrjun apríl í fyrra, en kveðið sé skýrt á um í lögum að þegar henni er lokið hafi kærunefndin tvo mánuði til að kveða upp úrskurð sinn. Úrskurð hefði þ.a.l. átt að kveða upp um miðjan júní, en ekkert bóli á honum enn, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Miklu skipti fyrir umbjóðanda sinn að fá niðurstöðu í málið.

Hún vekur athygli á því að fyrst hafi þessi málaflokkur verið hjá forsætisráðuneytinu og hafði verið fluttur þangað til að gefa jafnréttismálum meira vægi. Síðan hafi þessi mál verið færð yfir til félagsmálaráðuneytisins og þaðan til úrskurðarnefndar velferðarmála, án þess þó að heyra beint þar undir.

„Mér finnst mjög sérstakt að ekki skulu búið betur að svona mikilvægri nefnd,“ segir hún og vísar þar til þess að ekki sé búið að kveða upp úrskurðinn sem átt hefði að gera um miðjan júní 2024, en nú sá kominn miður janúar 2025. Segir hún að stjórnvöld þurfi að búa betur að kærunefnd jafnréttismála.

„Þarna er verið að brjóta málshraðareglu stjórnsýslulaga sem er brot á lögum og einnig er verið að brjóta verulega á rétti míns skjólstæðings til að fá úrlausn sinna mála,“ segir Erna.

Málum fjölgað um 40%

Ari Karlsson lögmaður, sem tók við formennsku kærunefndar jafnréttismála í október sl., segist ekki geta tjáð sig um einstök mál sem séu til meðferðar hjá nefndinni, spurður um þær tafir sem mál Aldísar hefur sætt.

„Í lögum um stjórnsýslu jafnréttismála segir að nefndin úrskurði innan tveggja mánaða í kærumáli sem er til meðferðar eftir að gagnaöflun er lokið,“ segir Ari.

Hann bendir á að ársskýrslu nefndarinnar sé skilað árlega til ráðherra. Í síðustu skýrslu komi fram að afgreiðslutími mála á árinu 2023 hafi verið sex mánuðir sem helgist af því að nefndin hafi ritara í hálfu starfi, nefndarmenn sinni þessum störfum með öðrum verkefnum og fjármögnun nefndarinnar sé, miðað við þann aukna fjölda mála sem henni berast, með þeim hætti að ekki hafi tekist að úrskurða í málum innan lögbundins frests. Það sé miður.

Ari segir málum sem kærunefndinni berast hafa fjölgað um 40% árið 2024 frá 2023. Segir hann að að óbreyttu muni afgreiðslutími mála lengjast enn verði ekkert að gert.

Hann nefnir og að breytingar hafi orðið á vistun nefndarinnar tvisvar á síðasta ári eftir að málaflokkurinn fluttist til félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytisins í september sl. Það og mannabreytingar hefði jafnframt haft áhrif á afgreiðsluhraða mála hjá kærunefndinni.